14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í D-deild Alþingistíðinda. (4030)

289. mál, gjaldeyristekjur í sambandi við starfsemi varnarliðsins

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir hans greinargóðu svör, sem báru með sér, að hann hefur lagt sig mjög fram um að reyna að hafa þau eins tæmandi og hægt var á þessum tíma, en það kemur fram í hans svörum, að það hefur verið eða verða allverulegar upphæðir í gjaldeyri, sem hafa tapazt vegna þessarar starfsemi við þessar gengisbreytingar og það kom fram, að t.d. raforkuverðið er miðað við íslenzkar krónur, en ekki dollara, þannig að ef gjaldskráin hækkar ekki hér innanlands þá tapast það alveg og mér skilst, að það hljóti að vera fast að því helmingur, — ekki alveg, það hefur nú hækkað eitthvað síðan, — en fast að því helmingur, sem hefur tapazt á þessum tveimur gengisbreytingum. Upp í það kemur náttúrlega sú hækkun, sem hefur orðið og kann að verða á rafmagnsverðinu innanlands.

Ég ætla ekki að ræða þessi svör nema að litlu leyti, en það kom fram að ég held, að nú fyrir skömmu hafi amerískir starfsmenn á flugvellinum verið 195. Ég hef aflað mér upplýsinga um þetta og hef þær í mínum fórum. Eftir því sem ég kemst næst, voru þeir 30. marz 223, hvernig sem á þessu stendur. Þetta munar náttúrlega ekki miklu, munar um 28 menn. Og mér er tjáð, að helminginn af þessum mönnum eða rúmlega það mundu íslenzkir starfsmenn geta leyst af hólmi án þess að þjálfa þá sérstaklega til þess.

Ég er hér með reglugerð, sem var gefin út af yfirmanni varnarliðsins í október 1961, sem er í raun og veru ekki annað en útdráttur úr þeirri reglugerð, sem var sett fram 1954, og þar stendur, — ég ætla ekki að eyða tímanum í að lesa bessa reglugerð, — en þar stendur, að Íslendingar eigi að sitja fyrir störfum, ef þeir geta af starfskunnáttu farið í þau. Eins og atvinnuástandið er, finnst mér það og ég vil mælast til þess, að það verði mjög athugað.