23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í D-deild Alþingistíðinda. (3949)

194. mál, tollstöðvarbygging við Reykjavíkurhöfn

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði, sem ég vildi víkja að. Annars vegar seinna atriðið, sem hv. ræðumaður kom inn á, varðandi leigu á þessu stóra húsrými, sem þarna er um að ræða, hvort ekki væri hæpið að leigja það í stað þess að hafa það til afnota til að geta tekið þar inn farma frá ýmsum skipafélögum. Sjónarmið hans er fullkomlega eðlilegt, af því að það getur verið nauðsynlegt að gera þetta. Hitt er aftur á móti staðreynd, að hér er um geysilega stórt húsrými að ræða, sem hefði verið alveg ófært að láta standa ónotað og það eru litlar líkur til þess, að þurfi að taka inn farma, sem þurfa að vera langan tíma á þessum stað. Þetta hús verður að öllu leyti undir mjög nákvæmu eftirliti tollsins, og það er gengið út frá því, að ekkert sé því til fyrirstöðu, að þarna sé hægt að taka inn og afmarka farma, sem kunna að vera frá öðrum skipafélögum.

Húsið er þannig byggt og með ákveðnum skilmálum frá Reykjavíkurborg, að þarna varð að byggjast mjög stórt hús og kannske hlutfallslega stærra varðandi birgðageymslu, en tollurinn sjálfur hefði þurft á að halda, ef hann hefur ætlað að nota það til skoðunar og var auðvitað ekki neitt vit í öðru en að leigja þann hluta hússins. Ég held, að mér sé alveg óhætt að fullyrða, að það verði gengið vendilega frá því, að hægt sé að koma við slíkri skoðun.

Varðandi farþegana er það að segja, að það er ekki ætlazt til, að framvegis þurfi að nota þessa bágbornu aðstöðu,sem er þarna á hafnarbakkanum og hv. þm. vék að. Það kann hins vegar að verða einhver bið á því, vegna þess sem hv. þm. er líka kunnugt, að þetta hús er byggt með mjög sérstökum hætti út frá skipulagsreglum Reykjavíkurborgar. Eins og ég vék að áðan, verður byggð þarna brú, sem er framhald af götu, sem á að liggja einni hæð ofar en núverandi hafnarbakki er, þannig að Reykjavíkurborg verður að taka að sér framlengingu á þessari götu. Tollstöðinni var gert að skyldu að byggja hluta götunnar þarna uppi í loftinu og síðan á að koma framhald af götunni í báða enda, sem Reykjavíkurborg verður að sjálfsögðu að sjá um, en meðan ekki er frá þessu gengið, þá getur þarna verið nokkur erfiðleiki á að koma öllum farþegum þarna upp. Það er ætlazt til þess, að þetta geti samt orðið mjög skjótlega og ég hygg, að Reykjavíkurborg hafi í huga, að það geti orðið og það er fullkomin aðstaða til þess í þessari nýju tollstöðvarbyggingu, mjög góð aðstaða er mér óhætt að segja til þess að láta fara fram í byggingunni sjálfri þessa tollgæzlu á farþegum og með þessu húsrými og með því skipulagi, sem gert er ráð fyrir að þarna verði í kring, þá eigi að vera hægt að skapa þarna mjög lokaða aðstöðu til þess einmitt, að hægt sé að koma við með miklu betri hætti, en nú er þessari rannsókn á farþegum. En eins og ég segi og eins og menn sjá vafalaust, sem skoða þessa byggingu og sjá þessa brú, sem er hæð ofar en gatan, þá hefur þarna skapazt vandamál, sem ekki leysist að fullu, fyrr en Reykjavíkurborg hefur framlengt þessa ökubrú, sem þarna á að koma. Þá leysist þetta af sjálfu sér.