07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í D-deild Alþingistíðinda. (4003)

236. mál, verðlagsmál

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svör hans, þó að mér fyndist svarið við fyrri spurningunni vera nokkuð úr í hött. Hæstv. ráðh. vék sér undan að svara henni beint með því að halda því fram, að ákvæði l., sem hann vitnaði til, væri svo óljóst, að það væri mjög erfitt að fara eftir því. Þetta kemur mér undarlega fyrir sjónir, vegna þess að frv. að þessum l. var á sínum tíma samið af hæstv. ráðh. og lagt fyrir Alþingi af honum og hann hefði þess vegna átt að vera búinn að gera sér grein fyrir því, að eitt mikilvægasta ákvæði l. væri þannig úr garði gert, að það væri hægt að fara eftir því.

Ég held líka, að það sé misskilningur, sem kemur fram hjá hæstv. ráðh. nú, að það eigi að vera tiltölulega auðvelt að fara eftir þessu ákvæði l., eins og hann hélt fram fyrir 7 árum og það sé um hrein undanbrögð að ræða, þegar það er ekki gert. Það á að vera auðvelt fyrir menn, sem sæmilega þekkja til verzlunar, að gera sér grein fyrir því, hvað eru fyrirtæki, sem eru sæmilega rekin og hafa hagkvæman rekstur. Og það á að sjálfsögðu að taka úr hóp slíkra fyrirtækja, gera sér grein fyrir því, hver rekstrarkostnaður þeirra er og miða síðan álagningarhöftin við það, meðan nauðsynlegt þykir að hafa þau í gildi. Þetta hlýtur að vera tiltölulega auðvelt verk af mönnum, sem þekkja til þessara mála og vinna að því af einlægni. Þess vegna furðar mig á því svari hæstv. ráðh., að hann skuli nú halda því fram, að ákvæði þessara laga, sem hann átti þátt í að setja og beitti sér fyrir á sínum tíma, skuli nú vera talin óframkvæmanleg.

Ráðh. vék sér líka undan að svara því, sem ég minntist á í ræðu minni, að því væri mjög ákveðið haldið fram, jafnt af fulltrúum einkaverzlana og samvinnuverzlana, að þau álagningarhöft, sem nú eru í gildi, væru ekki í samræmi við þessi lög og þau freistuðu verzlunarinnar til að fara út á brautir, sem verða að teljast óeðlilegar. Hann vék ekki að neinu leyti í ræðu sinni að þessari staðhæfingu, sem ég bar fram og hér var ekki um ranga staðhæfingu að ræða, vegna þess að ég vitnaði í ákveðin gögn, sem hafa komið fram, bæði frá einkaverzlunum og samvinnuverzlunum, um þessi efni. Ég vil í tilefni af þessu fara fram á það við hæstv. ráðh., að hann endurskoði það á nýjan leik, hvort hann telji sér ekki fært að fylgja umræddum ákvæðum l. frá 1960 og þá verði álagningarreglurnar, meðan þær gilda, miðaðar við það. Ég beini þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hvort hann vill ekki athuga það á nýjan leik, hvort þessi ákvæði í l. frá 1960 séu ekki framkvæmanleg og að það verði reynt að færa reglurnar, meðan þær gilda, til samræmis við það. Ég held, að með beztu manna yfirsýn og með því að fá fróða menn til þess að íhuga þessi mál, hljóti það að vera hægt.

Það kom líka fram hjá hæstv. ráðh., sem ég hafði áður sagt og ég er honum alveg sammála um, að í álagningarreglum, sem ganga of langt gagnvart verzluninni, felst ekki neinn ávinningur fyrir neytendur, nema síður sé og þess vegna er enn ríkari ástæða til þess að endurskoða álagningarreglurnar með tilliti til þeirrar gagnrýni, sem hefur komið fram af hálfu bæði einkaverzlana og samvinnuverzlana á þeim, því að engum er það til hags, eins og ráðh. endurtók og ég hafði sagt, ef reglurnar ganga svo langt, að þær neyða verzlunina til þess að beita óeðlilegum verzlunar aðferðum og selja dýrari vöru en ella, til þess að komast hjá hallarekstri á þann hátt.

Viðkomandi síðari fsp. get ég látið ánægju í ljós yfir svari ráðh. Hann lýsti því yfir, að sú n., sem á að vinna að umræddu frv., verði látin taka til starfa aftur og það verði stefnt að því, að till. hennar verði lagðar fram á næsta þingi og ég vænti þess, að við það verði staðið. En þangað til það frv. verður lagt fram og það frv. verður orðið að lögum, verður að reyna að beita núverandi álagningarhöftum þannig, að þau sýni öllum aðilum sanngirni, jafnt neytendum sem þeim, sem með verzlunina fara. En ég dreg það mjög í efa samkvæmt þeim tilvitnunum í gögn frá einkaverzlunum og samvinnuverzlunum, sem ég hef vitnað til, að svo sé gert nú.