20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

1. mál, fjárlög 1969

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. þm., sem síðast talaði, helgaði mér alveg óvænt meginhluta ræðu sinnar, og gerði ég mér fyrst alls ekki ljóst, hverju ég átti þann mikla heiður að þakka, að hann skyldi fara að snúa sér sérstaklega að mér í umr. um fjármál eða fjárlagafrv. Og ég þarf ekki mörg orð til þess að svara fyrir mitt leyti, því að ég þykist alveg greina orsökina, og það er langt frá því, að ég hafi í hyggju að stökkva nokkuð upp á nef mér. Ég þykist vita það og finna það, að hv. þm. er mikið niðri fyrir. Það er heitt í huga hans, það er mikil innibyrgð gremja á ferðinni í brjósti þessa aldna þm., og gremjan bitnar á mér, þó að rétti staðurinn fyrir hana sé áreiðanlega formaður Framsfl. og sá þm., sem sat hér á þingi fyrir skömmu, Kristján Thorlacius. Ég þykist vita það, að ástæðan fyrir ergelsi hv. þm. sé sú, að ég gerði það að gefnu tilefni hér á kvöldfundi um daginn að fá úr því skorið, hvort þessi hv. þm. talaði hér fyrir hönd Framsfl. eða ekki. Og hann hlaut það ömurlega hlutskipti á þessari kvöldstund, að allir, sem töluðu fyrir hönd hans flokks, afneituðu honum algerlega. Enginn vildi kannast við skoðanir hans, enginn vildi gera þær að sínum skoðunum. Og þegar við það bættist, að á það var minnt, að ungur þm., sem sat hér á þingi fyrir flokk hans, hafði lýst honum og skoðunum hans þannig, að þegar hann talaði, væri eins og þar talaði rödd frá því fyrir fjórum áratugum, þá get ég skilið, að honum hafi mislíkað nokkuð. Ég tek á mig þá ábyrgð af þessu að hafa orðið til þess að gera þm. það enn þá ljósara en ella, hvernig komið er fyrir þessum hv. þm. í hans eigin flokki og hér á Alþ., og ég reiðist honum því ekkert, þó að hann reiðist mér, en bendi honum bara á það, að hann ætti að láta reiði sína koma opinberlega fram gagnvart þeim, sem hann er raunverulega reiður, því að ég get ekki hugsað mér, að honum í alvöru sárni við mig, ráðh., sem hann er sífellt að deila á hér á hinu hv. Alþ., þó að ég svari „ pá tiltale“, eins og sagt er í Danmörku. En annars, þegar hann heldur enn eina slíka endemisræðu og hann hélt hér, held ég, að verði að vekja opinbera athygli á því, að sannast sagna eru ræðuhöld þessa hv. þm. orðin plága hér á hinu háa Alþ. Hann er farinn að verða flokki sínum og sjálfur sér, — hann er farinn að vekja þess konar athygli á sjálfum sér og flokki sínum, að það er orðið áhyggjuefni öllum, sem einu sinni var og enn er vel við þennan hv. þm. og er ekki sama, hvað verður um sóma Alþ. Í augum alþjóðar. Það er ekkert ánægjuefni, að hér skuli vera í þingflokki næststærsta stjórnmálaflokks landsins menn, sem verða sér, sínum flokki og Alþ. til minnkunar í hvert skipti, sem þeir koma hér í ræðustól. Og raunar er það ekki aðeins hér á Alþ., sem þessi hv. þm. hegðar sér nákvæmlega samkvæmt þeirri lýsingu, sem Kristján Thorlacius gaf á honum hér fyrir nokkrum kvöldum. Hann gerir það líka í blaði síns flokks. Og nú ætla ég að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að gefa hv. síðasta ræðumanni orðið með því að lesa útdrátt úr grein, sem birtist eftir hann í málgagni Framsfl. 27. sept. 1968, ef það kynni að verða til þess að vekja hann sjálfan og flokk hans og alþm. yfirleitt til umhugsunar um það, hvers konar fyrirbæri hér raunverulega er á ferðinni. Þessi grein, sem þessi hv. þm. birtir undir nafni og undir fimm dálka fyrirsögn í Tímanum á fyrrnefndum degi, heitir „Tröllskessa, sem nefnist Tölva.“ Það mætti vel segja mér, að þessi grein hafi verið ein af mörgum ástæðunum fyrir því, að Kristján Thorlacius lét þau orð falla um hv. þm., sem hann gerði hér fyrir nokkrum dögum. En greinin fjallar um baráttu hans við bankavald í Reykjavík, um það að fá að halda ákveðnu númeri á sínum ávísunarreikningi. Nú skal ég lesa nokkrar setningar úr greininni, — (Gripið fram í.) svo mikið vil ég ekki leggja á háttv. þm. — sem sýnir, lýsir alveg efni greinarinnar og almennu hugarástandi þessa hv. þm., en hér segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í ágústmánuði í sumar fékk ég bréf frá Landsbankanum, þar sem segir, að bankinn hafi nýlega tekið í notkun rafreikni, tölvu, í bókhaldi sínu og vegna þessara breytinga þurfi að taka upp nýtt númerakerfi, þannig að einum tölustaf verði bætt aftan við núverandi númer hvers viðskiptamanns, og er ég beðinn að bæta einum tilgreindum tölustaf aftan við mitt gamla númer á ávísanir, sem ég gef út eftir 24. ágúst í ár. Þá er ég einnig beðinn um að koma í afgreiðslu bankans við fyrstu hentugleika og láta þar í té nafnnúmer mitt og nýtt rithandarsýnishorn. Þessu með nafnnúmerið ætla ég ekki að ansa. Ég viðurkenni ekkert númer á sjálfum mér. Skírnarnafn mitt að viðbættu föðurnafni og heimilisfangi hefur merkt mig hingað til, og ég vona, að það endist mér þann tíma, sem ég á eftir að tóra hér á landi, og ég vil fá að halda mínu gamla reikningsnúmeri í bankanum óbreyttu.“

Svo lýsir hann göngu sinni á milli Landsbankans og — nei, hann kemur ekki að því enn. Það er svolítið framhald. Svo fer hann heim til sín norður í land og hugsar málið vandlega. En svo heldur hann áfram í seinni greininni:

„Næst þegar ég kom til höfuðstaðarins, lagði ég leið mína í Landsbankann og gerði boð fyrir manninn, sem skrifaði bréfið. Það hafa farið fram bréfaskipti milli hans og bankans norður í landi um málið. Þetta reyndist vera maður nokkur við aldur, fremur hár vexti og ekki feitur, með gleraugu og dálítið hæruskotinn. Nú hafði ég nýja tillögu á takteinum, stakk upp á því, að ég ritaði númerið tvisvar á ávísanir með striki á milli. En það taldi hann, að tölvan mundi ekki geta samþykkt. Maðurinn var hinn alúðlegasti og virtist allur af vilja gerður til að greiða úr málinu, en hann stóð alveg magnþrota frammi fyrir þessari tröllskessu, sem tölva nefnist.“

Og nú lýsir hann göngu sinni úr Landsbankanum og í aðra banka í miðbiki höfuðstaðarins. Enn segir seinna: „Litlu síðar gekk ég inn í Samvinnubankann við Bankastræti.“ — Hefur auðvitað átt von á því, að þar réðu framsóknarmenn, sem gætu greitt fram úr þessum merkilegu sjónarmiðum þm. — „Þar ávarpaði ég konu innan við borðið og spurði, hvort svo stæði á, að ávísanareikningur með númerinu, sem ég nefndi, væri laus hjá þeim. Hún svaraði mér, að þar væru nú eingöngu notuð fimm stafa númer. Ég kastaði kveðju á kvenmanninn, rölti niður í Austurstræti og inn í Búnaðarbankann. Þar bar ég upp sömu spurningu og áður í Samvinnubankanum. „Hér höfum við aðeins fjögurra tölustafa númer,“ var svarið. „Jæja, ljúfan mín, þá hef ég ekki meira við þig að tala að sinni,“ og ég fór.“

Svo kemur enn lýsing á göngu í þriðja bankann, Útvegsbankann: „Hvaða höll er þetta, sem hér rís til vinstri? Útvegsbanki Íslands, það ætti ekki að saka, að heilsa upp á fólkið á þessu heimili.“ Löng lýsing á viðskiptunum þar, og þau enda vel. Þeirri lýsingu lýkur svona: „Hann“ þ.e.a.s. starfsmaðurinn í Útvegsbankanum „sagði, að því Útvegsbankafólki væri það sönn ánægja að láta mig hafa ávísanareikning með þessu númeri, ef ég gerðist viðskiptamaður þar. En af því að ég var ekki við því búinn að stíga þetta örlagaskref þá samstundis, þá sömdum við um það, að hann héldi þessu númeri lausu fyrir mig, þangað til ég kæmi suður næst, væntanlega eftir skamman tíma. Og nú er ég að hugsa um málið.“ Og greininni lýkur með þessum merkilegu orðum: „Þetta er vandamál, og ég er að hugsa.“

Ég vek athygli hv. alþm. á því, að sá maður, sem þetta skrifar og þetta hefur gert og telur sér stolt og sóma að því að segja landslýð frá því, hvað hann hefur verið að hafast að, er einn helzti málsvari Framsfl. hér á hinu háa Alþ. Það er orð að sönnu, að skoðanir þessa manns eru a.m.k. 40 ára gamlar. Kristján Thorlacius hefur ekki ýkt lýsingu sína á þessu hugarástandi þingmannsins, og satt að segja held ég, að full ástæða sé til þess að frábiðja sér mikil ræðuhöld af hálfu þessa þm. það sem eftir er af þessu þingi og þeim þingum, sem hann á eftir að sitja, þingsins vegna, flokks hans vegna og sjálfs hans vegna.