07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í D-deild Alþingistíðinda. (3988)

224. mál, fréttastofa sjónvarps

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir að lesa fyrir okkur þessa einkennilegu þulu. Hins vegar fór ég ekki fram á neina slíka þulu. Ég var að spyrja um reglur, hvaða reglum væri fylgt. Um það atriði hafði hæstv. ráðh. það eitt að segja að vitna í lagasetningu og reglugerðir frá 1934, 1955 og 1958. Mér er að sjálfsögðu kunnugt um allar þessar reglur, en þær eru settar löngu áður, en nokkurt sjónvarp var starfrækt á Íslandi. Fréttastofa sjónvarps verður að sjálfsögðu að taka upp allt aðrar starfsaðferðir, en tíðkast í hljóðvarpi og hún verður að setja sér sérstakar reglur. Ef þessu er í raun og veru þannig farið, eins og ráða mátti af orðum hæstv. ráðh., að engar aðrar reglur séu til en þessar gömlu frá 1934–1958, þá virðist einsætt, að engar sérstakar reglur hafi verið settar um starfsemi fréttastofu sjónvarpsins og slíkt ástand er að sjálfsögðu algerlega fráleitt. Sjónvarpsstarfsemi er allt annars eðlis en hljóðvarpsstarfsemi og það verður að setja einhverjar grundvallarreglur, einhvern ramma um starfsemi slíkrar stofnunar. Ég tel það ákaflega ámælisvert, ef þetta er rétt hjá hæstv. ráðh., að um fréttastofu sjónvarpsins gildi engar sérstakar reglur.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi það, sem ég benti á í frumræðu minni áðan, að myndaefni til fréttastofunnar kemur að heita má einvörðungu frá Bandaríkjunum og Bretlandi og þar er um ákaflega þröngt svið að ræða að mínu mati. Við verðum að temja okkur víðari sjóndeildarhring, en aðeins fæst með því að sækja efni til þessara tveggja aðila. Ég er alveg sannfærður um það t.d., að við getum aflað okkur víðtækari frétta með því að hafa nánari samvinnu við Norðurlandastöðvar, enda þótt hæstv. ráðh. segði, að það hefði verið reynt, en árangur ekki orðið jafngóður og til var ætlazt. En ég spurði um það í frumræðu minni áðan, hvernig á því stæði, að Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna virtist eiga furðu greiða leið inn í fréttir sjónvarpsins. Slíkt hefur margsinnis gerzt, eins og allir vita, sem eitthvað fylgjast með sjónvarpsfréttum. Ég spurði hæstv. ráðh. að því, hvort þetta stafaði af því, að þær myndir væru látnar í té ókeypis. En hæstv. ráðh. svaraði þessu engu orði.

Um innlendu stjórnmálafréttirnar og sérstaklega fréttir frá Alþ. skal ég fúslega viðurkenna það, að orðalag mitt á fsp. var ónákvæmt og ég skal biðjast velvirðingar á því. Það er auðvitað ekki rétt að segja aldrei. Hitt held ég, að öllum sé ljóst, sem fylgzt hafa með þessum fréttafrásögnum frá Alþ. og frá íslenzkum stjórnmálum, að ráðh. hafa haft þar alger forréttindi fram yfir aðra. Dæmi um það rakti ég sérstaklega í ræðu minni áðan. Ég tók mjög fróðlega frétt frá því í gærkvöldi og hún er alveg dæmigerð um það, hvernig sjónvarpið fer að því að tala við íslenzka ráðh. og fjalla um ýmis stjórnmál. Þarna var vitnað í ónafngreinda þm., sem hafa vakið máls á þessu stórfellda hneykslismáli hér á Alþ., þeir voru ekki nefndir, en hæstv. ráðh. var gefið tilefni til þess að afneita öllu. Fréttaþjónusta af þessu tagi nær ekki nokkurri átt.

Ég mótmæli því algerlega, þegar hæstv. ráðh. komst svo að orði í lokin, að ég hefði í frammi róg um sjónvarpið og fréttastofu þess. Ekkert slíkt vakir fyrir mér. Hitt skulum við gera okkur ljóst , að sjónvarp er mikill áhrifavaldur og okkur ber að leggja á það áherzlu, hverjar svo sem skoðanir okkar eru, að sjónvarpið sé hagnýtt til þess að gefa sem mest alhliða og sem réttasta mynd af stjórnmálum á Íslandi, að því leyti sem sjónvarpið birtir stjórnmálafréttir. Með þessu er ég engan veginn að leggja til, að þarna verði farið í einhverja ritskoðun, þvert á móti. Ég vil, að þessar fréttir verði auknar frá því, sem verið hefur. En ég vil, að þarna verði lögð á það áherzla, að öll sjónarmið komi fram á hliðstæðan hátt og ég vil sérstaklega vara við þeirri stefnu, sem hefur verið ríkjandi í sjónvarpinu, að líta á sig sem eins konar stofnun fyrir hæstv. ríkisstj. Það á sjónvarpið alls ekki að vera. Ég mundi heldur telja sjónvarpinu hollt að hafa uppi tortryggni gagnvart hæstv. ríkisstj. Það er ekkert jafn háskalegt fyrir ríkisrekin fjölmiðlunartæki og það, að þau séu notuð af stjórnvöldum hverju sinni. Það er miklu betra, að slík ríkisrekin fjölmiðlunartæki séu nær því að vera í stjórnarandstöðu.

En sjónvarpið er ung stofnun og ég sagði hér í upphafi, að ég teldi, að fréttamenn á fréttastofunni hefðu náð mjög góðu tæknilegu valdi á viðfangsefnum sínum og hefðu verið ötulir í störfum. Ég er alveg viss um, að þeir geta gert mun betur á þessu sviði, en þeir hafa gert og ég tel, að það sé skylda okkar, bæði alþm. og almennra hlustenda, að koma á framfæri við þá aðfinnslum, sem við reynum að rökstyðja. Það er ekkert einkamál, hvorki útvarpsráðs né einstakra fréttamanna né hæstv. menntmrh., hvernig þessi stofnun starfar. Það er málefni þjóðarinnar allrar og hér hef ég flutt gagnrýni, sem ég tel mig hafa rökstutt að fullu í framsöguræðu minni áðan og hæstv. ráðh. gat ekki vefengt á neinn hátt, heldur reyndi að snúa út úr. Ég vænti þess, að gagnrýnin stuðli að frekari umr. um þessi mál.