07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í D-deild Alþingistíðinda. (3992)

224. mál, fréttastofa sjónvarps

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð að játa, að ég get ekki rætt um þann þátt útvarpsins, sem hér er sérstaklega til umr., þ.e.a.s. sjónvarpið, því að ég er einn af þeim líklega fáu, sem hafa ekki sjónvarp, og horfi þess vegna ekki á það nema sjaldan.

En það er útvarpið og það hefur nú borizt í tal hér, m.a. vegna þess, að þær reglur, sem hér var talað um, eru eingöngu frá gömlum tíma, frá þeim tímum, þegar ekkert sjónvarp var hér á landi og það er talið, að þær gildi enn fyrir báðar þessar deildir.

Ég vil í tilefni af því nota tækifærið til að lýsa óánægju minni með einkum eitt, sem kemur fram í útvarpinu dag hvern. Það eru stríðsfréttir frá Víetnam. Maður hefur aldrei frið fyrir þessu. Þetta er aðalefnið að segja má í útlendum fréttum útvarpsins og þarna er sagt frá því, hvað Bandaríkjamenn og þeirra samherjar þar hafi fellt marga þennan daginn og hvað þeir hafi orðið fyrir ákaflega litlu manntjóni sjálfir. Þetta er tíundað ósköp samvizkusamlega. Ég hef orðið þess var, að það eru margir fleiri en ég, sem festa lítinn trúnað á þessar tölur og þessar upplýsingar. Ég held, að þetta sé tilbúið hjá þeim þarna vestur í Ameríku til heimanotkunar, vegna þess að þeir standa nokkuð höllum fæti hjá sinni þjóð fyrir þessar aðgerðir þarna austur frá. En ég sé ekki, að við höfum neina þörf fyrir þetta hér. Ég held, að menn hafi enga ánægju af þessu og það er enginn fróðleikur í þessu í raun og veru. Ég held, að það væri nóg, ef fréttastofa útvarpsins birti fyrir þá, sem hafa áhuga á þessu máli, einstöku sinnum, við skulum segja vikulega, einhver tíðindi, ef eitthvað markvert væri að gerast þarna, ef til einhverra úrslita drægi t.d. í þessari viðureign þarna. Ég held, að það væri alveg nóg. Ég hefði viljað fara fram á það við yfirstjórn útvarpsins, að hún losaði okkur við þetta úr daglegum fréttum, þennan lestur, því að þetta er til leiðinda.