07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í D-deild Alþingistíðinda. (4013)

236. mál, verðlagsmál

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta misskilning, sem kom fram í máli hæstv. dómsmrh. Hann sagði, að ég hefði sagt, að fulla vísitölu ætti að greiða. Ég hefði sagt það hér í þingsölunum. Ég hef aldrei sagt, að fulla vísitölu ætti að greiða nú á laun, hvorki hér í þingsölum né utan þingsala. Það, sem ég hef sagt, er, að það ætti að greiða vísitölu í samræmi við þá kjarasamninga, sem gerðir voru á milli stéttasamtakanna í marzmánuði 1968 og að opinberum starfsmönnum ætti að greiða samkvæmt þeim kjaradómi, sem kveðinn var upp 21. júní 1968. Ég hef jafnframt tekið það fram, að slíkt skert vísitölukerfi væri ekki til frambúðar, en ég hef undirstrikað það, að eins og ástatt væri nú í þjóðfélagsmálum, þá væri ekki hægt að fara fram á meira en þá skertu vísitölu, sem áður hafði verið samið um. Ég býst við því. að hæstv. dómsmrh. sé mér svo sammála um hitt, að svona kerfi sé ekki til frambúðar. Þetta vildi ég aðeins leiðrétta, af því að þetta er meginatriði og ég vil ekki láta það standa í þingtíðindum, án þess að ég hafi mótmælt því og ég geri ráð fyrir því og veit það, að þetta hefur verið af misgáningi hjá hæstv. dómsmrh., en ekki ætlun hans að fara hér með rangt mál.

Tíminn er búinn, og ég ætla ekki að fara að blanda mér í þessar umræður, sem hér hafa farið fram um verðlagsmál. Ég get þó ekki stillt mig um að vekja athygli á einu atriði í málflutningi hæstv. viðskrh., sem ég átti dálítið bágt með að átta mig á. Hann lagði mikla áherzlu á, að mér skildist og það olli honum miklum áhyggjum, að það væri sundurlyndi um stefnuna í þessum málum á milli stjórnarandstöðuflokkanna, annar flokkurinn vildi þetta, hinn flokkurinn vildi hitt. Út af þessu vil ég segja það, að það hefur yfirleitt ekki verið venjan sú hingað til, að það hafi verið stjórnarflokkunum mikið áhyggjuefni, hvað stjórnarandstöðuflokkarnir hafa viljað í einu eða öðru og ég held nú allra sízt, að það hafi verið þeim áhyggjuefni, þó að eitthvað bæri á milli stjórnarandstöðuflokkanna í einhverju efni. Það, sem hér er meginatriðið, er það, að stjórnarflokkarnir hafa í þessu sem öðru meiri hluta og það, sem mestu skiptir auðvitað, er að þeir séu sammála. Ef þeir eru sammála um þá stefnu, sem þeir telja heilbrigða og eðlilega, þá geta þeir framkvæmt hana, alveg án tillits til, hvaða skoðun stjórnarandstöðuflokkarnir hafa á þessu máli. Það, sem allt veltur á, eins og hæstv. forsrh. sagði réttilega, er það hvort það eru stjórnmálaleg skilyrði hjá stjórnarflokkunum fyrir hendi til þess að framkvæma rétta og eðlilega stefnu að þeirra mati í þessu efni eða ekki. En hitt ætti ekki að valda þeim neinum andvökunóttum, þó að stjórnarandstaðan hafi einhverjar mismunandi skoðanir á þessu efni. Það er þá alveg nýtt, ef þeir eru farnir að hugsa svo mikið til stjórnarandstöðunnar upp á síðkastið.