07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í D-deild Alþingistíðinda. (3991)

224. mál, fréttastofa sjónvarps

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mig langar aðeins til þess að leggja fáein orð í belg í þessum umr. Menntmrh. upplýsti, að til væru prentaðar reglur um fréttastofu útvarps og sjónvarps. Það var nú vitað áður. En það kom líka fram hjá honum, að þessar reglur eru orðnar æðigamlar og þær eru sniðnar við fréttastofu útvarpsins.

Auðvitað er það svo, að þó að sjónvarp og útvarp séu sett undir einn hatt að nafni til, er þarna um tvær og að mörgu leyti ólíkar stofnanir að ræða. Þess vegna var alltaf eðlilegt í upphafi, að það væru settar sérstakar reglur um sjónvarp, en við því var þráazt, enda þótt ég og aðrir bentu á nauðsyn þess. Auðvitað er alveg óraunhæft að gera ráð fyrir því, að útvarpsráð geti fylgzt með sjónvarpi í einu og öllu eða því, sem þar kemur fram og það veit auðvitað hæstv. menntmrh. Og það er auðvitað alveg óeðlilegt, þegar hann er að reyna að koma sök af sér yfir á útvarpsráð í þessu efni. Auðvitað er menntmrh. yfirmaður þessara stofnana, hefur eftirlit með þeim, segist ekki gefa þeim fyrirskipanir og segist ekki hafa afskipti af því, hvað þær birta í fréttum. Ég kom nokkuð lengi við sögu útvarpsins og margt hefur breytzt frá þeirri tíð, ef hæstv. ráðh. getur lagt eið út á það, að hann hafi aldrei (Gripið fram í.) Það voru margir menntmrh. á þeim tíma, — ef hann getur lagt eið út á það, að hann hafi aldrei haft samband við Ríkisútvarpið út af neinu, sem þar hefur birzt. Hann þarf ekkert að segja mér um það. Og hann þarf ekkert að segja mér um það, að hann hafi aldrei haft afskipti af því, þegar hann er kvaddur í sjónvarp. Það þarf ekkert að segja mér það, að sjónvarpsfréttamenn séu á eftir honum, í hvert skipti, sem hann skreppur til útlanda eða á einhvern fund og þeim sé kunnugt um það, nema af því að vitneskja um það kemur frá ráðh. sjálfum. Það þýðir ekki fyrir hann að bera svona á borð. Hér eru óræk vitni vegna þess, að sjónvarpið ber sjálfu sér vitni. Það horfir svo að segja allur landslýður á sjónvarp og veit, hvað þar kemur og þess vegna þarf ráðh. ekkert að vera að segja fólki, hvað þar er birt. Það hefur séð, hvað þar er birt og hefur fylgzt með í þessum efnum. Og það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðh. að lesa hér upp langa lista um það, að þessi eða hinn hafi komið svo oft í sjónvarp eða við hann hafi verið talað svo oft, nafn hans hafi verið nefnt svo oft. Það, sem máli skiptir, er auðvitað, með hverjum hætti þetta er gert. Og ég vil út af fyrir sig algerlega mótmæla því, að við framsóknarmenn eða okkar málgögn höfum haldið uppi nokkrum minnsta rógi á hendur fréttastofu sjónvarps. Hitt er það, að við höfum ekki verið ánægðir með hennar starfsemi að öllu leyti og við höfum ekki farið dult með það við sjálfa fréttamennina. Við höfum talað við sjálfa fréttamenn sjónvarpsins og bent þeim á það, sem okkur hefur þótt þar miður fara. Og ég vil alls ekki ætla þeim, að það hafi verið af ásettu ráði, sem þeim hafi orðið á mistök, enda tel ég, að samtal eða samtöl um þetta hafi nokkurn árangur borið og ég þykist vita það, að fréttamennirnir vilji í sjálfu sér vel gera í þessum efnum. En eigi að síður er það staðreynd, að það er okkar skoðun í stjórnarandstöðunni, það er okkar tilfinning í stjórnarandstöðunni, að það sé hallað á okkur í fréttaflutningi sjónvarpsins, það sé ekki fullt jafnræði í fjölmiðlunartækjunum á milli stjórnar og stjórnarandstæðinga. Og það kemur ekki aðeins fram í því, eins og ég sagði áðan, að ráðh. séu kannske miklu oftar í sjónvarpinu, heldur er það, að það er sagt eftir þeim meira og með öðrum hætti. Ég tek dæmi.

Ráðh. rakti það í sínum langa lista hér áðan, að æði oft hefur verið sagt frá því í sjónvarpi, þegar ríkisstj. hefur lagt fram frv. á Alþingi. Við stjórnarandstæðingar leggjum oft fram frv. hér á Alþingi. Við leggum þar fram frv. um okkar stefnumál, sem við teljum engu ómerkari, en þeir telja sín frv. Við framsóknarmenn teljum okkur hafa lagt fram slík frumvörp hér í vetur. Hefur verið sagt frá þeim í sjónvarpi? Nei, þau hafa ekki þótt jafn merkileg að þessu leyti og stjórnarfrv. Þetta er mat á fréttefni. Það er mat, sem ég tel ekki rétt eða eðlilegt. Aðrir geta haft á því sína skoðun. Og ég geri ráð fyrir því, að fréttamenn hafi nokkuð aðra skoðun á fréttamati, vegna þess að þeir sjálfsagt líta á það, að okkar frv. eru ekki líkleg til að ná fram að ganga, en öðruvísi er því háttað með stjórnarfrv. En ég álít, að það sé ekki rétt að líta á það á þennan veg, því að það er einmitt höfuðreglan gamla, sem stendur enn í reglum um útvarpið, að það á að gæta þess, að óhlutdrægni ríki gagnvart öllum flokkum.

Hæstv. ráðh. var að guma af viðtalsþáttunum, sem fram færu í sjónvarpinu. Það var gott, að hann minnti á það. Það hafa mörg þýðingar mikil mál verið hér á baugi að undanförnu, efnahagsmál, kjaramál o.fl. Hafa leiðtogar stjórnmálaflokkanna að undanförnu verið kvaddir í sjónvarpið til þess að ræða þau mál? Það væri gott, ef hann vildi nefna það. Það tíðkaðist þó áður um skeið. Það skyldi þó aldrei hafa átt sér stað, að einhver hefði þarna kippt í spotta? Það væri gott, að hæstv. menntmrh. upplýsti það. (Forseti: Ræðutíminn er búinn.) Já, ég skal ljúka máli mínu.

Sannleikurinn er sá, að þetta mál er auðvitað mjög viðkvæmt, því að fjölmiðlunartækin eru svo áhrifarík, að það er eðlilegt, að við og stjórnmálaflokkarnir séum mjög viðkvæmir fyrir því, að það sé gætt þessarar höfuðreglu og þessa höfuðboðorðs, sem sett er í reglum útvarpsins, að það sé gætt fyllstu óhlutdrægni gagnvart flokkum. Það finnst okkur ekki hafa verið fyllilega gert. Ég veit það samt, að fréttamenn eru allir af vilja gerðir, en ég hef þá skoðun, að þeir séu undir óeðlilegum áhrifum frá æðri stöðum og það er alveg sama, hvað hæstv. ráðh. segir um það, því verður ekki trúað, sem hann segir um það, fyrr en reynslan sýnir, að breytt er til. En reynslan á að skera hér úr. En einmitt af því, hve hér er um vandasöm mál að tefla, þá er það höfuðatriðið í þessum efnum, að það séu settar reglur um þetta og að því þurfa menn að vinna. Og það er alveg rétt, eins og hæstv. ráðh. sagði, að það gat verið vandasamt í upphafi að setja slíkar reglur varðandi sjónvarpið. En nú er reynsla fengin og nú ætti að vinda bráðan bug að því að setja slíkar reglur. Og það væri öllum fyrir beztu, því að það er vissulega sjálfsagt, ef samvizka þeirra er svona hrein, stjórnarmanna, eins og hæstv. menntmrh. vildi vera láta, þá hljóta þeir að vilja eyða allri tortryggni í þessu efni og setja þær skynsamlegu reglur, sem girða fyrir það, að slík tortryggni geti átt sér stað.