07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í D-deild Alþingistíðinda. (3996)

224. mál, fréttastofa sjónvarps

Jón Skaftason:

Herra forseti. Mig langar í tilefni af þeim umr., sem hér hafa orðið, að segja hv. alþm. örstutta sögu um ekki stórvægilegt atvik, sem þó bregður ljósi á það vandamál og deilumál, sem hér er verið að tala um.

Það var fyrir nokkrum vikum á vegum samtaka, sem berjast gegn hungri í heiminum, að haldin var ráðstefna í Menntaskólanum í Reykjavík um þessi málefni. Á þessari ráðstefnu voru fengnir til að tala fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkunum og þeir mættu þar og héldu þar allir sínar ræður, málefnalegar og áreitnislausar að ég held. Svo gerðist það, að skömmu fyrir kl. 7 þá um kvöldið mátti sjá stóran og myndarlegan ráðherrabíl renna í hlað og út úr bílnum sté hæstv. menntmrh. og kom inn á samkunduna, gekk fyrir barinn, þar sem afgreitt var vatn til þeirra, sem viðstaddir voru á þessari samkundu og fékk þar afgreitt eins og aðrir, sem þar voru, eitt vatnsglas, sem hann drakk og var að sjálfsögðu ekki í frásögur færandi. Svo sá ég af tilviljun — kvöldið eftir held ég, að það hafi verið, frekar en sama kvöldið, — í sjónvarpinu, hvernig frá þessu atviki var skýrt.

Þar var brugðið upp mynd af einum ræðumanni stjórnmálaflokkanna í ræðustóli og það var formaður útvarpsráðsins, Benedikt Gröndal, fulltrúi Alþfl., sem þar talaði og síðan birtist á breiðtjaldi sjónvarpsins hin svipmikla mynd hæstv. menntmrh., þar sem hann teygaði vatn af því glasi, sem honum hafði verið rétt, stakk út úr glasinu og drakk það í botn og myndavélin hvíldi á hæstv. ráðh. allan þann tíma, meðan hann var að drekka vatnið.

Þetta er ekki merkileg saga, en hún er sönn. (Gripið fram í.) Ég varð ekki var við það, að hann gæti um þetta atriði í þeirri skýrslu, sem hann las hér upp áðan. En ég hygg, að allir þeir, sem þarna voru og sáu þetta, geti staðfest, að það, sem ég segi, er sannleikanum samkvæmt. Svo geta hv. þm. og aðrir áheyrendur velt því fyrir sér, hvernig á því standi, að persóna hæstv. ráðh. er svona miklu meira metin, en allra annarra, sem þarna voru, m.a. biskupsins yfir Íslandi, sem drakk líka vatn þarna, en fékk ekki mynd af sér í sjónvarpinu. Sennilega hefur hæstv. ráðh. ekki pantað, að tekin væri sérstaklega mynd af sér við vatnsdrykkjuna. En hvað er það þá, sem ræður því, að fréttamat sjónvarpsmanna er svo misjafnt, að þeir þurfa að sýna það í allri sinni lengd, að hæstv. ráðh. drekkur úr einu vatnsglasi?