14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í D-deild Alþingistíðinda. (4047)

293. mál, samningsréttur Bandalags háskólamanna

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka svörin og segi, að fsp. sé svarað, ekki skal klagað upp á það. Ég þakka ennfremur margt, sem þarna kom fram og ég veit, að aðilar BHM munu meta mjög mikils ýmislegt, sem kom fram hjá ráðh. í þessu svari. Hann sagði m.a., að það yrði ekki lengur gengið fram hjá BHM og í haust dregur til úrslita í þessum málum.

Ráðh. vék að því, að þetta væru vandamál og sagði, að nokkur vandamál mundu skapazt og vandræði, ef BHM yrði veittur samningsréttur. En ég vil aðeins benda á, að það er ekki víst, að fleiri vandamál skapist, heldur en þegar eru fyrir hendi og leysast. Ég vil benda á það, eins og reyndar ráðh. nefndi, að hér er um mjög mikilsverðan starfshóp í þjóðfélaginu að ræða. Ég vil benda á þau vandamál, sem hafa birzt í því, að mikið af hinum bezt menntuðu mönnum þjóðarinnar hafa ekki séð sér fært að vera hér og starfa. Það hefur verið gerð nokkur könnun á því, hve mikið er af menntamönnum, sem starfa erlendis. Ég vil aðeins minna á það, að 1966 þá virtust það vera 216, sem vitað var um, sem send voru bréf í sambandi við könnun þar um. Þar af voru 113 læknar, 65 verkfræðingar, 18 náttúrufræðingar, kennarar í íslenzkum fræðum 10 og aðrir starfshópar færri. Þetta er að vísu alls ekki sér íslenzkt vandamál, þetta sem hefur verið kallað þekkingar útstreymi eða atgervisflótti, það er mjög alþjóðlegt vandamál og er þannig, að þeir betur menntuðu fara frá þjóðfélögum, sem minni mátt hafa til að veita þeim aðstöðu til starfa og góð kjör, þannig að þetta út af fyrir sig er kannske ekki svo sterkt atriði til að dæma þetta, en samt er það mjög varhugavert.

En það eru fleiri innri vandamál, vildi ég segja. Það er t.d. alkunna um embættismenn, sem hafa vandasöm störf með höndum, að það bryddar á því. að þeir fá aukagetu, – að það er gert til þess að halda þeim í störfum. Þá koma fram ýmsar aukagreiðslur og jafnvel yfirvinna og ýmislegt fleira, sem ég hygg, að hæstv. fjmrh. muni vera vel kunnugt um og hann muni viðurkenna með mér, að sé virkilegt vandamál, eins og er.

Hann tók fram, að háskólamenn hefðu ekki verið mjög harðir í kröfum sínum og þá kannske ekki alveg án undantekninga. Ég hygg nú, að þar hafi hann kannske átt við tilfelli, þar sem hafa orðið hálfgerð mistök um og verið lagt skakkt út, ég á hér við læknadeiluna, en ég hygg, að það muni ekki vera að færast mjög mikil harka í þessi mál. En það getur þó ábyggilega orðið mjög alvarlegt fyrir þjóðfélagið. Það mætti spyrja, hvað skeði, ef ekki verður fundin viðunandi lausn á þessu núna, það er ekki gott að segja, hvað gerist, en það er mjög sennilegt, að æ fleiri háskólamenn muni leita úr landi og fá sér þar atvinnu og það er hætt við því, að þetta vandamál innan stofnana, þar sem ásókn er í yfirgreiðslur og annað því um líkt, að það fari vaxandi.

Ég vil ekki hafa þessi orð fleiri, en ég vil þakka ráðh. aftur fyrir svörin og vonast ég til þess, að þetta hafi orðið til þess að vekja athygli hv. alþm. á því að hér er um vandamál að ræða.