23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í D-deild Alþingistíðinda. (3968)

285. mál, rekstur Landssmiðjunnar

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Hæstv. núv. ríkisstj. er ekki hliðholl ríkisrekstri á fyrirtækjum, eins og alkunnugt er. Því miður virðist manni, að þessi afstaða hæstv. ríkisstj. birtist ekki aðeins í almennri stefnuafstöðu, heldur stundum í því, að hún hreinlega afrækir mikilvæg fyrirtæki, sem komið hefur verið á laggirnar og gegnt hafa mjög þjóðnýtu hlutverki. Um þetta eru mörg dæmi, en í fsp. er gert að umtalsefni eitt slíkt fyrirtæki, Landssmiðjan, sem hefur sett mjög mikið ofan að undanförnu.

Landssmiðjan var eitt af öflugustu fyrirtækjum þjóðarinnar, og á stríðsárunum síðustu unnu þar um og yfir 300 manns. Nú er svo komið, að starfsmenn þessa fyrirtækis eru aðeins 80—90, ef skrifstofufólkið er með talið. Það hefur verið grafið undan þessu fyrirtæki á flestum sviðum og þessi þróun hefur verið ákaflega ör síðustu árin. Ég hygg, að velta fyrirtækisins hafi dregizt saman um helming síðan 1966, á aðeins tveimur árum. Það er alkunna, að einkasmiðjurnar hafa ýtt mjög á eftir við hæstv. ríkisstj. að takmarka starfsemi Landssmiðjunnar, vegna þess að einkaaðilarnir hafa ekki talið sig geta þolað almenna samkeppni við þetta fyrirtæki og viljað tryggja sér þá einokunaraðstöðu, sem sumar smiðjurnar hafa í sameiningu, ef Landssmiðjan kemur ekki til. Og ég hef haft af því spurnir, að nú séu uppi ráðagerðir um að þrengja kosti Landssmiðjunnar mjög mikið, að takmarka starfssvið hennar svo, að hún verði aðeins þjónustufyrirtæki fyrir nokkur ríkisskip, sem gerð eru út frá Reykjavík, en hætti allri þátttöku sinni í störfum á hinum almenna markaði. Þessi ákvörðun, sem vafalaust er verið að ræða um þessar mundir í hæstv. ríkisstj., er áframhald af verulegum samdrætti, eins og ég sagði áðan. T.d. var ekki alls fyrir löngu lögð niður trésmiðadeild Landssmiðjunnar, sem takmarkaði mjög verkefnamöguleika hennar og þar var í staðinn komið upp verknámsdeild Iðnskólans, sem er ákaflega einkennileg framkvæmd.

Mér er kunnugt um, að þegar þessi breyting var gerð, fóru býsna mikil verðmæti forgörðum, vélar og tæki, sem ekki var lengur ástæða til að nota og mér er einnig kunnugt um, að á hálfri hæð eru enn þá vélar og tæki, sem nema miklum verðmætum og alls ekki eru notuð vegna þessarar breytingar. En vegna þessa almenna umtals, að nú eigi að fullkomna þróun, sem hefur verið að gerast að undanförnu með því að takmarka mjög stórlega starfsemi Landssmiðjunnar, þá hef ég leyft mér að bera hér fram fsp. í 8 liðum. Þær eru svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

l. Hverjar eru ráðagerðir ríkisstj. um frambúðarrekstur Landssmiðjunnar?

2. Hafa viðskipti ríkisstofnana við Landssmiðjuna dregizt saman síðustu árin, og ef svo er, hvers vegna?

3. Hvers vegna eru ýmis ríkisfyrirtæki látin reka málmiðnaðarverkstæði í stað þess að fela Landssmiðjunni þau verkefni?

4. Er ekki unnt að auka samvinnu Landsvirkjunar og Landssmiðju í sambandi við framkvæmdir á járniðnaðarvinnu við vatnsaflsvirkjanir?

5. Hvers vegna eru Landssmiðjunni ekki falin þau verkefni, sem hún getur annazt fyrir Síldarverksmiðjur ríkisins, Sementsverksmiðju ríkisins, Skipaútgerð ríkisins, Kísilgúrverksmiðjuna og fleiri ríkisstofnanir?

6. Hvers vegna var húsakostur Landssmiðjunnar þrengdur með því að setja þar upp verknámsdeild Iðnskólans í stað þess að ljúka við fokhelda byggingu við Iðnskólann í Reykjavík?

7. Hver var kostnaður við breytingar á húsnæði Landssmiðjunnar, sem verknámsdeild Iðnskólans notar nú?

8. Hefur Landssmiðjan fengið greidda húsaleigu fyrir það húsnæði, sem verknámsdeildin notar?