07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í D-deild Alþingistíðinda. (4002)

236. mál, verðlagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þau ákvæði verðlagslaganna, sem fyrirspyrjandi vitnar til og eru einu ákvæði l., er lúta að því, hvernig verðlagsn. skuli haga ákvæðum sínum, eru mjög óljós. Engin skilgreining er í l. á því, hvað telja skuli vel skipulagðan og hagkvæman rekstur. Dæma má um rekstrarhagkvæmni verzlunar fyrirtækis út frá ýmsum sjónarmiðum. T.d. mætti nota það sem mælikvarða á rekstrarhagkvæmnina, hversu starfsmannafjöldi sé mikill miðað við veltu, en eðlilegur starfsmannafjöldi hlýtur þó að fara mjög eftir tegund verzlunarinnar og hvers konar þjónustu hún veitir. Er því augljóst, hversu dómur um þetta atriði er erfiður. Einnig mætt t.d. miða við það, hversu mikið fjármagn verzlunin notar miðað við veltu eða hversu mikið húsnæði, en einnig hér hlýtur viðmiðunin að vera ólík eftir því, um hvaða verzlunartegund er að ræða og hvers konar þjónustu hún veitir. Ég held, að öllum, sem um málið hugsa af alvöru, sé ljóst , að ekki er hægt að setja fram tæmandi skilgreiningu á því, hvað sé vel rekið verzlunarfyrirtæki, þess konar skilgreiningu, að hún geti orðið verðlagsyfirvöldum að gagni við vandasamar ákvarðanir þeirra. Hins vegar má segja, að frá sjónarmiði löggjafans sé ekki óeðlilegt, að sú hugsun, sem í ákvæðinu felst, sé orðuð í slíkri löggjöf. Í ákvæðinu felst, að verðlagsn. má ekki miða verðlagsákvæði við það, að haldið sé uppi augljóslega óhagkvæmum rekstri.

Sú skoðun hefur heyrzt, að í ákvæðinu felist, að verðlagsákvæði hljóti að vera of lág, ef tap er á verzlun í tiltekinni grein eða jafnvel allri verzlun um skeið. Þessi skoðun á ekki við rök að styðjast. Ef hún væri rétt, gætu aðrir með sama rétti sagt, að verðlagsákvæði væru of há, ef hagnaður væri á verzlun í tiltekinni grein eða jafnvel allri verzlun um skeið. Hvorugt er rétt. Auðvitað eru áraskipti varðandi afkomu verzlunar eins og annarra atvinnuvega. Sum ár er hagnaður, önnur tap. Hitt er rétt, að verði taprekstur í heilli atvinnugrein, eins og t.d. verzlunar rekstri, langvinnur, er nauðsynlegt að kanna orsakirnar og reyna að ráða bót á. Ef atvinnugreinin er háð verðlagsákvæðum, eins og verzlunin er, gætu of lág verðlagsákvæði vissulega verið ástæðan og þá á að breyta þeim. En ekki er víst, að verðlagsákvæðin séu ástæða taprekstrarins, eða a.m.k. ekki eina ástæðan. Hún gæti verið minnkun eftirspurnar um skeið, of mikil hækkun fjármagnskostnaðar í góðærum, of mikil fjölgun fyrirtækja, þannig að hagnýting afkastagetu sé lítil, of mikill starfsmannafjöldi, of mikill fastur kostnaður miðað við minnkandi sölu o.s.frv. Hér er því jafnan um flókin og margbrotin viðfangsefni að ræða.

Um gildandi verðlagslöggjöf og verðlagsákvæði þau, sem sett hafa verið samkvæmt henni, er annars það að segja, að ég persónulega tel löggjöfinni ábótavant í grundvallaratriðum og neytendum ekki vera sú vernd í verðlagsakvæðunum, sem upphaflega var til ætlazt, enda eru verðlagsákvæðin að lang mestu leyti fólgin í takmörkun á hundraðstölu álagningar á tiltekinn verðgrundvöll, þannig að álagningin verður þeim mun hærri í krónum sem varan er dýrari, sem á er lagt. Hins vegar hafa reynzt miklir framkvæmdar erfiðleikar á því að ákveða hámarksverð á vörum og þjónustu. Ég tel, að í stað núgildandi verðlagslöggjafar eigi að koma löggjöf um ráðstafanir gegn einokunarverðmyndun og hringamyndun, – löggjöf, sem tryggi raunverulega samkeppni í verzluninni bæði um verð og þjónustu. Jafnframt ætti síðan að efla mjög starfsemi heilbrigðra neytendasamtaka. Þannig er þessum málum skipað í helztu nágrannalöndum.

Þetta er svar mitt við fyrri fyrirspurninni. Svar mitt við hinni síðari er þetta:

Í lok febr. 1967 ákvað ríkisstj. að skipa n. til að semja drög að nýrri löggjöf um eftirlit með einokun, hringamyndun og verðlagi. Verkefni n. skyldi vera að endurskoða gildandi lagaákvæði um verðlag og verðlagseftirlit og jafnframt semja drög að nýrri löggjöf um eftirlit með einokun, hringamyndun og annarri viðleitni fyrirtækja eða fyrirtækjasamtaka til sameiginlegrar afstöðu á markaði, sem hefði í för með sér óæskileg áhrif á verðmyndun og aðra viðskiptahætti og hvernig bezt megi tryggja, að neytendur fái notið ávaxta aukinna framleiðsluafkasta í hagstæðara verðlagi og viðskiptaháttum, sbr. ályktun Alþ. um eftirlit með fyrirtækjasamtökum frá 5. maí 1965. N. var skipuð fulltrúum tilnefndum af hagsmunasamtökum og stjórnmálaflokkum ásamt þrem embættismönnum, samtals 20 mönnum. N. hóf störf 24. apríl 1967 og ákvað að haga störfum þannig að skipa undirnefnd 4 manna til að vinna að till. að álitsgerð, sem síðan verði lagðar fyrir heildarnefndina til umr. og ákvörðunar. Að tilhlutan viðskrn. var fenginn hingað danskur sérfræðingur, Adolf Sonne, skrifstofustjóri í Monopoltilsynet og vann hann með n. á tímabilinu 24. apríl til 26. maí 1967. Í júnímánuði 1967 lágu fyrir fyrstu drög að frv. til laga um verðgæzlu og eftirlit með samkeppnishömlum ásamt aths. og grg. um framkvæmd þessara mála á Norðurlöndum og víðar. Nefndin hélt síðan áfram störfum haustið 1967 og var að því komin að ganga frá nál., þegar gengisbreytingin í nóv. 1967 var framkvæmd. Við þá aðgerð sköpuðust ný viðhorf í verðlags— og kaupgjaldsmálum, og leiddu þau til þess, að svo til allar vörur voru teknar undir verðlagsákvæði aftur. Þar sem þess var vænzt, að hér væri aðeins um tímabundið ástand að ræða, var talið heppilegt að bíða með, að nefndin lyki störfum. Hins vegar hefur viðskrn. haldið áfram gagnasöfnun og athugun á málinu. Er nú ákveðið, að n. hefji störf að nýju og stefnt að því, að hún skili áliti fyrir haustið.

Ég vona, að hv. fyrirspyrjandi telji þetta fullnægjandi svör við spurningu sinni.