07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í D-deild Alþingistíðinda. (3990)

224. mál, fréttastofa sjónvarps

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég mundi hugsa mig vandlega um, ef fréttastjóri sjónvarpsins yrði við till. hv. þm. um að biðja mig um viðtal í kvöld. Ég mundi ekki vilja svara því á stundinni, hvort ég féllist á það eða ekki. En hitt vil ég gjarnan að menn viti, að ég hef aldrei komið í sjónvarpið öðruvísi, en um það væri beðið, ég hef aldrei komið á framfæri ósk um, að við mig færi fram viðtal þar. Og ég hygg, að hið sama eigi við um alla starfsbræður mína í ríkisstj., svo að því fer auðvitað víðs fjarri, að hægt sé að segja það með nokkrum minnsta sanni, að ríkisstj. noti sjónvarpið sem eins konar einkaáróðurstæki fyrir sig. Til slíks hefur aldrei verið gerð hin minnsta tilraun. Ég skal ekki hafa stór orð um að andmæla þessu, en ber það saman við ummæli hv. fyrirspyrjanda, sem andmælti því sérstaklega, að hann færi með róg um fréttastofu sjónvarpsins og stofnunina yfir höfuð að tala. Ég veit ekki, hvað er rógur um stofnun, ef það er ekki rógur um hana að segja, að hún láti valdamenn nota sig í röngu skyni, í áróðursskyni. Það er rógur, enda alröng staðhæfing.

Ég get hins vegar vel skilið, að hv. þm. hafi ekki beint því til fréttastofu sjónvarpsins að birta nýjar myndir af sér í sjónvarpinu. Það, sem ég sá síðast til hans, var honum því miður ekki til sóma. Ég hefði vel getað æskt honum betra hlutskiptis, en að láta birta þær skrípamyndir, sem sjónvarpið birti af honum uppi í óbyggðum, í viðtölum við brezka hermenn.

Hv. fyrirspyrjandi, Magnús Kjartansson, sagði, að það væri vanræksla að hafa ekki sett sérstakar reglur um fréttir sjónvarpsins. Ef þetta er vanræksla, þá er það vanræksla útvarpsráðs, en ekki mín. En hann deildi á mig. Það kom skýrt fram í svari mínu áðan, að það er ekki verkefni menntmrh. að setja útvarpinu, hvorki hljóðvarpinu né sjónvarpinu, reglur um fréttaflutning þess. Ég hef aldrei gert það, enginn minn fyrirrennari hefur mér vitanlega gert það, enda er það lögum samkv. ekki í okkar verkahring. Það er útvarpsráð, sem hefur yfirstjórnina. (Gripið fram í.) Ég hef aldrei gert nokkra tilraun til þess að skipta mér af störfum útvarpsráðs, að því er varðar dagskrá þess né fréttaflutning, aldrei í þau 12—13 ár, sem ég hef haft með þessi mál að gera. Um fyrirrennara mína skal ég ekki segja í þessu efni, enda eru lög alveg skýrorð um verkefni og verkaskiptingu milli ráðh. og útvarpsráðs í þessum efnum.

Ég tel einmitt, að fréttastofan hafi átt að safna nokkurri reynslu, áður en sérstakar reglur yrðu settar um fréttaflutninginn þar, aðrar en gilda um hljóðvarpið. Það má segja, að sá reynslutími sé nú orðinn nógur og tími sé kominn til þess að athuga þetta. En vanrækslan er þá ekki sízt hjá flokksmanni hv. þm. í útvarpsráði, sem mér vitanlega hefur aldrei gert neina till. um slíkt, síðan sjónvarpinu var komið á fót.

Það er rétt hjá hv. þm., að mér láðist að svara fsp. hans um það, hvort fréttastofa sjónvarpsins fengi ókeypis til sýningar bandarískar áróðursmyndir, sem hann kallaði svo, frá sendiráði Bandaríkjanna hér. Mér er ekki kunnugt um þetta, enda hef ég aldrei haft ástæðu til neinna afskipta af slíku og þvílíku sem þessu, því að það kemur ekki mál við mig. Þótt svo væri, að þetta hefði komið fyrir, hefði engin skylda borið til þess að tilkynna mér það. Ég er enginn yfirmaður stofnunarinnar að því leyti og kýs ekki að vera það. Hins vegar get ég gjarnan látið þá skoðun í ljós, að ég teldi slíkt að sjálfsögðu vera algerlega óeðlilegt, ég veit ekki til þess, að slíkt hafi átt sér stað og trúi því raunar ekki.

Þá gagnrýndi hv. þm. frétt í gærkvöld, fréttaviðtal við fjmrh. um Kísilgúrverksmiðjuna. Í því sambandi vil ég aðeins láta þess getið að síðustu, að ekki er við því að búast, að sérhver frétt, sem sjónvarpið birtir, hvort sem hún er frá Alþ. eða varðandi stjórnmál almennt, sé gerð að umræðuefni milli tveggja gagnstæðra skoðana. Þá mundi fréttatími sjónvarpsins nýtast allt of illa þær 20 mínútur, sem til ráðstöfunar eru á hverju kvöldi, ef aldrei mætti segja frétt frá Alþ. eða eiga viðtal við annaðhvort ráðh. eða stjórnarandstæðing, án þess að um leið væri látið koma fram annað sjónarmið. Stundum er þetta gert, sérstaklega ef mikið þykir við liggja, ef sérstakt tilefni er. Annars þræðir sjónvarpið þann gullna meðalveg að eiga viðtal við þann, sem fylgir þessu sjónarmiði, eitt kvöldið, þann, sem fylgir öðru sjónarmiði, hitt kvöldið. (Gripið fram í: Þá kemur hann líka í kvöld.) Ég er ekki í nokkrum vafa um það, einhvern næstu daga. Það kæmi mér ekki á óvart, þó að það ætti sér stað. Enda bar sú skýrsla, sem ég las áðan um 80 fréttir, þess ótvíræðan vott, að það er ekki aðeins hótfyndni, heldur miklu verra að gefa það í skyn, að fréttastofa sjónvarpsins hafi ekki í þessum efnum viljað sýna stjórn og stjórnarandstöðu fullkomið jafnræði.