14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í D-deild Alþingistíðinda. (4038)

292. mál, fuglafriðun

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í tilefni af þessari fsp. vil ég skýra frá því, að hvorki í menntmrn. né heldur í dómsmrn. liggja nokkrar kærur um brot á l. nr. 33/1966, um fuglaveiðar eða fuglafriðun. Hins vegar hefur ekki unnizt tími til þess að ganga úr skugga um, hvort um slíkar kærur er að ræða hjá lögreglustjórum landsins og þá fyrir hvaða brot eða hvers konar brot þær eru, en þeir eru að sjálfsögðu sá málsaðili, sem um slík brot á að fjalla á fyrsta stigi.

Ég hef í tilefni af þessari fsp. hv. þm. gert ráðstafanir til þess, að það verði kannað, hvort kærur liggi fyrir um slík brot eða hvort ástæða sé til þess að breyta þeirri tilhögun eftirlits með fuglafriðunarlögunum, sem framkvæmd hefur verið eða á að hafa verið fram að þessu. Mér virðist ýmislegt benda til þess, að hv. fyrirspyrjandi hafi rétt fyrir sér í því, að ástæða sé til þess að auka eftirlit með því, að þeim lögum, sem hann nefndi, l. um fuglaveiðar og fuglafriðun, sé rækilegar framfylgt, en átt hefur sér stað, fram að þessu.