20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

1. mál, fjárlög 1969

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Erindið er að mæla fyrir þremur brtt., sem 4 þm. Austf. flytja. Því miður er ekki búið að útbýta till., en þær koma á sínum tíma, eru í prentun.

Það er fyrst brtt. um að hækka framlag til læknamiðstöðvar á Egilsstöðum. Það hefur verið ákveðið að taka þá stefnu að koma upp læknamiðstöð á Egilsstöðum, enda er aðstaðan góð til þess á þeim slóðum, og er þetta hið mesta nauðsynjamál. Það er smávegis fjárveiting í frv. í þessu skyni, en hún er ákaflega skorin við nögl, eða 300 þús., og leggjum við til, að fjárhæðin verði færð í 11/2 millj. kr. Ég held, að það sé ástæðulaust að fjölyrða um nauðsyn þessa máls, en það má geta þess, að það mun kosta um 8 millj. að koma þessari stofnun á fót, þannig að við mundum vilja stuðla að því með því að flytja þessa brtt., að hægt væri að byrja á verkinu næsta sumar.

Þá flytjum við till. um að hækka framlag til Bakkafjarðarhafnar eða hafnargerðar í Bakkafirði úr 540 þús. kr. í 3 millj. kr. Bakkafjörður er lítið fiskiþorp nyrzt í Norður-Múlasýslu. Aðstæður eru þannig við sjóinn, að það er ekki hægt að hafa þar nema mjög litla báta, trillur, en ef garðurinn eða bryggjan þar væri lengd nokkuð, en það er hvorutveggja í senn bryggja og garður, til að mynda hlé í höfninni, um eitt vænt ker, mundi aðstaða þarna gerbreytast. Þá mundi vera hægt að hafa þarna smábáta, stærri en þá, sem fyrir eru, og nægilega stóra til þess t.d. að notfæra sér hin ágætu fiskimið við Langanes. En það er ekki hægt að stunda þau mið á þessum smáu trillum, sem nú verða að vera þarna á staðnum.

Nú er þannig ástatt, að það er búið að samþykkja þessa framkvæmd af réttum yfirvöldum, vitamálastjóra og ráðh., og kerið var steypt í hitteðfyrra, og hreppsfélagið tók lán til að leggja að sínum hluta í kerið. En síðan ekki söguna meir. Ekki hefur fengizt fjármagn til að setja kerið niður. En þetta er hart aðgöngu, að þannig skuli vera að farið, að það sé samþ. að leggja nokkuð fram í kerið og hreppsfélagið látið taka lán í samráði við yfirvöldin til þess að láta steypa kerið, en síðan sé framkvæmdin stöðvuð. Hreppsfélagið situr eftir með lánið, og kerið situr norður á Skagaströnd. Það, sem við förum fram á, er, að þetta sé fært í viðunandi horf og veitt fé til þess að koma kerinu á sinn stað. Við erum satt að segja alveg steinhissa á því, að till. af þessu tagi skuli ekki koma frá hafnarmálastjórninni, og þá í gegnum hana um hv. fjvn. Ég mundi vilja mjög eindregið skora á þá, sem hér ráða mestu, að endurskoða þetta málefni og fallast á að veita nú fjárveitingu til þess, að kerið verði sett niður.

Þá er það 3. brtt., sem við flytjum. Hún er um að veita 3 millj. til hafnarbóta á Breiðdalsvík, en þannig háttar til á þeim slóðum, að þar er að vaxa útgerð, en á mjög erfitt uppdráttar vegna þess, hve aðstaðan er léleg í höfninni. Þar er að vísu bryggja, en það leiðir inn í höfnina allt of mikinn sjó og veldur óbærilegum erfiðleikum. En úr þessu væri hægt að bæta með garði, og mundi vera hægt að ná fram allvænum áfanga, ef menn vildu samþykkja að veita þessar 3 millj. kr., sem við höfum sett í brtt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þessar brtt., en vona, að þeim verði vel tekið af þingheimi, og vil ég taka undir það, sem hv. þm., sem talaði hér á undan mér, sagði, og fara fram á, að ekki verði beitt neinum samtökum gegn þeim, heldur látið ráðast, hvort menn geti á það fallizt að samþykkja þær, eftir að hafa heyrt þessi rök, sem fyrir þeim hafa verið flutt.