23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í D-deild Alþingistíðinda. (3955)

205. mál, auknar sjúkrabætur

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur gert grein fyrir fsp. sinni, en með bréfi dags. 13. maí 1968 sendi félmrn. Tryggingastofnun ríkisins till. þessa til þál. um auknar sjúkratryggingar til sjúklinga, sem leita þurfa lækninga erlendis. Á fundi tryggingaráðsins hinn 29. maí s.l. var samþ. að vísa erindinu til athugunar til formanns ráðsins, tryggingayfirlæknis og skrifstofustjóra, en þeim hafði á fundi ráðsins 8. febr. næsta ár á undan verið falið að athuga reglur um fyrirgreiðslu við sjúklinga, sem ekki geta fengið læknishjálp hér heima.

Grg. stofnunarinnar barst rn. með bréfi, dags. 9. nóv. 1968, ásamt svo hljóðandi till. til lagabreytingar:

Heilbrmrh. er heimilt að ákveða með reglugerð, að sjúkrahús ríkisins skuli kosta vistun sjúklinga á erlendu sjúkrahúsi ásamt læknishjálp og annarri þjónustu, enda hafi yfirmaður sjúkrahúsdeildar þeirrar, sem sjúklinginn sendir, úrskurðað, að honum sé brýn nauðsyn á að fara utan, vegna þess að ekki sé unnt að veita fullnægjandi hjálp á íslenzku sjúkrahúsi og ákveðið, hvar hjálparinnar skuli leitað. Í reglugerðinni má og ákveða að höfðu samráði við félmrh., að sjúkrasamlag sjúklingsins greiði ríkissjúkrahúsinu aukið daggjald þann tíma, sem sjúklingurinn er vistaður á kostnað þess.“

Þessi lagabreyting mundi hafa í för með sér verulegan kostnaðarauka og gæti í ýmsum tilfellum orðið litlum og fámennum sjúkrasamlögum allþung í skauti.

Í till. er gert ráð fyrir heimild til, að sjúkrasamlag sjúklingsins greiði ríkissjúkrahúsi kostnað eða aukið daggjald þann tíma, sem sjúklingurinn er vistaður á kostnað þess, að höfðu samráði við félmrh. Í ákvæðunum felst jafnvel, að allur þessi kostnaður verði lagður á sjúkrasamlagið. Það gæti að sjálfsögðu haft í för með sér, eins og ég sagði áðan, verulega hækkun iðgjalda hlutaðeigandi samlags og um leið hækkun á framlagi sveitarsjóða og ríkissjóðs, enda ákaflega erfitt að áætla fyrir fram upphæðirnar í þessu tilfelli.

Athugun sú, sem tryggingaráð fól áður nefndum aðilum í tilefni af þál., sem ég áðan nefndi, leiddi aðeins til þess, að framangreind brtt., sem ég las áðan, væri hagkvæmasta lausn málsins. Það virðist út af fyrir sig ekki óeðlilegt, að þessi kostnaðarauki verði lagður á sjúkratryggingarnar með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í till. Kerfisbreyting hefur nú átt sér stað á daggjöldum sjúkrahúsa og er því nauðsynlegt að endurskoða málið allt í ljósi þeirra breytinga, sem sú kerfisbreyting hefur í för með sér.

Ríkisstj. hefur af framangreindum ástæðum ekki tekið ákvörðun um að beita sér fyrir lagasetningu þessarar brtt. enn þá, en mun væntanlega gera það, áður en langur tími líður.