20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

1. mál, fjárlög 1969

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. var að andmæla till. okkar fjórmenninganna um heimild til lántöku til raforkuframkvæmda. Við viljum veita stjórninni heimild til að taka lán handa Rafmagnsveitum ríkisins, til þess að unnt sé að ljúka raflínulögnum um sveitirnar á þeim svæðum, þar sem meðallínulengd milli býla er allt að 2 km og þar sem enn vantar rafmagn. Hæstv. ráðh. mælir gegn þessu vegna þess, að þarna sé um að ræða lántöku til óarðbærra framkvæmda. Ég held, að það sé nú hæpið að telja það óarðbærar framkvæmdir að koma rafmagninu til fólksins, sem enn vantar þessi lífsnauðsynlegu þægindi nú á tímum. Og ég vil minna á það, að hæstv. ríkisstj. er alltaf og hefur alltaf verið að taka lán, ja, ekki eingöngu til óarðbærra framkvæmda, heldur bara til eyðslu. Það hefur verið haldið þannig á gjaldeyrismálunum, að það hefur verið stórhalli á viðskiptunum við önnur lönd og hann er jafnaður með lántökum. Þeir voru að taka nýlega 770 millj. að láni. Og þetta fer bara í að jafna þennan halla vegna óhóflegrar gjaldeyriseyðslu til óþarfra hluta, svo að þetta er ekkert stefnumál hjá hæstv. ríkisstj., að ekki skuli tekið lán til óarðbærra framkvæmda. Hún er alltaf að þessu og þess vegna tel ég, að það sé miklu skynsamlegra að veita þessa heimild og taka lán til þessara nauðsynjaframkvæmda, en draga eitthvað úr lántöku til annarra hluta, sem enga þýðingu hafa fyrir þjóðfélagið.