07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í D-deild Alþingistíðinda. (4004)

236. mál, verðlagsmál

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau ummæli hv. síðasta ræðumanns, að á meðan l. gilda um verðlagsákvæði, verður að framkvæma þau eins réttlátlega og kostur er. Og ég trúi tæplega öðru en það sé tiltölulega auðvelt að staðreyna það, hvað verzlunin þurfi til að reka fyrirtækin eðlilega. Ástæðan fyrir því, að það ætti að vera auðvelt, er sú, að það eru svo margir óhreyfanlegir liðir, liðir, sem verzlunin hefur ekki áhrif á, sem hljóta að auðvelda úrlausn þessa dæmis. Ég ætla að leyfa mér að vitna hér í grein, sem Stefán Jónsson, sem átt hefur sæti í verðlagsnefnd, hefur skrifað um þetta atriði, en þar segir:

„Sýnt hefur verið fram á, að heildarútgjöld vel rekinnar og vel skipulagðrar matvöruverzlunar eru t.d. allt að 80% ákveðin af öðrum aðilum en verzluninni sjálfri. Það er því hrein fjarstæða að halda því fram, að verzlunarstjóri geti, fremur en forstjóri annarra atvinnufyrirtækja, fært niður gjaldaliði, sem hann ræður engu um. Allir verða að gera sér grein fyrir, hve gífurlegan þátt hið opinbera á í útgjöldum allra atvinnufyrirtækja. Þá er ekki hægt að ganga fram hjá þeirri staðreynd, að launaliðurinn er allhár hjá flestum fyrirtækjum og mun hann þó sízt of hár, en hann ákvarðast í flestum tilfellum af samtökum launamanna. Flest atvinnufyrirtæki hér þurfa húsnæði til að starfa í. Þau verða og að mæta ýmsum útgjöldum, sem ekki eru ákveðin af launamannasamtökum og hinu opinbera. Það verður bókstaflega að viðurkenna þá staðreynd, að ekkert fyrirtæki getur starfað eða skapað atvinnu, ef tekjur mæta ekki óhjákvæmilegum útgjöldum.“

Síðar í þessari grein eru svo niðurstöður af kostnaðarliðunum sundurgreindar, og þar kemur það í ljós, eins og ég áðan sagði, að 80% af útgjöldum þessarar meðal verzlunar, sem Stefán tekur til dæmis, eru atriði, sem verzlunareigandinn hefur engin tök á að ráða við. Hann segir síðar um þetta atriði, að vafalítið megi deila eitthvað um framangreindar tölur, eins og flestar tölur, en benda má á, að verðlagsnefndin starfar eftir l., sem skylda hana til að miða ákvarðanir sínar við þarfir vel rekinna og vel skipulagðra fyrirtækja. Það er því skylda verðlagsn. að afsanna gildi þeirra talna, sem hér hafa verið nefndar, ef þær eru rangar að hennar áliti, en umræddar tölur og margar hliðstæðar upplýsingar munu í höndum n. og hafa ekki, eftir því sem mér er kunnugt um, verið hraktar þar.

Um síðara atriðið vil ég aðeins leyfa mér að segja það, að það er, að ég held, til bóta, að hæstv. viðskrh. hefur nú komizt á þá skoðun, að það sé auðveldara og heppilegra fyrir fólkið í landinu að stjórna verðlagsmálunum með öðrum hætti, en þeim verðlagsákvæðum, sem fram til þessa hafa verið látin gilda, því að verðlagsákvæðin, eins og þau eru nú, eru áreiðanlega ekki heppileg fyrir verðlagið. Ég ætla að leyfa mér að vitna aftur til umræddrar greinar eftir Stefán Jónsson, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Allir verða að gera sér ljóst, að það er ekki álagningarprósentan á vöru, sem skiptir aðalmáli fyrir neytandann, heldur verð vörunnar og annarra lífsnauðsynja. Gildir þetta jafnt, hvort verzlanir, vöruframleiðendur eða hið opinbera lætur lífsnauðsynjarnar í té. Er hér örugglega um aðalatriðið að ræða og því furðulegt, að það skuli vera í skugga af þeim áhuga, sem ríkir um prósentuálagninguna.“

Íslendingar eru meira háðir utanríkisviðskiptum en flestar aðrar þjóðir. Erlendir vöruframleiðendur beita margvíslegum aðferðum til að selja sínar vörur, ekki sízt vörur, sem offramleiðsla er á, eins og t.d. flestum iðnaðarvörum í okkar viðskiptalöndum. Þeir færa verð slíkra vara oft ótrúlega langt niður til að tapa ekki sölu. Þeir hafa verð og mishátt eftir því, hvort kaupandinn kaupir mikið magn í einu eða aðeins í smáum stíl. Af þessum sökum geta hagkvæm innkaup vara haft langtum meiri áhrif á vöruverð hér en t.d. mjög lág prósentuálagning. Ef prósentuálagning er mjög lág, skaðast innflytjandinn á því að kaupa á lægsta fáanlega verði, því að þá fær hann færri krónur í álagningu af sama vörumagni. Þetta er staðreynd, sem byggist á sama lögmáli og ótrúmennska verkamannsins í starfi sem mjög illa er launað. Allir vita, að óeðlilega lág álagning getur útilokað þá þjónustu að liggja með nauðsynlegan vörulager, veldur því kostnaðurinn við geymslu lagersins. Hér skal í þessu sambandi nefnt eitt dæmi, sem sannar að lækkun á álagningarprósentu getur hækkað vöruverð í stað þess að lækka það. Heildarsöluálagning á sumum tegundum af pappír var lækkuð úr 12% í 8 1/2% eða um tæpan þriðjung. Talið er, að þessi álagningarlækkun útiloki það stór innkaup af hverri tegund, að lægsta verð sé fáanlegt, verðmismunurinn á innkaupsverði geti numið allt að 10–14% eftir magni innkaupa á hverri tegund, en magnið, sem bundið sé við lægsta verð, þýði lagerkostnað, sem engin álagning sé til að mæta, ef álagning fer niður fyrir 12%. Sú álagningarlækkun, sem hér er nefnd sem dæmi, hefur þegar valdið verulegri hækkun á nefndri vöru í stað þess að lækka hana. Og ef vikið væri að smásölunni, sem ekki er tími til í þessari ræðu, þá eru dæmi, sem auðvelt er að sýna, um það, að verðlagsákvæðin eru ekki til þess að lækka vöruverðið. Ég kem kannske að því síðar.