20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

1. mál, fjárlög 1969

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 6. þm. Sunnl. að flytja brtt. við fjárl. Þessi brtt. var nú afhent hér síðari hluta dags í gær, en virðist vera nokkuð lengi á leiðinni gegnum prentsmiðjuna. Hún er enn ókomin. Efnislega er þessi till. þannig, að það er nýr liður í félagsmálabálkinum:

„Til sérstakra uppbóta á greiðslur úr lífeyristryggingum almannatrygginga og sjúkra- og slysadagpeninga samkv. nánari ákvörðun tryggingaráðs“ og upphæðin er 65 millj.

Þegar gengisfellingin var kunngerð hér í Alþ., var þess getið, að ríkisstj. ætlaði að sjá til þess, að til almannatrygginga kæmu 150 millj. Þetta hefur nú verið gert á þann hátt, að úr ríkissjóði koma 90 millj. Hinir tryggðu eiga að greiða 30 millj. og iðgjöldin að hækka, sem því nemur, og frá sveitarstjórnum og atvinnurekendum eiga síðan að koma einnig aðrar 30 millj. og heildarupphæðin þá 150 millj. Ekki er ljóst neitt um það, hvernig þessu verður jafnað niður á hina einstöku þætti trygginganna, en ef þessu væri deilt niður á lífeyristryggingarnar, mundi það hafa í för með sér um það bil 10–11 % hækkun á bótum frá því, sem nú er. Ef sú hækkun, sem nú gat um, 65 millj. kæmi til viðbótar á þessu ári, mundi hækkunin samtals verða eitthvað um 16–17%, ef sjúkra- og slysadagpeningar væru teknir með.

Það hefur verið upplýst, að kjaraskerðingin, sem gert er ráð fyrir, að verði vegna gengisfellingarinnar, muni nema a.m.k. 15–20%. Ég mundi telja, að hjá því fólki, sem hér um ræðir, þ.e.a.s. bótaþegum almannatrygginga, mundi þessi skerðing verða allmiklu meiri vegna þess, að það getur ekki varið fjármunum sínum í mikið annað heldur en brýnustu nauðsynjar, sem yfirleitt hækka æðimikið meira heldur en 15–20%. Það er auðvitað ekki gott að segja, hvað þetta yrði í heild, en örugglega mundi skerðingin verða hærri hjá þessum þegnum þjóðfélagsins. Ég held, að það sé óhætt að segja, að lágmarkshækkun á bótum, sem gera verður kröfu til, að verði á bótum frá almannatryggingum, sé sú, að ekki verði skerðing á kjörum þess fólks, sem býr við lífeyrisgreiðslur eða bótagreiðslur frá almannatryggingum, og stór hluti þess hefur sáralítið annað fyrir sig að leggja. Ég vænti þess vegna, að þessari till. verði vel tekið og hv. alþm. geti orðið okkur flm. sammála um það, að það sé alveg lágmark, að tryggingarnar hækki svona nokkurn veginn í samræmi við það, sem gert er ráð fyrir, að hin almenna kjaraskerðing verði, en það gera þær svona um það bil og ná áreiðanlega ekki því hærra marki, sem gert er ráð fyrir, með því að taka þessa upphæð til viðbótar nú á þessu ári.

Mönnum kann kannske að þykja þetta nokkuð há upphæð án þess að áætla tekjur á móti eða gera ráð fyrir einhverjum tekjum á móti, en ég vil aðeins segja í því sambandi, að frekar kysi ég halla á fjárl. en að þetta fólk vanhagi um brýnustu nauðsynjar, en það hlýtur það að gera, svo framarlega sem tryggingarnar verða ekki auknar frekar en gert er ráð fyrir í fjárl. eins og þau nú liggja fyrir.