23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í D-deild Alþingistíðinda. (3956)

205. mál, auknar sjúkrabætur

Fyrirspyrjandi (Jón Árnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin og ég vænti þess, að þessi till., sem hér hefur verið skýrt frá, komi til framkvæmda sem fyrst eða þá eitthvað annað hliðstætt, sem gæti komið að svipuðum notum fyrir þá, sem í hlut eiga. Það er augljóst mál, að hér er um verulegar fjárhæðir að ræða og einhvers staðar verða þær niður að koma, annaðhvort hjá Tryggingastofnuninni eða þá að hluta til hjá sjúkrasamlögunum eins og hæstv. ráðh. gat um, að ætlunin væri með þeirri till., sem hann skýrði frá. Hvort heldur sem verður, þá endurtek ég, að hér er um stórmál að ræða fyrir þá, sem í hlut eiga og getur oltið á mjög miklu fyrir þá, hvenær og hvernig þessi mál verða afgreidd.