14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í D-deild Alþingistíðinda. (4040)

292. mál, fuglafriðun

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að þakka fyrir það, að þetta mál skuli hafa verið tekið hér á dagskrá, að það skuli hafa verið bent á þetta. Þarna er ábyggilega mjög pottur brotinn. Ég vildi segja, að það, sem fyrst og fremst þyrfti að koma í þessum málum, sé aukin löggæzla, að það sé virkilega fylgzt með því, að lögin séu ekki brotin. En grunur minn er sá, að jafnvel löggjöfin sé ófullkomin — ekki kannske aðeins um fuglafriðun, heldur ekki síður um meðferð skotvopna. Ég vil taka það fram, að mér er þetta ekki vel kunnugt, hvað löggjöfin segir í þessu. En mér er hins vegar kunnugt um, að það er mjög mikið um óleyfilega og ósæmilega meðferð skotvopna um landið og við vitum, að það er engu eirt. Skotin eru vegaskilti og umferðarmerki og annað því um líkt og það er ábyggilega ekki of djúpt í árinni tekið, þó að sagt sé, að engu lífi sé eirt, þegar þessar skyttur fara um landið. Þetta getur heyrt undir fuglafriðun. Þetta getur líka heyrt undir náttúruvernd og reyndar mjög mikilvægt náttúruverndarmál. Ég hef t.d. heyrt þess getið, að nú, þegar opnaðar eru leiðir víðar um landið, eins og í Öræfasveit, þar sem hægt er að keyra á bíl eftir söndunum, þá fari skyttur þessar á bílum sínum og skjóti fugla og það hefur verið nefnt í mín eyru, að t.d. skúmurinn, sem kannske er nú ekki sérlega friðsamur fugl í sjálfu sér, sé þarna skotinn niður og ábyggilega á óleyfilegum tíma.

Ég held, að það sé full ástæða til þess að efla löggæzlu verulega og þá finnst mér, þar sem það er nú hér frá höfuð þéttbýlinu, sem flestir koma, þá væri það í verkahring lögreglu hér að fylgjast með því, að ekki sé farið með skotvopn óleyfilega út um landið. Þetta er á ákveðnum tímum og væri þess vegna hægt að fylgjast með því sérstaklega. Það er á vorin, þegar gæsirnar koma, þá fara skytturnar út og koma svo heim með feng sinn. Í öðru lagi er það á haustin, þegar rjúpnatíminn kemur, þá er mjög mikið um óleyfilegar veiðar, t.d. í óleyfi landeigenda. Og þetta er allt saman ómenningaratriði og ég vil leggja áherzlu á, að það er nauðsyn að auka hér löggæzlu og að athuga um, hvort ekki sé ástæða til að setja strangari ákvæði í lög um þetta efni.