20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

1. mál, fjárlög 1969

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. gerði ég grein fyrir því, að ég flytti fremur brtt. vegna trúnaðar við gamla þinghefð en að ég hefði trú á því, að þær hlytu undirtektir hjá hv. þm. stjórnarflokkanna. Ég komst svo að orði, að seinustu árin hefði það orðið algild regla, að þingmannatillögur næðu ekki fram að ganga, ekki ein einasta. Sem betur fór kom í ljós, að ég var full svartsýnn í þessum ummælum mínum. Í atkvgr. daginn eftir gerðist það, að tvær þingmannatill. voru samþykktar, önnur um 1/2 millj. kr. aukningu á útgjöldum ríkissjóðs, hin um 2 millj. kr. sparnað, þar sem jafnframt var þrýst á dálítið viðkvæman blett í stjórnkerfi hæstv. ríkisstj.

Ég vil gera mér vonir um það, að þessi nýskipan, að þingmannatillögur geti hlotið samþykki hér á þingi, sé fyrirboði þess, að áfram verði haldið á þeirri braut. Eins og ég rakti við 2. umr., tel ég, að meðferð fjárl. hafi seinustu árin verið allt of fast bundin, það sé engin ástæða til þess að binda hverja einstaka smáákvörðun með flokkasamþykktum. Það sé vel hægt að skilja eftir ýmsar ákvarðanir og bera það undir dóm þm. almennt um mál, sem t.d. eru ekki í tengslum við stefnu flokkanna. Auk þessara till., sem þarna voru samþykktar, hafa orðið nokkrar breytingar frá 2. til 3. umr. Við 2. umr. flutti ég till. um verulega hækkun á framlagi til Lánasjóðs íslenzkra námsmanna. Ég gerði þá grein fyrir því, að gengislækkanirnar tvær hefðu bakað námsmönnum ákaflega stórfelldan vanda og að hætta væri á því, að tugir og jafnvel hundruð manna yrðu að hætta námi í miðjum klíðum, ef ekki kæmi aukin aðstoð til. Við umr. um breytingu á 1. um Lánasjóð vakti ég einnig athygli á þessu máli og lagði þar til, að hæstv. ríkisstj. yrði veitt heimild til lántöku til þess að leysa vanda í þessu sambandi.

Nú hefur það gerzt í sambandi við 3. umr. fjárl. og lokaafgreiðslu þeirra, að fram er komin till. frá meiri hl. fjvn., þar sem ríkisstj. er heimilað að ábyrgjast allt að 8 millj, kr. lán til Lánasjóðsins. Mér skilst, að ætlunin sé, að þetta lán eigi að koma sem aukning á þeim fjármunum, sem sjóðurinn hafði áður yfir að ráða, ekki samt til almennrar úthlutunar, heldur til þess að leysa vanda námsmanna, sem kunna að lenda í algerum þrotum. Og ég fagna því, að undir þetta sjónarmið hefur verið tekið á þennan hátt, þó að ég telji, að þessi upphæð sé of lág til að leysa þann vanda, sem við er að eiga. Engu að síður er það fagnaðarefni, að þarna hefur verið tekið undir. Ég tel hins vegar óeðlilegt, að hæstv. ríkisstj. hafi þann hátt á að láta sjóðinn taka þetta lán, en hafa aðeins ríkisábyrgð fyrir honum, vegna þess að þegar sjóðurinn tekur lán, verður hann að taka það með venjulegum bankavöxtum. Hins vegar veitir hann lánin með miklu hagstæðari skilyrðum. Lánin eru vaxtalaus, meðan nemandi stundar nám, og eftir það eru vextirnir 5%, þannig að sjóðurinn tapar verulegri upphæð vegna þessa vaxtamismunar. Og ef sjóðurinn ætti að bera það, væri að sjálfsögðu gengið á stofnfé hans. (Gripið fram í.) Nei, þá væri miklu skýrara að gera þetta eins og ég legg til á brtt. á þskj. 216, að ríkissjóður taki þetta lán og leggi sjóðnum það til sem aukaframlag til þess að leysa þennan sérstaka vanda. Eins og þetta er formað frá meiri hl. fjvn. er til þess ætlazt, að sjóðurinn taki þetta lán, en ríkissjóður ábyrgist það aðeins. (Menntmrh.: Sjóðurinn verður skaðlaus.) Það má vel vera, að þetta verði þannig framkvæmt, en þá er hreinlegra að gera það á þennan hátt, eins og ég legg þarna til.

Við 2. umr. fjárl. flutti ég einnig ásamt tveimur hv. þm., Jónasi Árnasyni og Sigurði Grétari Guðmundssyni, till. um verulega hækkun á framlögum til listamanna. Þegar ég gerði grein fyrir því máli, vakti ég m.a. athygli á því, að um væri að ræða býsna langvarandi vanefndir frá hæstv. menntmrh. á loforði hans um sérstaka starfsstyrki handa ungum listamönnum. Nú hefur það gerzt frá 2. umr. til hinnar 3., að flutt er till. um hækkun á þessum lið um 470 þús. kr., og hv. form. fjvn. skýrði frá því hér áðan, að ætlunin væri, að þessi upphæð færi til þess að hefja þessa starfsemi, starfsstyrki handa ungum listamönnum. Ég tel einnig ástæðu til þess að fagna því, að þarna er komið til móts við þau sjónarmið, sem ég gerði grein fyrir við 2. umr. Hins vegar er ég enn þeirrar skoðunar, að þessi upphæð sé til muna of lág. Bæði tel ég, að þessi nýja upphæð, sem á að renna til starfsstyrkja, sé miklu lægri en svo, að hún komi að því gagni, sem hún ætti að gera, og eins er heildarupphæðin, sem notuð er til almennra styrkveitinga, svo lág, að það er engin leið að úthluta henni þannig, að ánægja og gagn verði af. Við rekum okkur á þetta á hverju einasta ári, að úthlutunin er til sárra leiðinda, bæði fyrir okkur og fyrir þá, sem taka á móti henni. Þessi upphæð hefur engan veginn hækkað til jafns við aðra útgjaldaliði á fjárl., og ef við berum saman rausn okkar á þessu sviði nú og eins og hún gerðist hér fyrir nokkrum áratugum, þá erum við miklir eftirbátar forvera okkar á þessu sviði. Ég las t.d. fyrir nokkrum dögum í Morgunblaðinu viðtal við Tómas Guðmundsson skáld, þar sem greint var frá því, þegar hann fékk í fyrsta skipti heiðursviðurkenningu frá Reykjavíkurbæ. Sú viðurkenning var það rausnarleg, að hann gat dvalizt fyrir hana og ferðazt erlendis mánuðum saman. Þær upphæðir, sem við erum með núna, eru ákaflega smávaxnar í samanburði við þetta. Og ég vil vekja sérstaka athygli á því, að einmitt núna, þegar þrengir að, veitir áreiðanlega ekki af því, að við aukum einmitt liði sem þessa, því að þær tekjur, sem listamenn hafa á undanförnum árum haft á hinum almenna menningarmarkaði, ef ég mætti orða það svo, eiga áreiðanlega eftir að dragast ákaflega mikið saman á næstu árum. Till. sú, sem ég flyt hér ásamt tveimur hv. þm., er ákaflega varleg. Við leggjum til, að þessi liður hækki um 11/2 millj., upp í 6 millj., þannig að ég held, að ekki sé unnt að halda því fram, að þar sé um að ræða nein óraunsæ yfirboð.

En þó að ég hafi ástæðu til þess að lýsa ánægju yfir því, að á þessum tveimur sviðum hefur verið komið til móts við fyrri till. mínar, þá hefur slíkt hið sama því miður ekki gerzt um enn eina till., sem ég flutti um fjárveitingu til Kennaraskólans. Ég gerði grein fyrir því við 2. umr., hversu stórfelldur vandi þessa skóla væri núna, og ég dró till. mína til baka til 3. umr. í trausti þess, að þessi vandi yrði athugaður gaumgæfilega. Því miður hefur engin breyting orðið á þessum framlögum. Eins og ég minnti á við 2. umr., er Kennaraskólinn enn þá aðeins hálfsmíðaður, og í þeim húsakynnum, sem komin eru upp, áttu samkv. upphaflegri áætlun að vera 150 nemendur. Nemendurnir þar eru nú 826 og auk þess á 2. hundrað börn í æfingaskólanum. Þarna er sem sé troðið inn um 1000 nemendum, 7 sinnum fleiri en fyrirhugað var. Til þess að gera þetta hefur þurft að taka upp kennslu á göngum skólans og í stofum, sem hugsaðar voru sem vinnustofur kennara, það hefur orðið að taka í notkun efstu hæð hússins undir súð, þar sem varla er manngengt, og þetta hefur ekki nægt til. Það hefur orðið að taka til kennslu skúr, sem byggður var sem kaffistofa fyrir verkamennina, sem byggðu húsið. Það hefur orðið að halda áfram kennslu í gamla Kennaraskólanum, og það hefur orðið að leigja húsnæði í kirkju Óháða safnaðarins, og hef ég í sjálfu sér ekkert á móti því, að sú kirkja komi að slíku gagni. En þetta ástand, sem þarna er. er gersamlega óviðunandi. Þarna eru nú um 88 kennarar, að ég hygg, 38 fastráðnir og 50 stundakennarar. Þeir hafa eina kennarastofu til sinna þarfa. Þarna er kennt frá því kl. 7.30 á morgnana til kl. 7 á kvöldin. Ástandið í þessum skóla er okkur engan veginn sæmandi. Þetta er hreint hneykslismál. Og ég vil skora á hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. að íhuga þetta mál enn betur og hugleiða það, hvort ekki er hægt að fallast á þá litlu fjárveitingu, sem ég geri þarna till. um, 5 millj. kr., sem ætti að tryggja það, að hægt verði að halda áfram þeim byggingarframkvæmdum, sem upphaflega átti að halda áfram óslitið, þegar skólabyggingin var hafin.

Fyrir utan þessar þrjár till. flyt ég eina litla till. um aukið framlag til félagsins Heyrnarhjálpar, að fyrir 110 þús. komi 200 þús. Félagið Heyrnarhjálp er eitt af félögum þeim, sem stofnuð hafa verið hérlendis til þess að aðstoða fólk, sem á við heilsufarslegan vanda að etja. þessi félög eru ákaflega mikilvæg í þjóðfélagi okkar og hafa gert mjög mikið gagn. Þau skipuleggja þar samhjálp almennings og leita ekki til opinberra aðila nema um minni háttar aðstoð. Þetta félag, Heyrnarhjálp, hefur verið starfandi um 30 ára skeið og hefur unnið brautryðjendastarf til hjálpar heyrnardaufu fólki um land allt, með heyrnarmælingum, innflutningi og sölu á heyrnartækjum, leiðbeiningastarfsemi um val og notkun þeirra ásamt viðgerðaþjónustu og annarri viðskiptalegri og félagslegri þjónustustarfsemi. Og í þessum tilgangi hefur félagið haft daglega opna stöð í Reykjavík og á hverju ári sent mann út um land til aðstoðar heyrnardaufu fólki. Í fyrra fékk félagið 110 þús. kr. á fjárl., og þeirri upphæð var varið til þess að kosta ferðir manns um Norðurland og Vesturland. Hann vann þar mjög gott starf fyrir þetta fólk. Þetta var Hallgrímur Sæmundsson kennari, en hann hefur kynnt sér þessi mál sérstaklega, m.a. kynnt sér hliðstæða starfsemi í Kaupmannahöfn. Félagið hefur farið fram á það við hv. fjvn., að þessi upphæð verði hækkuð í 200 þús., til þess að hægt sé að láta slíkt ferðalag ná til landsins alls. Ef upphæðin yrði. hækkuð, yrði maður sendur í alla landsfjórðunga. Ég held, að þetta svið hafi verið vanrækt hjá okkur á undanförnum árum og okkur beri að styðja þessa áhugamannastarfsemi, sem þarna er um að ræða. Og vegna þess að þarna er farið fram á mjög litla upphæð, vildi ég leyfa mér að mælast til þess við hv. stjórnarflokka, að þeir bindi ekki afstöðu til þessa máls við atkvgr. á morgun. Ef það verður ekki gert, er ég sannfærður um það, að allur þorri alþm. muni fallast á þessa litlu beiðni.