07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í D-deild Alþingistíðinda. (4009)

236. mál, verðlagsmál

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Það var að heyra á hæstv. forsrh. hér áðan, að stjórnmálaleg skilyrði hafi verið heldur óhagstæð Sjálfstfl. undanfarinn áratug, þar sem hann vegna óhagstæðra stjórnmálaskilyrða hefur ekki komið fram einu helzta baráttumáli flokksins, því að hafa frjálsa álagningu í verzluninni. En nú virðist eitthvað vera að rofa til á stjórnarheimilinu, eftir því sem hann sagði, og það er þá við því að búast, að þessi mál verði færð í eitthvað betra horf. Satt að segja hélt ég, að Sjálfstfl. hefði haft stjórnarforustuna hér undanfarinn áratug og svona undanbrögð væru ekki á neinum verulegum rökum reist.

En út af því, sem hæstv. viðskrh. sagði áðan, að við vildum umfram allt hækka álagningu, þeir talsmenn Framsfl., sem hér hafa talað, vil ég undirstrika það, sem ég held, að ég hafi sagt áðan, að ég er ekki þeirrar skoðunar, að breyttar verðlagningarreglur þurfi undantekningarlaust að þýða hækkað vöruverð. Ég held, að það sé víðs fjarri og ég nefndi áðan dæmi um innflutning, þar sem þær reglur, sem hér eru við hafðar, hækkuðu vöruverðið.

Hv. 5. landsk. þm. lýsti því áðan, hvað það væri óhagkvæmt, að verðlagsákvæðin meinuðu mönnum að gera hagstæð innkaup og njóta magnafsláttar, sem er alveg rétt hjá honum. Ég ætla að leyfa mér að nefna hér dæmi úr smásölu, sem ég hef hér fyrir framan mig. Það er um sölu á kartöflumjöli og það gildir ekki bara um kartöflumjöl, heldur um kornvöru alla og sykur og margar þess háttar vörur. Annars vegar er gert ráð fyrir því, að verzlunin kaupi 50 kg sekk af kartöflumjöli og vigti þetta sjálf og hafi fyrir því. Þá lítur dæmið þannig út, að innkaupsverðið á kg er 15.08 kr., smásöluálagningin, sem í því tilfelli er 27%, gerir 4.08 kr., söluskatturinn 1.44, útsöluverðið þar með 20.60 kr. Það er gert ráð fyrir því, að poki, sem verzlunin þarf að leggja til, kosti 40 aura, þannig að verzlunin fái þá fyrir að vigta upp og selja kartöflumjöl í þessum umbúðum 3.68 kr. Það fær verzlunin fyrir að inna þessa þjónustu af hendi sjálf. Svo er líka hægt fyrir kaupmanninn að kaupa kartöflumjölið í 1 kg pokum úr sömu sendingu, sem aðrir aðilar hafa pakkað í 1 kg pakkningar. Þá lítur dæmið svona út: Innkaupsverð pr. kg. 21.90, smásöluálagningin að vísu ekki nema 22%, en gerir samt 4.80 kr., 72 aurum meira en í hinu dæminu, og söluskatturinn 2 kr. Útsöluverðið verður þá 28.70 kr. Í þessu tilviki fær verzlunin 4.80 kr. fyrir að selja hvert kg, en viðskiptavinurinn þarf að greiða 8.10 kr. meira fyrir hvert kg.

Þetta eru þau verðlagsákvæði, sem við búum við. Þó að verzlunin fengi meira í sinn hlut, þegar hún gerir hagkvæm innkaup, þá gæti hún samt selt á lægra verði. Eins og þetta dæmi sannar, fær hún meira í sinn hlut, þegar hún gerir óhagkvæm innkaup. Ég læt það alveg eftir hverjum, sem um þessi mál vill hugsa, að gera sér það í hugarlund, hvora viðskipta aðferðina kaupmenn muni hafa. Ég hygg, að það sé ekki víða, sem kaupmaðurinn leggur það á sig að vigta í sundur 50 kg af kartöflumjöli eða hvað það nú er og vera að því 11/2 klukkustund, eins og sannað er, að ekki er hægt að gera það á öllu skemmri tíma, til þess að bera minna úr býtum, heldur en að fara í aðra verzlun, þar sem búið er að inna þessa vinnu af hendi og fá meira fyrir að selja vöruna með því móti.

Þess vegna held ég, að það sé alveg rangt að setja dæmið þannig fram, að það sé um að tefla annars vegar hærri álagningu og þá dýrari vörur eða það fyrirkomulag, sem nú er. Til þess að bæta úr því ástandi, sem er hjá verzluninni, er því ekki nauðsynlegt að hækka álagninguna, vegna þess að ég þykist hafa sýnt fram á það, að bæði í smásölu og í heildsölu geti breytt ákvæði þýtt lægra vöruverð, en á sama tíma meira í hlut kaupmannsins.