07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í D-deild Alþingistíðinda. (4006)

236. mál, verðlagsmál

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Að svo miklu leyti sem ég hef átt þess kost að fylgjast með þessum umr., þá vil ég lýsa því yfir, að mér er ánægja að því, að hér skuli hafa komið frá svo mörgum aðilum sú skoðun, að við núverandi verðlagskerfi verði ekki unað til lengdar, heldur þurfi þar mikilla breytinga við.

Það hefur ætíð verið skoðun Sjálfstfl., að verðlagsreglur, slíkar sem gilt hafa nú um tíð og lengi raunar í mismunandi mæli, næðu ekki tilgangi sínum, þó að ekki hafi verið stjórnmálaleg skilyrði til þess að fá það kerfi afnumið. Ég tel þess vegna og get lýst því yfir af hálfu sjálfstæðismanna að við munum beita okkur fyrir því, að hinni nýju skipan verði komið á sem allra fyrst í þá átt, sem hæstv. viðskmrh. gerði grein fyrir í sinni ræðu.

Hitt er svo annað mál, sem hæstv. síðasti ræðumaður drap hér á, að þó að vitað sé, að verðlagskerfið þurfi endurskoðunar við, liggur það ljóst fyrir og hygg ég, að það sé óumdeilt í þeim samningaumr., sem nú hafa átt sér stað, að ef á því yrðu gerðar breytingar, hlyti það að hafa áhrif á allt kaupgjald í landinu. Það er eitt af því, sem liggur ljóst fyrir og útreikningar hafa verið gerðir um. Það er því ekki verið að fara á bak við neinn aðila, heldur verða menn að gera sér grein fyrir þessari staðreynd, um leið og samningar eru gerðir.