14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í D-deild Alþingistíðinda. (4029)

289. mál, gjaldeyristekjur í sambandi við starfsemi varnarliðsins

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram, þá er ekki alveg auðvelt að svara öllum þessum spurningum, sem hafa verið bornar fram eða afla nægilegra upplýsinga á þeim stutta tíma, sem hefur verið fyrir hendi til þess að geta gert það. Ég hef þó farið fram á það við varnarmáladeild, að þeir létu í té þær upplýsingar, sem þeir hefðu í höndum og öfluðu frekari upplýsinga eftir því sem hægt var, á þeim stutta tíma, sem liðinn er frá því, að fsp. var borin fram og til dagsins í dag, þegar henni á að svara. Ég hef svo fengið frá varnarmáladeildinni umsögn um þessa liði alla, þó að ég verði að segja, að um fyrsta liðinn, sem er mest vandsvarað, eru upplýsingarnar tæplega á þann veg, að þær séu alveg 100% ábyggilegar og eru sagðar hér með nokkrum fyrirvara. En um 2., 3. og 4. lið fsp. vildi ég segja, að þeim er auðsvarað.

Í 2. lið fsp. er spurzt fyrir um gjaldeyristekjur af varnarliðinu á tímabilinu frá 1. júlí 1966 til 30. júní 1967. Samkvæmt þeim útreikningum, sem fyrir liggja, námu gjaldeyristekjur á þessu tímabili 16.383.208 dollurum.

Um 3. liðinn er það að segja, að meðallaun íslenzkra starfsmanna hjá varnarliðinu í dollurum voru árið 1967 4.769 dollarar, eða 204.841 kr. Í dag eru meðallaunin 2.818 dollarar, eða íslenzkar kr. 247.679, eftir því sem næst verður komizt. Tölur um meðallaun fyrir sumarið 1967 liggja ekki fyrir, enda hæpið að leggja þær til grundvallar vegna sumarafleysinga.

Varðandi 4. lið er rétt að skýra frá því, að störfum, sem Íslendingar vinna hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, hefur fjölgað og einnig, að unnt hefur verið að komast hjá niðurskurði á mannafla, sem fyrirhugaður var hér s.l. sumar, eins og í öðrum stöðvum Bandaríkjamanna, þar sem fjárveiting var takmörkuð verulega. Ef miðað er við 1. okt. 1966, eða þegar sumarafleysingarfólk er hætt vinnu, þá störfuðu hjá varnarliðinu alls 583 Íslendingar og 180 Bandaríkjamenn. Hinn 3. apríl s.l. eru íslenzkir starfsmenn alls 657 og Bandaríkjamenn 195 eða 15 fleiri en þeir voru 1. okt. 1966 og stafar sú hækkun aðallega af fjölgun kennara.

Hjá íslenzkum verktökum varnarliðsins störfuðu hinn 1. okt. 1966 alls 370 manns og hinn 1. apríl s.l. 314, en jafnan er unnið minnst að byggingarframkvæmdum um þetta leyti árs. Þessar spurningar má segja að séu þannig byggðar, að það sé hægt að svara þeim nokkurn veginn nákvæmlega og það tel ég að hafi verið gert í þessu svari, sem ég hef hér gefið.

En 1. liður þessarar fsp. hljóðar svo: „Hve mikil er sú upphæð í dollurum, sem tapazt hefur vegna síðustu tveggja gengislækkana í sambandi við starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli:

a. vegna starfa íslenzkra verktaka,

b. vegna íslenzkra starfsmanna hjá varnarliðinu,

c. vegna raforkukaupa varnarliðsins og

d. vegna þjónustu og vörusölu til varnarliðsins?“

Fsp. þessari er ákaflega erfitt að svara, sérstaklega með litlum fyrirvara. Ekki er unnt að taka gengisbreytingarnar einar út af fyrir sig án þess að taka líka tillit til alls konar hækkana hér innanlands og á ýmsum tímum.

„Ég hef snúið mér til Seðlabankans,“ segir forstöðumaður varnarmáladeildar „og fengið þar þessar upplýsingar. Með tilvísun til beiðni yðar um upplýsingar til undirbúnings á svari við fsp. Stefáns Valgeirssonar varðandi tap vegna síðustu 2 gengisfellinga í sambandi við starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, skal eftirfarandi tekið fram:

Augljóst er, að útgjöld varnarliðsins vegna starfsemi þess á Keflavíkurflugvelli hafa lækkað nokkuð í dollurum vegna afleiðinga af síðustu tveim gengisfellingum íslenzku krónunnar. Hins vegar er mjög hæpið, að hægt sé að áætla fjárhæð þessa með nokkurri nákvæmni. Mikill hluti af útgjöldum varnarliðsins, en þó ekki öll, eru greiðslur fyrir þjónustu, sem að verulegu leyti ákvarðast í krónum samkvæmt innlendu verðlagi. Lækkar dollaraupphæð, sem greiða þarf fyrir slíka þjónustu, sem ákvörðuð er í krónum, ef gengi krónunnar er lækkað gagnvart dollara. En taka þarf einnig tillit til þess, að innlent verðlag hækkar nokkuð vegna afleiðinga gengislækkunar krónunnar.

Hér fer á eftir yfirlit um nettótekjur af varnarliðsviðskiptum fyrir tímabilið 1. júlí 1966 til 30. júní 1967 og bráðabirgðatölur fyrir árið 1968 og fyrsta ársfjórðung ársins 1969. Eru tölurnar fyrst tilgreindar í íslenzkum krónum, en tölur fyrir 1968 og 1969 síðan umreiknaðar í dollara. Þessar tölur eru þannig: Í fyrsta lagi fyrir tímabilið frá 1/7 1966 til 30/6 1967 og tölurnar eru taldar í millj. kr.: Íslenzkir verktakar 189 millj.. Kaup varnarliðsins á kr. 164 millj.. Raforkukaup varnarliðsins 1,8 millj.. Þetta er nettótala. Og önnur þjónusta og vörusala varnarliðsins 117,3 millj. Fyrir 1968 liggja fyrir bráðabirgðatölur, sem eru þannig: Íslenzkir verktakar 160 millj.. Kaup varnarliðsins á krónum 190 millj.. Raforkukaup varnarliðsins 2,4 millj., og önnur þjónusta og vörusala til varnarliðsins 172 millj. Á þremur fyrstu mánuðum þessa árs eru upphæðirnar þannig: Íslenzkir verktakar 45 millj.. Kaup varnarliðsins á kr. 46 millj.. Raforkukaup varnarliðsins 1 millj.. Önnur þjónusta og vörusala varnarliðsins 50 millj. Í heild hafa útgjöldin því verið þessi: Árið 1966–1967 472,3 millj. kr. og 1968 525 millj. og fyrstu 3 mán. ársins 1969 142 millj.

Umreiknað í dollara lítur þetta dæmi þannig út: Fyrir árið 1968: Íslenzkir verktakar 160 millj. ísl. kr., sem svarar til í dollurum, miðað við gengi 43 kr. dollarinn, 3,7 millj., og miðað við gengi 57 kr. dollar, 2,8 millj. dollara, mismunur 0,9 millj. dollara. Kaup varnarliðsins á kr. voru 190 millj. ísl. kr., eða 4,4 millj. dollara miðað við gengi 43 kr. á dollar og 3,3 millj. miðað við gengið 57 kr. og mismunur þess vegna 1,1 millj. dollara. Raforkukaup varnarliðsins nettó voru 2,4 millj. kr. í dollurum, miðað við gengið 43 kr. Önnur þjónusta og vörusala til varnarliðsins var 172,6 millj. ísl. kr. umreiknað í dollara með 43 kr. gengi 4 millj. og með 57 kr. gengi 3 millj., mismunur ein millj. dollara og mismunur því í allt fyrir árið 1968 3 millj. dollara. Fyrir 1969 lítur dæmið þannig út, — það er sundurliðað alveg eins og 1968 og ástæðulaust að lesa það upp, enda er það bara fyrir 3 fyrstu mánuði ársins, en mismunurinn þar er 0,9 millj. dollara.

Af þessu yfirliti má sjá, að mismunurinn á árinu 1968, ef miðað er við gengið 43 og 57 kr. hver dollar, verður 3 millj. dollara, en á fyrsta ársfjórðungi 1969 er mismunurinn 0,9 millj. dollara á milli dollaragengis 57 og 88 kr. Ef um væri að ræða stöðugt verðlag væri þetta sú dollaraupphæð, sem tapast í viðskiptum við varnarliðið á árinu 1968 og fyrsta ársfjórðunginn 1969.

Til frádráttar þessu ætti að koma hækkun á innlendu verðlagi vegna gengisbreytinganna og af öðrum orsökum. Ekki er auðvelt að meta, hve mikil þau áhrif eru, en ekki mundi fjarri lagi að áætla að þau nemi um 1/4 af þeirri dollara upphæð, sem annars mundi tapazt.“

Þetta er umsögn Seðlabankans.

Frá raforkumálastjóra hefur verið fengin skýrsla líka, en hún er gerð upp öðruvísi, en skýrsla Seðlabankans, þar sem eingöngu er tekin jöfnunarsala eða sagt, að á undanförnum 3 árum hafi kaupin verið fyrir til jafnaðar um 21 millj. ísl. kr. á ári, — það er ekki greint á milli ára. Síðan bætir hann við, — hann miðar við gengi 42.95, — að þetta sé 488.941 dollar og miðað við gengið 56,93 séu þetta 368.874 dollarar og miðað við gengið 87,90 séu þetta 238.907 dollarar. Nú standa fyrir dyrum aukin kaup varnarliðsins á rafmagni og að loknum viðbótarmannvirkjum í riðstraums breytistöð á flugvellinum að væntanlega tveim árum liðnum, er áætlað, að kaupin aukist úr 6.300 árs kw. í 10.000 árs kw., úr 46 millj. í 66 millj. kwst. á ári. Mannvirkin byggja rafmagnsveiturnar, en varnarliðið greiðir þann kostnað aukalega.

Hér í þessari skýrslu rafmagnsveitustjóra er miðað við meðalverð og áhrif gengislækkananna talin fram að fullu án þess að hækkanir á rafmagnsverði á tímabilinu séu færðar til lækkunar. Því ber þessum tölum ekki saman við tölur Seðlabankans, en eins og hér hefur verið drepið á, koma inn í samanburðinn fyrir árið 1967 allar hækkanir launa og verðlags af öðrum orsökum en gengisbreytingunum. Sé tekið tillit til áhrifa þeirra á þær fjárhæðir í íslenzkum krónum, sem raunverulega eru greiddar af hendi á hverjum tíma, telur bókhalds– og endurskoðunardeild varnarliðsins, sem á náttúrlega að fara næst um þetta, að mismunurinn í heild til þessa sé við fljótlega athugun eftirfarandi: Vegna íslenzkra verktaka 848 þús. dollarar. Vegna íslenzkra starfsmanna hjá varnarliðinu 1.046.300 dollarar. Vegna raforkukaupa 28.700 dollarar og vegna þjónustu og vörusölu 59 þús. dollarar. Samanlagt telur varnarliðið því, að miðað við þær greiðslur, sem inntar hafa verið af hendi, sé þessi mismunur, þegar allt er lagt saman, 1 millj. 982 þús. dollarar.

Að endingu vil ég vekja athygli á því, að við mat á raunverulegum áhrifum gengisbreytinganna verður ekki komizt hjá að taka tillit til þess, að aðstaða varnarliðsins til framkvæmda og viðhalds mannvirkja hér hefur batnað og er þess þegar farið að gæta.

Þetta er það, sem ég tel að hægt sé að komast næst því, sem raunverulega hefur skeð út af þessum 2 gengislækkunum, sem hafa farið fram, en eins og tekið er fram í umsögnunum, eru sumar tölurnar bráðabirgðatölur og þess vegna verður að taka þær með fyrirvara.