07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í D-deild Alþingistíðinda. (4012)

236. mál, verðlagsmál

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég bað hér um orðið, var sú, að mér virtist, að ræðumenn kæmu ekki inn á aðalatriði málsins. Það var fyrst hjá hæstv. dómsmrh., að komið var í raun og veru inn á kjarna málsins, um það, hvers vegna verzlunin er í vandræðum nú. Það eru tvö atriði, sem aðallega hafa valdið því: Í fyrsta lagi, að núverandi ríkisstj. hækkaði vexti um meira en þriðjung, þegar hún tók við völdum fyrst, en að meðaltali hefur það verið um þriðjung allt tímabilið og vextir eru ægilegur liður fyrir viðskiptalífið. Ég fékkst við verzlun í nokkur ár við kaupfélag og vextirnir, sem það kaupfélag borgaði, voru ámóta miklir og allt kaupgjaldið, sem var borgað. En það er vitanlega meira hjá verzlunum eins og kaupfélögum, sem þurfa að hafa allar vörutegundir til og umsetja bæði innlenda og erlenda vöru. Í öðru lagi valda endurteknar gengislækkanir erfiðleikum fyrir verzlunina. Inn á það kom hæstv. ráðh. Hann skildi það mál og einmitt það, sem hann segir, að verzlunin blómgaðist á tímabilinu frá 1961 til 1967, var af því, að þá var gengið stöðugt. Með tveim síðustu gengislækkunum er búið að taka um það bil helming af rekstrarfé verzlananna. Gjaldeyrir hefur hækkað um 100%, en þær hafa ekki fengið að hækka vörubirgðir. Það er skortur á skilningi þeirra manna, sem ráða. Ég vil undanskilja okkur í stjórnarandstöðunni. Ég skal ekkert fullyrða um það, hvernig afstöðu við hefðum tekið, en ég hefði a.m.k. verið með því að lofa kaupmönnunum að hækka vörubirgðir. Þeir skildu ekki þennan atvinnuþátt í þjóðfélaginu, að leyfa ekki kaupmönnunum að hækka vörubirgðir. Kaupmennirnir eru orðnir févana. Þeir þurfa að borga vexti af helmingi hærri upphæðum. Þeir segja, eins og satt er: Við verðum að fá hærri álagningu. — Það var betra fyrir fólkið að leyfa kaupmönnunum að hækka strax, þá hefði það hamstrað minna, heldur en að taka af þeim helming af rekstrarfénu og þurfa svo að hækka álagninguna miklu meira á eftir. Hækkunin hefði komið 2–3 mánuðum fyrr, en það var betra að taka hana á sig strax, þá hefði fólkið byrjað að spara, heldur en að fá meiri hækkun síðar.

Það var réttilega tekið fram hjá hæstv. ráðh., að verzlunarstéttin er engan veginn óþörf stétt eða neinar afætur. Við getum ekki komizt af án verzlunar og viðskipta, ekki í neinn landi. Og á þessu landi þarf mikil viðskipti, vegna þess að framleiðsla okkar er einhæf og við þurfum margt að kaupa.

Magnús Kjartansson talaði um, að við ættum að bæta framleiðni í verzlun, ekki er nokkur efi á því, að við gætum komizt af með færra fólk í verzlun. En hvað eigum við að gera við það fólk, sem vinnur nú við verzlunina? Er betra að láta það hafa atvinnuleysisstyrki? Getum við útvegað því vinnu? Og í öðru lagi: Fólkinu finnst það hafa betri þjónustu í gegnum þessar litlu verzlanir hvað smásöluna snertir. Þetta horfir öðruvísi við með innkaupin. Það er hægt að ná hagkvæmari innkaupum. Ódýrasta verzlunin og sú, sem skapar minnsta vörurýrnun og á margan hátt bezta þjónustu, er einmitt litlu verzlanirnar, þar sem fjölskyldan vinnur að verzluninni. Það er gersamlega ómögulegt fyrir stóra verzlun, t.d. kaupfélag, að eyðileggja verzlun hjá kaupmanni, sem vinnur að sinni verzlun með dugnaði með sinni fjölskyldu. Það verður ódýrari umsetning hjá honum. Það er hægt að fækka fólki í verzlun, það er enginn efi á því. En vinnur þjóðfélagsheildin mikið við það?

Það eru þessir tveir liðir, vaxtahækkanirnar og gengislækkanirnar, sem hafa verið misnotaðir gagnvart verzlunarstéttinni, sem hafa gert hana fjárvana og skapað henni þá örðugleika, sem nú eru, frekar en lág álagning. Ég hygg, að það hefði enga hækkun á álagningu þurft, ef þetta hefði ekki verið tekið af rekstrarfjárhæðinni, okrað á vöxtunum. Það er þetta, sem fólkið þarf að fara að borga nú, þegar stendur allra verst á fyrir því með að borga.

Varðandi fullyrðingar um, að það sé hagkvæmara að hafa frjálsa álagningu í verzlun eða verðlagsákvæði, þá vil ég ekkert fullyrða um það, vegna þess að þarna eru tvær hliðar á máli, sem endalaust má deila um. Það er rétt, sem kom fram hjá Jóni Árm. Héðinssyni, í raun og veru talaði hann eins og maður, sem er á móti verðlagseftirliti, að kaupmaðurinn hefur heldur hvöt til þess að gera hagkvæmari innkaup, ef hann fær að græða eitthvað á því sjálfur. Hann fær í raun og veru meira kaup, ef hann kaupir dýrt, ef álagningarprósentan er ákveðin, svo framarlega að hann geti afsett vöruna. En ég hygg, að við ýmsa heildsala komi þessi takmarkaða álagning ekki eins illa. Heildverzlanir geta fengið prósentur að einhverju leyti ytra. Þær geta bjargað sér á því. Aftur hafa smásöluverzlanirnar ekki sömu aðstöðu.

Það er þetta, sem veldur því, að það er gersamlega ómögulegt að reka neina heilbrigða atvinnu og allra sízt í viðskiptalífinu með því að vera alltaf að breyta genginu. Undirstaða undir öllu heilbrigðu fjármálalífi er stöðugt gengi. Þetta vita allar þjóðir, sem kunna að stjórna sínum fjármálum. Þess vegna þurfum við ekkert að vera hissa á því, þó að allt sé komið í vandræði núna hjá þeim mönnum, sem eru í viðskiptalífinu og allra sízt þegar þetta er framkvæmt á þann hátt, að það er tekinn helmingur af rekstrarfé verzlananna. Þeir, sem fara krókaleiðir, hækka ef til vill sínar vörur eða brjóta á einhvern hátt lögin. Það má vera, að þeir hafi beðið minna tjón. En það eru heiðarlegu kaupmennirnir og kaupfélögin, sem hafa afar takmarkaða aðstöðu til þess að fara krókavegi í viðskiptum og það eru þau, sem hafa orðið harðast úti. Sú meðferð hlýtur að bitna á neytendunum fyrr eða síðar til mikils tjóns.