23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í D-deild Alþingistíðinda. (3938)

281. mál, landgræðsla sjálfboðaliða

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 358 að beina til hæstv. landbrh. svo hljóðandi fsp.:

„Hve miklu fé hyggst landbrn. verja á næsta sumri til frækaupa, áburðar og annars kostnaðar vegna sjálfboðaferða til gróðurverndar og landgræðslu í afréttum, sem ungmennafélög og ýmis önnur samtök ráðgera?“

Það munu hafa verið Laionsklúbbar svonefndir, sem hófu fyrir einum 4–5 árum þá starfsemi, sem hér um ræðir, en svo var það sumarið 1967, að ungmennafélagar úr Héraðssambandinu Skarphéðni fóru með áburð og grasfræ og dreifðu á svæði við Hvítárvatn á Biskupstungnaafrétti. Og þetta ágæta fordæmi Skarphéðins varð svo til þess, að á s.l. sumri fóru 9 hópar úr hinum ýmsu ungmennafélögum slíkar ferðir, Þingeyingar, Borgfirðingar, Austfirðingar, Húnvetningar, Árnesingar, Rangæingar, Reykvíkingar o.fl. og dreifðu grasfræi á örfoka land og land, sem er að blása upp. Ingvi Þorsteinsson og með honum Ólafur Ásgeirsson sáu um heildarskipulag þessarar starfsemi fyrir hönd þeirrar deildar Landgræðslunnar, sem nefnist Gróðurvernd og lagði hún, þ.e.a.s. deild þessi, fram áburðinn og fræið og allan flutningskostnað, en hvert handtak við dreifinguna var sjálfboðaliðavinna ungmennafélaganna. Og raunar komu fleiri, eins og ég sagði, við þessa sögu og þó einkum Laionsklúbbar. Og samkvæmt upplýsingum í grein í Tímanum eftir Ingva Þorsteinsson og í ræðu, sem hæstv. landbrh. flutti á nýafstaðinni ráðstefnu um landgræðslumál, tóku þátt í þessum ferðum á s.l. sumri 250 manns og var dreift samtals 70 lestum af áburði og 5 lestum af grasfræi á um 250 ha lands.

Á því leikur enginn vafi, að ungmennafélagshreyfingin gæti stóraukið þessa starfsemi og mundi fagna því að fá tækifæri til þess. Það væri áreiðanlega leikur einn fyrir hana að dreifa fimmföldu og jafnvel tíföldu því magni af áburði og fræi, sem hún dreifði á s.l. sumri. Þó var það, þrátt fyrir drjúgan árangur, ekki nema nokkur hluti hreyfingarinnar, sem tók þátt í þessu. Meiri hluti ungmennafélaganna bíður enn tækifæris að fá að taka þátt í þessari starfsemi, og þau ungmennafélög, sem þegar hafa gert það, ætla sér enn þá stærri hlut á næsta sumri. Þannig er t.d. með ungmennafélögin í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu, þar sem ég þekki nokkuð til og var raunar svo heppinn að fá að taka þátt í landgræðsluferð þeirra á s.l. sumri. Þessi félög gætu án efa á næsta sumri teflt fram þrefalt eða fjórfalt fjölmennara liði og mundu fegin vilja tefla fram þrefalt eða fjórfalt fjölmennara liði en þau tefldu fram til þessara starfa á s.l. sumri.

En er þá nokkuð því til fyrirstöðu að fimmfalda eða jafnvel tífalda þessa starfsemi, eins og ég var að tala um? Til þess þyrfti að sjálfsögðu fimm eða tíu sinnum meira magn af fræi og áburði auk flutningskostnaðarins, og þar kemur til kasta hins opinbera. Hvað hyggst það kosta til miklu fé í þessu sambandi? Það er á valdi hins opinbera og þá fyrst og fremst hæstv. landbrh. Maður gerir þá ráð fyrir, að flokksbróðir hans, hæstv. fjmrh., hafi fullan skilning á málinu, en það er á valdi hæstv. landbrh. að ákveða, hve mikið þessi starfsemi skuli aukast. Það fer allt eftir fjárframlögum til hennar, því að hvort sem hæstv. ráðh. ákveður að sent skuli á næsta sumri upp í óbyggðirnar, upp á afréttarlöndin, þar sem uppblásturinn og önnur slík eyðing hefur helzt til lengi fengið að leika lausum hala, — hvort sem hann ákveður, að á næsta sumri skuli sent tvisvar sinnum meira magn af áburði og grasfræi þangað upp, en á s.l. sumri eða fimm sinnum meira eða tíu sinnum meira, þá mun áreiðanlega ekki standa á ungmennafélögunum að bregða sér á vettvang og dreifa því.