20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

1. mál, fjárlög 1969

Frsm. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Mér þykir viðeigandi að skýra afstöðu minni hl. við þessa umr., sem er óbreyttur frá 2. umr. frv., og því miður náðist ekki samstaða í fjvn. um till. okkar viðvíkjandi atvinnumálum.

Eins og fram kom hér í umr. við 2. umr. fjárl., lögðum við megináherzlu á það, að reynt yrði að ná samstöðu um að undirbyggja það, að hægt væri að mæta þeim atvinnuörðugleikum, sem nú eru framundan. Og það kom fram í ræðu hæstv. fjmrh., að hann gerði ráð fyrir því, að síðar í vetur yrði að taka þetta mál til meðferðar. Við lýstum þá hins vegar yfir, sem stóðum að nál. minni hl., að við legðum á það mikla áherzlu, að Alþ. viðurkenndi þessi sjónarmið og geymdi fjárhæð til að mæta því. Því miður náðist ekki þessi samstaða. Þó er ég sannfærður um það, að þegar fram á veturinn kemur, verður að taka það mál til meðferðar og afla fjár á einn eða annan hátt til þess að mæta þessu verkefni. Við endurflytjum því till. okkar frá 2. umr. um þessi fjárútlát og í þeirri mynd, sem ég boðaði við 2. umr., þar sem við gerum ráð fyrir því, að nokkurs hluta fjárins verði aflað með lántöku. Ég taldi, eins og fram kom við 1. umr. um fjárlagafrv., þegar ég mælti þá fyrir hönd Framsfl., að það bæri nauðsyn til að líta til þess atvinnuástands, sem er í landinu, og þeirra viðhorfa, sem þar eru. Til þess að mæta þessu hefur okkur framsóknarmönnum fundizt það eðlilegt, að nú við fjárlagaafgreiðslu væri lögð höfuðáherzla á, að ríkið sjálft beitti sér fyrir verklegum framkvæmdum. Það eru tveir málaflokkar, sem við höfum talið, að mesta áherzlu þyrfti að leggja á nú og sem væru vel til þess fallnir að draga úr atvinnuleysi eða auka öryggi atvinnu. Þessir málaflokkar eru skólar og vegir. Ég ætla við þessa umr. lítils háttar að minnast á skólamálin og afgreiðslu þeirra. Ég vil taka það fram í sambandi við afgreiðsluna á skólamálum, að það er ekki ágreiningur í n. um einstakar skólaframkvæmdir. Um það náðist samstaða innan þess ramma, sem n. hafði til að skipta. Ég skal segja það í sambandi við þá meirihlutamenn, að það var lögð í það veruleg vinna og reynt af þeirra hendi sem okkar að ná samstöðu um þetta, en auðvitað vorum við bundnir af þeirri fjárhæð, sem endanlega var ákveðin af hæstv. ríkisstj. til þessara mála. Öllum er það ljóst, að mikil þörf er á auknum skólabyggingum. Það er mikill misskilningur að halda því fram, að fjárþörf til skólabygginga sé fullnægt. Það er langt frá því, að svo sé. Þó er því marki ekki náð, og er ástæðulaust að vera að halda slíku fram. Eins og fram kemur á þeim skýrslum, sem fyrir fjvn. lágu frá fræðslumálastjóra, voru um 20 skólabyggingar, sem ekki fá fjárveitingu af þeim, sem sótt var um fjárveitingu til. Á till. fjvn., brtt. á þskj. nr. 200, kemur það í ljós, að það eru nærri 20 skólabyggingar þar, sem ekki fá þá fjárveitingu, sem nægir þeim til framkvæmda. Þetta sýnir að það er langt frá því, að þessum verkefnum sé fullnægt með fjárveitingu og um það þarf ekki að deila. Til viðbótar því er svo þess að geta, að við marga heimavistarskólana og skóla úti um landið yfirleitt er það svo, að ekki er hægt að fullnægja skólaskyldunni að því leyti, að börnin fá þar mun styttri tíma heldur en í kaupstöðum og kauptúnum. Meðan ekki er hægt að fullnægja þeirri þörf, að öll börn á landinu hafi jafnlanga skólaskyldu eða a.m.k. það langa, að að mati skólarannsóknanna sé hún metin til jafns, er ekki hægt að halda því fram, að það sé fullnægt þeim fjárþörfum, sem eftir er sótt og nauðsyn ber til í sambandi við skólabyggingarnar.

Út af því, sem fram kom hér í umr. á dögunum um tímalengd þá, sem er til að greiða skólabyggingarnar, þá vil ég aðeins víkja nokkrum orðum að nýju fræðslul. Þegar þau voru til meðferðar hér á hv. Alþ., var þeirri löggjöf hraðað mjög í gegnum þingið og að mínum dómi og fleiri þm. með meiri hraða heldur en eðlilegt og æskilegt var. Þetta var það stór lagabálkur, að það var ástæða til að geyma sér hann á milli þinga, svo að væri hægt að endurskoða hann og búa hann betur undir það verkefni, sem hann átti að leysa. Um það fékkst ekki samkomulag hér á hv. Alþ., og það var gert ráð fyrir því í lögunum, að þau tækju gildi þá þegar, en þó ekki að öllu leyti fyrr en 1. sept. 1968. Reyndin hefur hins vegar orðið sú, að ekkert af lögunum tók gildi fyrr en 1. sept. 1968. Og enn þá er ekki svo mér sé kunnugt um búið að setja reglugerð um framkvæmd þessara laga. (Gripið fram í: Það er búið.) Þá hefur það gerzt núna í gær eða í fyrradag. Þegar var verið að vinna að þessum málum í fjvn. til 2. umr., þá var það talið af þeim, sem þar voru kunnugir, að væri ekki búið að setja þessa reglugerð. En gleðilegt er það, að árið 1968 skyldi nú ekki allt líða án þess að því væri komið í verk að setja þessa reglugerð. Þetta sýnir það, að sú stefna, sem ég og fleiri héldum hér fram á Alþ. 1967 og haldið var fram af hálfu nm. okkar í menntmn., t.d. hv. 1. þm. Vestf., að nauðsyn bæri til, að þessu máli væri ekki hraðað svo í gegnum þingið eins og þá var gert, hefur verið rétt.

Ég álít, að það skipti verulegu máli, hvernig til tekst með framkvæmd á þessum l. Og í sambandi við skólabyggingarnar eru í þeim ákvæði, sem geta haft veruleg áhrif fyrir byggðarlögin. Það eru sjö barnaskólar, sem á að hefja framkvæmdir við og eru undir l. 1967, framkvæmdir þeirra eru byggðar á svokölluðum normum. Það er áætlun,sem byggingadeild menntmrn. hefur gert um kostnað við þessa skóla. Það er ekki gert ráð fyrir því, að kostnaðurinn í framkvæmdinni geti breytzt á neinn hátt, þannig að ríkið sé bundið því, nema sem varðar verðhækkanir, þannig að ef þessar áætlanir eru langt frá réttu mati, lendir það á þeim byggðarlögum, sem að framkvæmdinni standa. Hér finnst mér vera veigamikið atriði á ferðinni, sem verður að treysta, að sé, ég verð að segja það, að ég ber nokkurn ugg í brjósti í sambandi við þetta, því að m.a. var það svo, að meðan var verið að fjalla um skólamálin hjá fjvn. Alþ., þá breyttust áætlanir um þær skólabyggingar frá fyrsta fundi, sem ég sat í n., til þess síðasta og það um nokkuð verulegar fjárhæðir, eða ég hygg 5–10 millj. hvor skóli. (Gripið fram í.) Þeir skólar voru Hafralækur og Stóru-Tjarnir. Ég fékk ekki skýringar á þeim breytingum, sem á höfðu orðið á þessum dögum, en þegar frá málunum var skýrt á fyrsta fundinum af Torfa Ásgeirssyni, einum af starfsmönnum í byggingadeildinni eða Efnahagsmálastofnuninni, var talið, að þessar áætlanir hefðu verið endurskoðaðar í sumar og frá þeim gengið eins og þær mundu verða. Þess vegna hrökk ég við, þegar svo veigamiklar breytingar höfðu orðið á þessum fáu dögum.

Nú verð ég að segja það, að ég vonast til þess, að með þessi mál verði farið samvizkusamlega og reynt að gera áætlanirnar sem raunhæfastar. En samt hefur sú reynsla, sem ég hef af því sem þm. að vinna að þessum málum, sannað það, að þó að áætlanir hafi verið vel unnar að dómi þeirra, sem um þær hafa fjallað, hefur kostnaðurinn verulega breytzt umfram þær verðhækkanir, er síðar hafa orðið. A þessu atriði nýju laganna vildi ég vekja sérstaka athygli. Og ég undirstrika það, að ég treysti því, að hér verði samvizkusamlega og dyggilega að unnið, því að hér getur verið um stórkostlegt fjárhagsmál að ræða fyrir byggðarlögin.

Það var vitnað til þess í umr. þeim, sem fram fóru hér um daginn, að ég og aðrir framsóknarmenn í fjvn. hefðum staðið að því að samþykkja fjárveitingar um fjögurra ára greiðsluskylduna, og það er að því leyti rétt, að okkur fannst það hyggilegra að taka þarna inn fleiri skólabyggingar, þegar vitað var, að meira fékkst ekki til skólanna. Ég vildi segja það, án þess að ég ætli að fara að orðlengja um fjárlagafrv. við þessa umr., að ég teldi það mikið atriði, og ef okkar till. hefði náð fram að ganga um fjárveitingu til atvinnumála, eða þegar það mál verður afgr. í hæstv. ríkisstj., sem verður gert, þó að okkar till. verði felld, það er ég sannfærður um, því að slíkir hlutir eins og atvinnumálin koma á dagskrá, þó að þeim sé ýtt frá á einhverju tímabili, þá hefði ég viljað benda á það, að skólabyggingarnar eru eitt af þeim málum, sem eru góð framkvæmdaratriði í sambandi við atvinnumál. Það væri t.d. mjög mikið atriði í sambandi við atvinnumálin að gefa trésmíðaverkstæðunum víðs vegar úti um landið möguleika á því að vinna að innréttingum og öðru því, sem hægt er að vinna innanhúss í sambandi við skólabyggingarnar 1969. Mér er kunnugt um það, að mörg trésmíðaverkstæði, sem hafa unnið við skólabyggingar, standa nú uppi verkefnalaus, og væri því mjög áríðandi, að til þess arna væri litið. Ég held, að það orki ekki tvímælis, að verkefnin í skólabyggingunum eru mikil, og það er líka rétt, að það skortir mikið á, að við höfum leyst þau svo sem nauðsyn ber til. Þess vegna er aðalatriðið ekki það, hvort við borgum það á 3, 4 eða 5 árum, ef við gætum tryggt, að það væri borgað á 4 eða 5 árum, þá mundi ég samþykkja það, ef við gætum fjölgað skólabyggingum og gert á fleiri stöðum átak. En aðalatriðið er, að það yrði þó ekki langur tími, sem þetta væri algerlega gert upp, og að við notum einmitt skólabyggingarnar til þess að leysa atvinnumálin líka.

Skólamálin og samgöngumálin eru e.t.v. þau mál, eins og ég gat um í upphafi, sem mest kalla á hjá þjóð okkar nú. Við þurfum því að meta rétt nauðsynina og nota þær framkvæmdir, sem við gerum, til þess að bæta úr atvinnunni, til þess að leysa einnig skólamálin.