17.02.1969
Efri deild: 44. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Kjaradeila sú, sem risið hefur milli sjómanna og útvegsmanna, hefur staðið í fullan mánuð, hafði staðið nær því mánaðartíma, þegar loks var samið við undirmenn, en þá náðist ekki samkomulag við yfirmenn á fiskiskipunum og sú deila stendur enn. Nú er komið fram frv. frá hæstv. ríkisstj. um að leysa þessa kjaradeilu milli yfirmanna á fiskiskipaflotanum og útvegsmanna með því að gera að lögum þá till. sáttasemjara, sem fram kom á sáttafundi 12. febr., en yfirmenn á fiskiskipaflotanum felldu við atkvæðagreiðslu þá næstu daga á eftir.

Það er enginn efi á því og dettur engum í hug að neita því, að það er mikil þörf á,og hefur raunar lengi verið, að þessi deila leystist. Margt er, sem veldur því og þarf ekki langt mál um að hafa. Deilan hefur þegar orðið íslenzku þjóðfélagi dýr, hún hefur að sjálfsögðu aukið mjög á atvinnuleysið, sem hér hefur verið geysilegt í vetur, hún hefur dregið verulega úr gjaldeyrisöflun og við hvorugu máttum við. En hvernig stendur á því, að þessi deila hefur dregizt svo mjög á langinn? Um það væri fróðlegt að fá nánari upplýsingar en fyrir liggja.

Ég skal ekki fara langt út í forsögu þessa máls, en þó verð ég að lýsa undrun minni yfir því, hvað þessi deila hefur í rauninni staðið lengi, miðað við ýmsar forsendur, og ég hygg, að það sé með öllu fráleitt, eins og reynt hefur verið sérstaklega nú síðustu dagana, að skella þar skuldinni á annan aðilann fyrst og fremst eða algerlega, þ.e.a.s. sjómennina og þá alveg sérstaklega yfirmenn á fiskiskipaflotanum. Ég get ekki sagt annað en það, að miðað við það, hversu miklu máli skiptir fyrir þjóðfélagið í heild, að þessi deila leystist fljótt og vel, þá hefur hæstv. ríkisstj. farið sér furðulega hægt að því að reyna að leysa málið, a.m.k. svo að opinberlega sé um það kunnugt. Á henni hefur þó hvílt rík skylda til þess að vinna að lausn þessa mikla vanda. Á henni hefur ekki aðeins hvílt rík skylda vegna þess, að nauðsynlegt var að halda framleiðslunni gangandi og bjarga vertíðinni til þess að draga úr atvinnuleysi til þess að auka útflutningsverðmæti. Þessi skylda var og er mjög brýn, eins og allir vita. En ríkisstj. bar hér í rauninni sérstök skylda til þess að vinna að lausn þessarar deilu vegna þess, hvernig kaupdeilan við sjómannastéttina var til komin.

Við stjórnarandstæðingar vöruðum við því á s.l. hausti, í nóvember- og desembermánuði, hvað af því kynni að hljótast, þegar sjómannakjörunum var mjög verulega raskað með lagasetningu frá Alþ. Sjómenn og útgerðarmenn höfðu lengi samið um hlutaskipti á hinum ýmsu veiðum, eins og kunnugt er, en núna fyrir áramótin voru þeir samningar ógiltir með l. og önnur hlutaskipti ákveðin sjómönnum mjög í óhag, en útgerðinni í hag. Um það skal ég ekkert dæma, hvort þeir samningar um hlutaskipti, sem giltu þangað til í des s.l. hafi að öllu leyti verið eðlilegir og réttlátir. Um það voru skiptar skoðanir, en hitt var alveg ljóst, að breyting þessara samninga með lögum hlaut að draga dilk á eftir sér. Það mundi ekki hjá því fara, að sjómannastéttin risi upp og gerði ákveðnar kröfur, þegar hennar hlutur var þannig með lögum lækkaður stórlega frá því, sem verið hafði. En þessum aðvörunarorðum var ekki sinnt, enda þótt fyrirsjáanleg væri kjaradeila, sem ómögulegt var að segja um, hversu erfið og vandleyst kynni að verða. En þegar kom fram í janúarmánuð og ljóst var, hverjar voru aðrar kröfur sjómanna, bæði undir- og yfirmanna, hygg ég, að margir hafi talið, að hér gæti tæplega orðið um mjög langa vinnustöðvun eða mjög erfiða kjaradeilu að ræða. Og ástæðurnar voru þær, að sjómenn, jafnt undir- sem yfirmenn, höfðu sett fram kröfur, þar sem meginkröfurnar voru það sanngjarnar og það lágar, liggur mér við að segja, að það virtist nánast útilokað annað en hægt yrði á þeim grundvelli, eða með tilliti til þessara meginkrafna, að semja á tiltölulega skömmum tíma og án þess að það væri mjög mikil viðbót fyrir útgerðina að taka á sig þær kvaðir.

Sjómenn fóru sem sagt ekki fram á það, að hlutaskiptunum yrði breytt í hið fyrra horf, eins og verið hafði áður en breyting var þar á gerð með lögum. Þeir sættu sig við það, sem orðið var í þeim efnum eftir atvikum, og því hafa vafalaust valdið ýmsar ástæður. m.a. sú, að æ fleiri fiskimenn hafa nú á síðustu misserum orðið að sætta sig við það, að það voru ekki hlutaskipti, sem tryggðu þeim í rauninni það kaup, sem þeir fengu, heldur yrðu þeir að sætta sig við lágmarkskauptrygginguna eina, þar sem hluturinn í ýmsum tilfellum náði ekki þeirri kauptryggingu. En nú voru kröfur sjómanna sem sagt ekki um óbreytt hlutaskipti eða hlutaskiptin gömlu, heldur voru meginkröfurnar tvær. Í fyrsta lagi, að þeir fengju fæðiskostnað greiddan af útgerðinni. Þar var um að ræða gamla kröfu og kröfu, sem er orðin að reglu víðast hvar eða jafnvel alls staðar í fandi, þar sem menn vinna fjarri heimilum sínum. Og þegar það kom einnig fljótlega í ljós, að sjómennirnir voru tilbúnir til þess að semja hér aðeins um hluta af fæðiskostnaði, virtist það nokkuð ljóst, að þarna átti að vera grundvöllur fyrir samkomulagi, og það raunar miklu fyrr en raun varð á. Niðurstaðan varð svo sú, að samningar tókust við undirmenn, og þeir eru í stuttu máli á þá lund, að af óskiptum afla er tekinn ákveðinn hluti, sem rennur í sérstakan sjóð, sem greiðir síðan hluta af fæðiskostnaði. Hin aðalkrafa bátasjómannanna var aðild að lífeyrissjóði, og það kom í rauninni fljótlega í ljós, þegar farið var að ræða þá kröfu, að fyrst og fremst lögðu sjómennirnir áherzlu á að fá slíka aðild viðurkennda í prinsippinu. Þeir gátu hugsað sér að semja um, að þetta mál kæmi til framkvæmda í áföngum, eins og varð niðurstaðan í þeim samningum við undirmenn, sem gerðir voru fyrir fáum dögum. Það var þess vegna heldur ótrúlegt, að lífeyrissjóðsmálið í því formi, sem það var rætt á samningafundum, hefði þurft að valda eins tilfinnanlegri og langvarandi deilu og raun varð á, því að í sambandi við það er þess að geta, eins og alkunnugt er, að æ fleiri starfsstéttir hafa öðlazt slík réttindi á undanförnum árum, og að undanförnu hefur það verið rætt mikið, og jafnvel undirbúið af hálfu hins opinbera, að setja löggjöf um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Að vísu veit maður ekki, hver endir kann á slíku að verða, en þetta er þó stefnuatriði, sem þegar má segja, að hafi verið tekið upp af hálfu þings og ríkisstj. að stefna bæri að því, að allir landsmenn geti orðið aðilar að lífeyrissjóði.

Ég vil því segja, að miðað við þessar aðalkröfur sjómanna gegnir það í rauninni furðu, hversu langvinnt og erfitt úrlausnar þetta verkfall hefur orðið. Og ég verð að segja, að það hefur ekki borið, a.m.k. opinberlega. mikið á frumkvæði hæstv. ríkisstj. að því er varðar möguleika á að leysa þessa deilu.

Ýmsir eru þeirrar skoðunar, að tregða útvegsmanna við það að ganga til samninga um tiltölulega einföld atriði hafi ekki sízt stafað af því, að þeir gerðu sér vonir um að ríkisstj. skærist í þessa deilu með því að setja lög um málið. Þetta hefur hæstv. ríkisstj. nú ekki gert fram að þessu og virðist svo, sem hún hafi ekki talið æskilegt eða rétt að setja slíka löggjöf meðan deilan stóð við undirmennina, milli útvegsmanna og undirmanna á skipunum, en hins vegar telji hún nú rétt og nauðsynlegt að setja slíka löggjöf, þegar deilan stendur einungis við yfirmennina. Nú skal ég sízt draga úr því, að það er fyrir löngu orðin full þörf á, að þessi erfiða og ákaflega dýra deila leysist. En ég vil spyrja, er það svo mikið, sem í raun og veru ber á milli, að þetta sé eini möguleikinn til þess að leysa deiluna, að setja þar um löggjöf? Mér er tjáð, ég get ekki fullyrt, hvort rétt sé, að í rauninni sé um smámuni að ræða til þess að gera. Það sé e.t.v. um 500 kr. viðbótartryggingu að ræða til þess að hægt hefði verið að leysa þessa deilu og hægt væri jafnvel í dag að leysa þessa deilu. Ég veit ekki, hvort þetta er rétt, en ég hygg, að það sé ekki um stórar fjárhæðir að ræða. heldur tiltölulega litlar. Og sé það rétt, tel ég, að það sé óneitanlega viðurhlutamikið fyrir Alþ. að taka samningsrétt af aðilum án þess að hafa kynnt sér þessi mál, án þess að hafa kynnt sér forsendurnar og þá möguleika, sem kunna að vera til þess að leysa deiluna án þess að til lagasetningar komi. Nú skal ég ekki, þar sem ég er þessu máli allt of lítið kunnur, ekki fjölyrða um möguleika á þessu. Hæstv. sjútvmrh. hefur gert till. um, að þetta mál fari til sjútvn. Nú teldi ég það í hæsta máta eðlileg vinnubrögð, og ætti ekki að þurfa að tefja lausn þessarar deilu neitt, að sú n., sem fær málið til meðferðar, kalli fulltrúa deiluaðila á sinn fund og hún kanni, hvað raunverulega ber á milli, að hún athugi, eftir því sem hún hefur föng til á stuttum tíma, hvort möguleikar væru á því á síðustu stundu að leysa þetta mál án lögbindingar, hvort e.t.v. væru möguleikar á því, að Alþ. kysi sáttanefnd til þess að vinna að lausn málsins með sáttasemjara. Ég varpa þessu fram til athugunar fyrir þá n., sem fær málið til meðferðar, því að sé svo, að sáralítið beri á milli, er þeim mun meiri ástæða til þess að reyna að leysa þetta mál án lögbindingar, sé þess nokkur kostur.

Eins og fram kom í ræðu hv. 6. þm. Sunnl., felst í því frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt hér fram, að lögbinda þá sáttatill., sem fram kom hjá sáttasemjara 12. febr. s.l., en. það er sú till., sem yfirmenn hafa fellt með allmiklum mun atkv., en útvegsmenn hafa hins vegar samþ. með mjög verulegum atkvæðamun. Það er því ljóst, að með frv., eins og það nú liggur fyrir, er tekin alger afstaða með þeirri till., sem útgerðarmenn höfðu samþ., en yfirmenn á fiskiskipaflotanum höfðu fellt.

Þetta tel ég út af fyrir sig á engan hátt eðlilegt að standa þannig að málum, en hitt hefði þá verið miklu eðlilegra að fara þarna einhverja millileið eða, líkt og hv. 6. þm. Sunnl. benti á, taka upp nánast þá till., sem virtist næst því að fullnægja báðum aðilum eða báðir aðilar virtust geta nokkurn veginn sætt sig við.

Ég vil að lokum segja þetta. Það er alveg hárrétt, að fyrir íslenzkt efnahagslíf er það brýn nauðsyn að leysa þessa deilu, og hefði raunar átt að vera búið að leysa hana fyrr en nú, en ég tel, að lögþvingun sé ekki rétta leiðin. Ef nokkrir aðrir möguleikar eru fyrir hendi, þá er ekki rétt af Alþ. að fara út á þá braut, það er prinsipatriði. Ég tel, að það sé mjög háskalegt, ef farið er út á þessa braut, og það eigi ekki að gera, svo framarlega sem nokkrir aðrir möguleikar eru til.

Ég hef látið í ljós þá skoðun eða tel mig hafa fregnir um það, að í þessari deilu beri ekki meira á milli en það, að það ætti að vera hægt, jafnvel nú á elleftu stundu, að leysa hana eftir öðrum leiðum en lögþvingunarleiðinni. Ég býst raunar við, að ef útgerðarmenn eða þeir, sem þar hafa ráðið ferðinni, hefðu ekki treyst því, að hæstv. ríkisstj. skærist í leikinn, væri búið að leysa þessa deilu, en það hafi einmitt verið traust þeirra eða trú þeirra á það, að hæstv. ríkisstj. mundi koma á sínum tíma og setja löggjöf um málið, sem hefur valdið því, að þessi deila hefur orðið langvinnari og torleystari en í rauninni tilefni virtist vera til af hálfu þeirra, sem þarna deildu um kaup og kjör.

Ég vil að síðustu vara mjög við því, sem mér virðist hafa verið nokkuð áberandi núna allra síðustu dagana og raunar kynt undir í málgögnum hæstv. ríkisstj., en það er að skella allri skuldinni af þessari kjaradeilu, eins og hún nú er orðin, á yfirmenn á fiskiskipaflotanum, það sé vegna þrjózku og þrákelkni þeirra eingöngu, að þessi deila sé ekki leyst. Það er vafalaust, að þessi kenning fær einhvern byr vegna þess, að allir vilja, að þetta verkfall leysist sem allra fyrst. En ég held, að það sé ekki rétt og ekki viturlegt að leggja málin þannig fyrir að kenna yfirmönnum á skipaflotanum eingöngu um, að ekki hafa tekizt samningar í þessu máli. Þessi stétt manna, yfirmenn á íslenzka fiskiskipaflotanum, eru engir vandræðamenn, síður en svo. Þetta eru menn, sem íslenzkt þjóðfélag stendur í mikilli þakkarskuld við fyrir þeirra framlag fyrr og síðar til íslenzka þjóðarbúsins. Þetta eru mætir og mikilhæfir menn, sem eru okkur íslendingum einhver mikilvægasta þjóðfélagsstéttin, hvernig sem á er litið, og við megum einna sízt við að beita þvingunum eða rangindum á nokkurn hátt. Ég vil þess vegna algerlega mótmæla þeirri kenningu, sem verið er að halda að mönnum nú, að það sé eingöngu um þrákelkni þessara manna að ræða, að ekki hefur verið samið. Ég tel, að þar sé ekki rétt með mál farið og þeir hafi ekki gefið tilefni til þess að mál væru þannig lögð fyrir. En með því að taka hér upp í þetta frv. þá miðlunartill., sem yfirmennirnir voru búnir að fella, en útvegsmenn voru búnir að samþykkja, þá er í rauninni óbeint tekið undir þetta og það tel ég algerlega óeðlilegt og hefði, eins og ég áðan sagði, verið eðlilegra, að hæstv. ríkisstj. hefði þá komið fram með aðra till., sem mátti segja, að færi nær því, sem samkomulag virtist geta orðið um. En að síðustu vil ég segja þetta. Ég tel, að enn sé ástæða til þess að reyna til þrautar samningaleiðina, og ég vil vara við því að fara lögþvingunarleiðina, ef nokkur önnur leið er fær.