07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í D-deild Alþingistíðinda. (4008)

236. mál, verðlagsmál

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það kom fram í orðum fyrirspyrjanda í seinni umferð hjá honum, að hann orðaði það þannig, að álagningarreglurnar þurfi að sýna öllum aðilum sanngirni bæði verzlun sem neytendum. Það er mjög þægilegt að orða svona hluti, en vandamálið verður að setja þær reglur, sem fullnægja þessari ósk og við það á verzlunin að glíma í dag.

Það er rétt, að verzlunin á við erfiðleika að stríða, en ég vil skoða þá erfiðleika miklu viðtækar en komið hefur hér fram. Ég vil minna á það, að á ráðstefnu, sem Stjórnunarfélag Íslands hélt haustið 1967 og ég sótti ásamt mörgum fleiri verzlunarmönnum í Bifröst, kom skýrt fram, að eitt höfuðvandamálið við erfiðleika í rekstri við verzlun á Íslandi var skipulagið. Það var viðurkennt af Sigurði Magnússyni, ég held framkvæmdastjóra þeirra samtaka, a.m.k. smásöluverzlana í matvöru, að þeir ættu við sérstaka erfiðleika að búa í skipulagningu og það yrði eitt af stórverkefnum þeirra á næstu tímabilum að taka allt kerfið til endurskipulagningar. Ég saknaði þess í þessum umr. að heyra eitthvað um þau mál.

Ég bý í Kópavogi, og ég ritaði grein fyrir rúmum tveim árum í Alþýðublaðið um þá þróun, sem var í verzlun í Kópavogi. Þar fjölgaði verzlunum mjög ört í nýju og dýru húsnæði í íbúðahverfi og engin leið var að hafa það mikla eftirspurn fyrir matvöruverzlanir, að þær gætu borið sig með góðu móti, jafnvel þótt við hefðum fulla og frjálsa álagningu. Frelsið er gott á öllum sviðum, en það er aðeins gott, ef við kunnum að fara með það. Heildsölum hefur fjölgað hér mjög mikið og það er einkennandi fyrir íslenzka heildsölu, að þar eru 1–2 menn og mjög margir umboðssalar og þeir standa að smáum innkaupum. Þetta er óeðlilegt og það vita allir menn, sem við verzlun hafa fengizt. Ég hef fengizt við innkaup og verðlagningu í einhverju af stærstu fyrirtækjum þessa lands í nokkur ár og mér var vel kunnugt um það, hvað það þýddi að gera góð innkaup og njóta magnafsláttar, en þá vildi ég líka njóta þess, að ávinningur félli í skaut fyrirtækisins og það á vel rekin verzlun að fá. Sannarlega á hún að fá það. Álagningarreglur eiga ekki að vera þannig, að geri kaupmaður góð innkaup eða verzlun, skili hann þeim afdráttarlaust til neytenda. Hann á að meta það sjálfur, hvort hann eykur eftirspurn sína þannig lagað, geri hann góð innkaup, hvað má fara til neytandans og hvað vill hann taka sjálfur. Það eru skynsamleg vinnubrögð að mínu mati.

Nei, við skulum gera okkur grein fyrir því, að þrátt fyrir það, að verzlunin eigi við erfiðleika að búa, þarf að athuga hlutina niður í kjölinn. Óheft álagning er engin einhliða lausn, síður en svo og allra sízt þegar við erfiðleika er að etja í þjóðarbúskapnum og neytendur hafa minna til að spila úr. Þá verða kaupmenn að sjá sóma sinn í því að athuga sitt eigið kerfi og reyna að endurskipuleggja það.

Það kom fram hér hjá hv. 6. þm. Reykv., að eitt af grundvallaratriðum í hans sjónarmiðum er einmitt endurskipulagning og ég vil taka undir það. Við sjáum það, hvar sem við komum erlendis, að endurskipulagning á sér stað í verzlunarháttum. Þó verðum við víða varir við litlar búðir í gömlum íbúðarhverfum, sem halda velli. Það eru þá önnur atriði, sem þar koma inn. Það eru persónuleg kynni við kaupmanninn og jafnvel fjölskylduna í fyrirtækinu. Þessi þróun hefur verið all víðtæk á Íslandi, en hún er ekki æskileg gagnvart framtíðinni og ekki æskileg að mínu mati hér á Stór–Reykjavíkursvæðinu. Það er miklu betra, að menn starfi saman, geti gert hagkvæm innkaup og geti stuðlað að því, að dreifingarkostnaðurinn verði í lágmarki.

Hvað verður úr um óhefta álagningu eða ekki, það skal ég ekkert um segja. En ég vil minna á það, að mjög mörg lönd í Evrópu hafa álagningarreglur þannig, að þær eru innan viss ramma. Það hefur verið túlkað oft, að þær hafi verið frjálsar. Þær eru frjálsar að vissu marki og gefa mönnum svigrúm til þess að spreyta sig og njóta ávinnings um leið. Það finnst mér nokkuð heilbrigt og eðlilegt. Það er svo, eins og ég sagði áðan, mat þess duglega verzlunarmanns, sem gerir góð innkaup, annaðhvort einn eða sameiginlega við félaga sína, hvað mikið hann lætur af þessum ávinningi í magnafslætti t.d. eða hagstæðum innkaupum burt frá sér til neytenda. Hann getur dregið með því móti að sér góða kaupendur og tryggt þannig trygga eftirspurn. En þetta metur og vegur hver heilbrigður aðili og gerir það upp við sig sjálfur.

Ég vil ekki tefja þessar umr. miklu lengur. En ég vil undirstrika það, að það er ekki einhlítt ráð til að bjarga verzluninni í dag að setja bara frjálsa álagningu. Hún þarf líka á góðu rekstrarfé að halda. Hún sveltur raunverulega. Hún mætti líka leggja meira af eigin fé af mörkum, a.m.k. sumir. Þegar þessir þættir allir eru komnir saman, vonum við það, að verzlunin geti átt bjartari daga, því að það er líka hagkvæmt fyrir neytendur, að verzlunin sé vel rekin, bæði hér á Íslandi og annars staðar. En þetta verður að takast sem ein heild undir nýju skipulagi.