23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í D-deild Alþingistíðinda. (3940)

281. mál, landgræðsla sjálfboðaliða

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Það er ánægjulegt að heyra, að hann hefur mikinn skilning á þýðingu þeirrar starfsemi, sem hér um ræðir. Hann vill, að hún verði aukin og má víst segja, að sæmilega sé á þessu haldið af hans hálfu, því að mér virðist eftir fyrri upplýsingum, sem ég hef fengið, að sú fjárveiting, sem ætluð er til þessarar starfsemi á sumri komanda sé helmingi hærri en það, sem varið var til hennar á s.l. sumri. Þó er þetta, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, — þó er þetta framlag, sem ætlað er til starfseminnar á næsta sumri, langt frá því að vera fullnægjandi. Það er langt í frá, að það geti fullnægt óskum ungmennafélaganna um að mega leggja fram sjálfboðavinnu sína til þess að hefta uppblástur landsins og breyta auðnum þess í gróðurlendi.

Mér sýnist reyndar að landgræðslumálin öll þarfnist athugunar og endurskoðunar. Ég vil ekki gera lítið úr gildi skógræktar, en ég hef lengi haft nokkurn grun um það, að vegna þess, hve skógræktin hefur haft á að skipa óarðsæknum áróðursmönnum, hafi hún skyggt nokkuð á þá tegund landgræðslu, sem hér um ræðir, á nauðsyn hennar, bæði að því er snertir viðhorf almennings og fjárstyrk af opinberri hálfu. Kannske má orða þetta þannig, að stjórnarvöldin og þjóðin sjálf hafi gengið helzt til mikið upp í skógræktinni og þess hafi fyrir bragðið ekki verið gætt sem skyldi að græða sár landsins með því að sá gróðri, sem að vísu er ekki eins tilkomumikill og tré, — tekur sig ekki eins vel út á mynd og tré, en dugar þó bezt og mestu munar og ég á þar við blessað grasið. Það skyldi sem sé ekki vera, að hinni göfugu hugsjón, skógræktinni, hafi fylgt sú þversögn, að við höfum, Íslendingar, á undanförnum árum mænt svo heillaðir á rómantíska fegurð ýmissa trjátegunda, að okkur hafi láðst að taka sem skyldi tillit til þeirrar órómantísku staðreyndar, að á meðan hefur land okkar eða dýrmætasti hluti þess, þ.e.a.s. gróðurmoldin haldið áfram að fjúka á haf út.

Þegar ég segi, að landgræðslumálin þarfnist endurskoðunar, þá á ég líka við, að skipulagi þeirra þyrfti að breyta. Hinir ýmsu þættir þeirra ættu að sjálfsögðu allir að vera undir einni stjórn. Skógræktin ætti ekki að starfa sér á parti. Með slíku fyrirkomulagi fæst ekki það samræmi í aðgerðir, sem nauðsynlegt er, enda skilst mér, að til þess að hefta fullkomlega uppblástur lands, til þess að tryggja fullkomna gróðurvernd, þyrfti að koma til þáttur skógræktarinnar, eftir að sár landsins hefðu verið grædd með grasi og jafnframt því þyrfti að sá ýmsum tegundum lægri trjágróðurs, sem er nógu harðgerður til þess að vaxa uppi á öræfum. Ráðstefna sú, sem nýlega var haldin um landgræðslu, markar vonandi tímamót í þessu, — upphaf þess, að betri skipan komist á um þessi mál. En undirstaðan hlýtur samt að vera grasið. Það, sem mestu máli skiptir er að færa út ríki þess á landi okkar. Ég vil þó ítreka, að ég er síður en svo að telja eftir fjárframlög til skógræktar, þvert á móti, þau mættu gjarnan aukast mín vegna. En engin goðgá mundi það vera að mínum dómi, þótt ögn yrði dregið úr áróðrinum fyrir skógrækt, hvort sem hún á að vera til skrauts eingöngu eða til nytja, eins og stundum er talað um — til nytja einhvern tíma síðar meir í sögu þjóðarinnar, — en þess í stað verði hafin öflug herferð fyrir þeirri tegund landgræðslu, sem hér er til umr. og fjárframlög til hennar ekki bara tvöfölduð, heldur tífölduð a.m.k.

Svo endurtek ég þakkir mínar til hæstv. ráðh. og læt í ljós gleði mína yfir þeim skilningi, sem hann sýnir þessu máli.