20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

1. mál, fjárlög 1969

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil nú þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessi síðustu orð, þessa yfirlýsingu. Það var nú hún fyrst og fremst, sem ég vildi fá. En ástæðan fyrir því, að ég flutti þetta, var fyrst og fremst ræða, sem hæstv. menntmrh. flutti hér í fyrradag. Og þótt hæstv. fjmrh. segði, að menntmrh. hefði aldrei dottið til hugar, að hægt væri að taka óskir eða allar rökstuddar óskir, haggast ekki þessi orð. Ég las þetta hér upp áðan úr ræðu hæstv. menntmrh., og það stendur óhaggað. En í sambandi við teikningarnar var alveg eins með Þelamerkurskólann og alla hina skólana, þeim var m.a.s. lokið fyrr úr Þelamerkurskólanum en úr hinum skólunum, sem er búið að taka inn á framkvæmdaáætlun, þannig að því er ekki hægt að bera við. Hins vegar ætla ég ekkert að fara að karpa um þetta. Ég er búinn að flytja þessa till., hún liggur hér fyrir og fer til atkvgr. á sínum tíma eins og annað.