17.02.1969
Efri deild: 44. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Í sambandi við þetta mál væri að sjálfsögðu full ástæða til þess að ræða atvinnumálin og kjarasamningamálin almennt. Það mun ég þó ekki gera, þar sem hæstv. ríkisstj. hefur sérstaklega óskað eftir, að afgreiðslu þessa máls væri hraðað, og hún hins vegar hefur lýst því yfir, að almennar umr. um atvinnumál yrðu látnar fara fram hér á Alþingi nú í vikunni eða n.k. fimmtudag. Ég kemst þó ekki hjá því að víkja aðeins nokkuð að þessum málum.

Það væri auðvitað ástæða til þess í sambandi við þetta mál að rifja upp stefnu og sögu hæstv. ríkisstj. í kjarasamningamálum. Tímans vegna get ég þó ekki farið út í það nema að örlitlu leyti. Ég ætla þó aðeins að minna á það, að í öndverðu lýsti þessi hæstv. ríkisstj. því yfir, að hún ætlaði ekki að hafa afskipti af kaupgjaldsmálum og kjarasamningum. Þeim málum ætti að skipa með frjálsum samningum atvinnurekenda og launþega.

Frá þessari stefnu hefur ríkisstj. hvað eftir annað vikið og gripið inn í kjaradeilur með lagasetningu, og hún hefur gert það oftar en nokkur önnur ríkisstj. hér á landi. Það segir að sjálfsögðu sína sögu og ber því vitni, hver ókyrrð hefur oft og tíðum verið ríkjandi á vinnumarkaði í tíð þessarar ríkisstj. Ég ætla aðeins að rifja það upp með örfáum orðum, hvenær og við hvaða tækifæri ríkisstj. hefur gripið inn í kjaradeilur með lagasetningum, og raunar oftast nær með brbl.

Þar er fyrst að nefna brbl. nr. 84 frá 1962 til lausnar síldveiðideilunni sumarið 1962. Í þeim 1. var svo fyrir mælt, að kaup og kjör síldveiðisjómanna skyldu ákveðin með gerðardómi. Næst er að nefna brbl. nr. 64 frá 1963 um lausn kjaradeilu verkfræðinga. Þar var líka kveðið svo á, að gerðardómur skyldi ákveða kaup og kjör verkfræðinga og setja gjaldskrá. Þessi brbl. voru sett í tilefni af verkfalli stéttarfélags verkfræðinga, og í þeim voru jafnframt verkföll bönnuð. Þá má nefna lög nr. 18 frá 1965, um lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna. Þau lög bönnuðu verkfall, sem atvinnuflugmenn höfðu boðað til, og ákveðið var, að kjörin skyldu ákveðin af gerðardómi, og verkföll til þess að knýja fram aðra skipun voru í þessum lögum bönnuð. Næst er að nefna brbl. nr. 79 frá 1966, um lausn deilu framreiðslumanna og veitingamanna. Þessi lög mæltu svo fyrir, að gerðardómur skyldi skipaður, og hann ætti að ákveða kaup og kjör faglærðra framreiðslumanna og barmanna í veitingahúsum, en verkfall hafði staðið yfir um vikutíma, þegar þessi brbl. voru sett. Í þessum lögum voru einnig verkföll bönnuð, þ. á m. samúðarverkföll.

Enn má nefna brbl. nr. 63 1967 um lausn deilu stýrimanna, vélstjóra og loftskeytamanna á íslenzkum farskipum og eigenda íslenzkra farskipa. Þessi lög áttu að gilda þangað til nýr samningur tækist um önnur kjör. Enn fremur má geta þess, að í nokkrum tilfellum hefur verið um það að ræða, að gripið hefur verið inn í kjaradeilu með þeim hætti, að kjarasamningar hafa verið framlengdir. Slíkt átti sér t.d. stað með 1. nr. 85 frá 1961, þar sem kveðið var á um framlengingu samninga á milli læknafélaga og sjúkrasamlaga, og sama máli gegndi um brbl. nr. 51 frá 10. maí 1967, um framlengingu á kjarasamningi á milli Apótekarafélags Íslands og Lyfjafræðingafélags Íslands.

Það eru þannig orðin æðimörg lögin, sem hafa gripið inn í kjaradeilu í tíð núv. ríkisstj. þrátt fyrir það fyrirheit, sem hún gaf í öndverðu um það, að hún ætlaði ekki að blanda sér í þessi mál, heldur láta atvinnurekendur og launþega um það að semja um kaup, án atbeina lagasetningarvaldsins. Og það er vissulega dálítið einkennilegt, að það skuli vera og hafa orðið hlutverk Alþýðuflokksins að standa að setningu allra þessara laga um lögbindingu kaups með einum eða öðrum hætti, vegna þess að í þeim örfáu tilfellum, þar sem gripið hafði áður verið til gerðardóms hér á landi í kaupdeilum, hafði Alþfl. verið því mjög andvígur og hann var því svo andvígur árið 1938, að þegar lög voru sett um ágreining þann, sem þá var á milli útgerðarmanna botnvörpuskipa og sjómanna um kaup og kjör og það var ákveðið, að sá ágreiningur skyldi lagður í gerð, þá dró Alþfl. ráðh. sinn út úr þeirri ríkisstj. Hið sama skeði svo árið 1942, þegar sett voru l. nr. 1 frá 1942 um gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum. Þá dró Alþfl. líka sinn ráðh. út úr þeirri ríkisstj. Það má þess vegna segja, að saga og viðhorf þeirra Harald, Guðmundssonar og Stefáns Jóh. Stefánssonar sé nokkuð annars konar en núv. hæstv. sjútvmrh., Eggerts G. Þorsteinssonar, sem hefur það hlutverk hér nú að mæla fyrir setningu þessara laga og beita sér fyrir þeim.

Ég ætla ekki hér að fara að orðlengja um þá vinnudeilu, sem hér hefur staðið að undanförnu, og sjómannaverkfall það, sem hér hefur staðið yfir um mánaðartíma. En ég rifja það þó upp og undirstrika það, sem kom fram í ræðu hv. 5. þm. Reykn., sem talaði hér næstur á undan mér, að tilefni til þess verkfalls má alveg óefað að verulegu leyti rekja til þeirrar lagasetningar, sem átti sér stað hér fyrir áramótin, sem sé löggjafarinnar um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, þar sem horfið var að því ráði að grípa enn sinu sinni inn í samninga um kaup og kjör og breyta þeim með lagaboði, þar sem um það var í reyndinni að ræða vegna þess, að þau lög breyttu raunverulega hlutakjarasamningum, sem gilt höfðu. Ég segi eins og hv. síðasti ræðumaður, að ég ætla engan dóm að leggja á það og hef aldrei lagt neinn dóm á það, hvort þau hlutaskiptakjör voru eðlileg og sanngjörn eða ekki, en það hafði verið gerður samningur um þau, fullkomlega gildur samningur. Undir þann samning höfðu útgerðarmenn skrifað. Við þann samning áttu þeir að standa, þangað til hann féll úr gildi með eðlilegum hætti, og um ný hlutaskiptakjör átti að semja, þegar sá samningur var úr gildi genginn, en löggjafinn átti ekki að grípa inn í með þeim hætti, sem gert var. Við aðvöruðum, eins og sagt var hér áðan, gegn því að hverfa að þessari leið. Við spáðum því, að það mundi draga dilk á eftir sér, og það hefur sannazt. Það var auðvitað auðséð, að slíkt mundi leiða til deilu. En ríkisstj. og stuðningsmenn hennar skelltu skollaeyrum við þessum aðvörunum okkar. Það má að sjálfsögðu segja, að úr því, sem komið er, hafi það litla þýðingu að vera að rifja þessa sögu upp. Samt sem áður er það svo, að hún má ekki gleymast. Hún má gjarnan verða víti til varnaðar, en auðvitað verður að horfast í augu við það, sem orðið er, og hvað sem tilefninu og ástæðunni til þessarar deilu og til þessa verkfalls, sem hér hefur verið háð, líður, þá er verkfallið staðreynd, sem verður að horfast í augu við og verkfallið verður að leysa. Um það eru í rauninni allir sammála vegna þess, að þjóðin hefur ekki efni á því, að því sé haldið áfram.

Hér er enn einu sinni farið inn á þá braut að grípa inn í deilu með lagasetningu. Hér er það lagt til, að lögfest verði miðlunartill. sú, sem sáttasemjari ríkisins í vinnudeilum hefur lagt fram og atkvgr. hefur farið fram um. Hér er ekki lagt til, eins og svo oft áður, að mál þessi séu útkljáð með gerðardómi, heldur er hér farið inn á nýja leið, sem ég veit satt að segja ekki til, að eigi sér fordæmi hér á landi, þó að hún sé þekkt annars staðar frá, að lögfesta miðlunartill. sáttasemjara. Og að sjálfsögðu má segja það, að það sé nokkur blæmunur á þessu tvennu að setja lög um gerðardóm og lögfesta miðlunartill. sáttasemjara, þar sem þá hefur þó þegur verið gengið um þau stig, sem gert er ráð fyrir í vinnulöggjöfinni, sáttatilraunir reyndar með lögboðnum hætti og sáttasemjari lagt fram sína miðlunartill. og borið hana undir atkvgr. Þetta er að vísu nokkuð annað í mínum augum heldur en þegar gripið er inn í kjaradeilu, áður en farið hefur verið með þessum hætti að lögum.

En auðvitað vaknar sú spurning, hvort það hefði ekki verið hægt að leysa þessa deilu með frjálsum samningum. Það er satt, að það hefur þegar tekizt að leysa meginhluta deilunnar að því leyti, að samningar hafa tekizt við bátasjómennina, enda þótt samningar hafi nú ekki tekizt enn við yfirmenn. En ég hef áður látið í ljós þá skoðun, að mér þætti furðu gegna. hvað samningar um þessi efni drægjust á langinn, og ég get gert það enn. Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram og m.a. kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, 5. þm. Reykn. að þær kröfur sem gerðar voru af sjómanna hálfu í þessu máli, virðast manni eftir atvikum hafa verið mjög sanngjarnar, vegna þess, að þar var farið fram á, ef maður lítur aðeins á höfuðkröfurnar, fæðiskostnað. sem menn yfirleitt munu nú fá greiddan ef þeir vinna utan síns heimilis, og í annan stað var farið fram á stofnun lífeyrissjóðs í áföngum, stofnun lífeyrissjóðs, sem sjómenn á öðrum skipum, eins og togurum og farskipum, þegar hafa, og stofnun lífeyrissjóðs, sem á samkv. yfirlýsingum, sem þar um hafa verið gefnar hér á Alþ., að stofna fyrir alla landsmenn innan tíðar. Og ég geri ráð fyrir því, að það verði staðið við þær yfirlýsingar og þá ætla ég, að sú löggjöf ætti að vera komin á og til framkvæmda á svipuðum tíma og ákvæðin um lífeyrissjóð sjómanna verða komin til framkvæmda að öllu leyti. Svo að í sjálfu sér er ekki þarna um mikið að ræða.

Ég skal ekki segja um það, hverjar kröfur yfirmannanna hafa verið. Þær kunna að hafa verið aðrar og meiri. En eftir stendur það, sem hæstv. sjútvmrh. sagði hér áðan, að það væru aðeins smámunir. sem á milli bar. Og það var nefnd tala áðan af síðasta ræðumanni í því sambandi 500 eða 600 kr. á mánuði. Sé það nú svo, að þetta verði að hafa fyrir satt og því er yfirlýst, eins og ég sagði, af hæstv. ráðh., að hér sé aðeins um smámuni að ræða, þá hljóta menn að spyrja. Hvers vegna í ósköpunum er ekki um þetta samið og þetta leyst með samningum? Það er hér um smámuni að ræða, en annars vegar stendur þjóðarbúið á heljarþröm vegna þess, að ekki er samið og samningar ekki takast. Hvers vegna eru þessir smámunir látnir standa í veginum? Ég held, að það væri ástæða til þess, að hæstv. sjútvmrh. gerði nánari grein fyrir því, hverjir þessir smámunir væru og hvernig á því standi, að ekki skuli hafa verið hægt að komast að einhverri málamiðlun um þá smámuni, þegar jafnstórkostlegir hagsmunir eru í húfi annars vegar og hér. Því að auðvitað er það öllum ljóst, að hér eru stórkostlegir hagsmunir í húfi. Afkoma þjóðarbúsins er auðvitað undir því komin, að bátaflotinn komist af stað. Það er öllum ljóst, að hér er ríkjandi fullkomið vandræðaástand í landinu, og það hefur verið ríkjandi frá áramótum, sívaxandi atvinnuleysi, stórkostlegt atvinnuleysi, stórkostlegra en hér hefur þekkzt um áratugi. Það var þó sagt, þegar gengið var fellt fyrir áramótin, að það mundi hleypa nýju blóði í útflutningsatvinnuvegina, gengislækkunin mundi láta hjól þeirra snúast ásamt þeim ráðstöfunum, sem gerðar yrðu þar jafnframt, og atvinnuástandið átti að vera sæmilega tryggt. Hæstv. sjútvmrh., sem nú mælir fyrir þessu frv. hér og gerist oddviti í því að koma því fram, mætti á fundi hjá útgerðarmönnum, Landssambandi ísl. útvegsmanna, nokkru fyrir áramót og í Alþýðublaðinu 7. desember var sú ræða, sem hann flutti á því þingi, allrækilega reifuð. Þá lét hæstv. sjútvmrh. m.a. þau orð falla, sem ég vildi mega lesa upp, með leyfi forseta, en þar var hæstv. sjútvmrh. að gera grein fyrir þeim lagafrv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, sem ríkisstj. hugðist þá leggja fram eða hafði lagt fram á Alþ.:

„Með þeim lagafrumvörpum, sem ríkisstj. hefur nú lagt fyrir Alþingi um öruggari rekstrargrundvöll íslenzks sjávarútvegs, er gerð tilraun til að tryggja sem mesta atvinnu.“

Sú tilraun hefur nú ekki tekizt. Þar tala staðreyndirnar skýru máli, því að atvinnuleysið hefur aldrei verið meira en eftir þetta. En hæstv. sjútvmrh. fylgdi þessum orðum sínum eftir og bætti við:

„Takist þetta ekki, mun verða nauðsynlegt að efna til nýrra alþingiskosninga og láta á það reyna, hvort fyrir hendi er þingræðislegur meiri hluti fyrir þeirri stefnu, sem haldið hefur verið, eða nýrri stefnu.“

Ýmsum þykir nú fullreynt, að það hafi ekki tekizt, sem hæstv. sjútvmrh. var að tala um, en enn hefur nú ekki verið efnt til nýrra kosninga og kannað, hvort þingræðislegur meiri hluti er fyrir hendi við þá stefnu, sem fylgt hefur verið að undanförnu og fylgt er enn. En væntanlega verður það nú gert á næstunni, eða a.m.k. þykir mér ólíklegt, að hæstv. sjútvmrh. muni öllu lengur sitja í þeirri stjórn, sem ekki hefur getað efnt betur þær fyrirætlanir, sem honum voru efst í huga á þessum desemberfundi í Landssambandi ísl. útvegsmanna.

Hæstv. sjútvmrh. sagði hér áðan í sinni framsöguræðu, að meginástæðan til atvinnuleysis væri sjómannaverkfallið, og sums staðar væri það raunar eina ástæðan. Það er auðvitað laukrétt, að sjómannaverkfallið á geysimikinn þátt í því atvinnuleysi, sem hér hefur verið, en því er miður, að það er langt frá því að vera eina ástæðan. Og þó að þetta sjómannaverkfall leysist, skulu menn varast að gera sér gyllivonir um það, að allt atvinnuleysi verði þar með úr sögunni. Enda hefur nú hæstv. ríkisstj. orðið að viðurkenna það í þeim samningum, sem hún hefur gert við verkalýðsfélögin, þar sem hún hefur sett á fót sérstakar n. til þess að fjalla um þessi mál, fylgjast með þeim, kanna þau og gera till. um þau og heitið því að verja ákveðinni upphæð, sem einhvern tíma hefði að vísu þótt dálaglegur skildingur, en er nú kannske ekki orðinn svo sérlega stór, til þess að efla atvinnu. Ég efast nú ekki um, að það muni miklu meira þurfa til að koma. En út í það ætla ég sem sagt ekki að fara að þessu sinni, ég geymi mér það til þess tíma, þegar rætt verður almennt um atvinnuástandið og atvinnumálin.

Eins og ég hef þegar sagt, er ég mjög forviða á því, að þessi deila, sem hér er um að tefla, skuli ekki hafa verið leyst með frjálsum samningum. Náttúrlega er hér ekki ástæða til þess, og ég ætla ekki að fara að ræða sérstaklega um þann hátt, sem á er hafður um sáttaumleitanir í vinnudeilum, en óneitanlega hlýtur það að hvarfla að manni í sambandi við svona mál, hvort þeir starfshættir og þau vinnubrögð, sem þar eru viðhöfð, séu ekki orðin nokkuð stöðnuð og úrelt og hvort það þurfi ekki að fara að taka að einhverju leyti þar upp nýja starfshætti. Það er mjög einkennilegt, að svona hlutir skuli geta gerzt. Og það er í sjálfu sér einkennilegt, að það skuli ekki hafa verið leitað fleiri úrræða til þess að leysa þessa deilu með sáttum. Það hefði t.d. ekki verið úr vegi, að það hefði verið skipuð sérstök sáttan. til þess að leita eftir sáttum í þessari deilu. Og það hefði ekki verið úr vegi, að það hefði verið leitað til stjórnmálaflokkanna um að nefna menn í þá n. Því hefur verið lýst yfir, a.m.k. af hálfu Framsfl., að hann væri reiðubúinn að leggja sitt lið til lausnar þessari deilu, en til hans hefur ekki verið leitað og við hann hefur ekkert verið talað. Það eina, sem hefur heyrzt, eru hin einkennilegu skrif stjórnarblaðanna og þó alveg sérstaklega Morgunblaðsins, sem er þar alveg í sérflokki og hefur haldið því fram, að manni virðist, að það væru stjórnarandstæðingar, sem stæðu helzt í vegi fyrir sáttum í þessari vinnudeilu. Það hefði verið ráð af stjórnarinnar hálfu að láta reyna á það og kveðja stjórnarandstæðinga einnig til þess að taka þátt í þessum sáttaumleitunum. En það hefur ekki verið gert. Heldur hefur því dag eftir dag verið haldið fram í Morgunblaðinu, að það væru kommúnistar, eins og þeir segja, og framsóknarmenn, sem berðust eins og ljón gegn sáttum, og það hefur lagzt svo lágt, þetta málgagn, sem vill láta kalla sig hið heiðarlega fréttablað, að tilgreina tvo hv. þm., sem hafi verið hér á ákveðnum tíma í þinghúsinu, sem vinni gegn því, að sættir tækjust. Og svo þegar þessir tveir hv. þm. hafa borið af sér sakir og hrakið algerlega þessi ósannindi, þá hefur Morgunblaðið, hið heiðarlega fréttablað, sagt þannig frá því, a.m.k. að því er annan þeirra snertir, að hann hafi verið staðinn að verki. Ég held, að þarna sé að finna íslenzkt met síðari tíma í fréttaflutningi, en aðalatriðið er, að það hefur sem sagt ekki verið leitað neinna nýrra ráða til þess að leysa deiluna, sem þó hefði verið fullkomin ástæða til.

Það má hins vegar segja, að það hafi að öllu leyti verið farið eftir vinnulöggjöfinni í þessu efni. Sáttasemjari hefur reynt að koma sáttum á, hann hefur lagt sína miðlunartill. fram og hún hefur verið borin undir atkv. Henni hefur verið hafnað, að vísu þó á þann veg, að allmargir hafa léð henni já-atkv. og í annan stað er það rétt, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að undarlega margir virðast hafa leitt þessi mál hjá sér og ekki mætt til atkvgr. eða tekið þátt í henni, en það verður þó að segja, að það ætti að vera lágmarkskrafa, sem gerð er til þessara manna, er þeir eiga í deilu, að þeir taki þátt í atkvgr., sem fram fer um miðlunartill. Og það er náttúrlega fullkomin ástæða fyrir þá aðila, sem hér eiga hlut að máli, að taka það til athugunar, hvernig þessum málum er komið að því leyti til.

En samkomulag hefur sem sagt ekki náðst og verkfallið stendur. Samkomulag hefur að vísu náðst, eins og ég hef þegar sagt, við bátasjómennina, en það stendur á yfirmönnunum. Það stendur á því, að samkomulag náist á milli útgerðarmanna og yfirmanna á bátaflotanum.

Það þarf náttúrlega ekkert að fjölyrða um það, hvílíkt vandræðaástand þetta er og hvílíkur voði þjóðarbúinu er búinn af því, að þetta verkfall standi áfram. og þess vegna hljóta allir að leggjast á eitt um það að reyna að leysa þetta og vilja leysa þetta verkfall og þessa deilu. Þegar tillit er tekið til þess, hvernig málin standa nú að því leyti til, að þessi miðlunartill. hefur þó verið lögð fram og henni hafa greitt allmargir atkv., allmargir setið hjá og samningar þegar tekizt við meginþorra þeirra, sem í þessari deilu hafa átt, en þó allra helzt, þegar tillit er tekið til þeirra hagsmuna, sem hér eru í húfi fyrir þjóðfélagið og nauðsyn þess, að þessi deila leysist, munum við framsóknarmenn ekki standa í vegi fyrir því, að þetta frv. nái fram að ganga.

Við munum hins vegar ekki greiða þessu frv. atkv. Við álítum, að þetta vandamál, sem hér er um að tefla. sé aðeins liður í miklu stærra vandamáli, sem þyrfti að taka til meðferðar í heild, vandamáli, sem við teljum stjórnina að miklu leyti bera ábyrgð á og við teljum þess vegna eðlilegt, að hún beri ábyrgð á þessu máli og á þessari lagasetningu. Við teljum, eins og reyndar hefur komið þegar fram í því, sem ég hef sagt, að þó að þetta mál leysist, séu mörg önnur vandamál enn eftir óleyst og með þessu máli og afgreiðslu þess verði aðeins um stundarfrið að ræða. Við álítum, að það hefði þurft að líta á mál þessi öll frá víðari sjónarhól en hér hefur verið gert, og þar við bætist svo það, að það er stefna Framsfl., að kjaramál séu leyst með frjálsum samningum. Við teljum, að þær samningatilraunir, sem átt hafa sér stað í þessari deilu, hafi af einhverjum ástæðum ekki farið þannig úr hendi, sem átt hefði að vera. Og við teljum, að ef rétt hefði verið á haldið, hefði verið hægt að koma samningum á. Þess vegna viljum við ekki standa að þessari lagasetningu á þann veg að greiða henni atkv., en við viljum heldur ekki standa í vegi fyrir því, að endir sé bundinn á þessa deilu. Auðvitað er það svo, að þó við séum að meginstefnu til andvígir því að gripið sé inn í kjaradeilu með lagasetningu, þá getur það ástand skapazt, að það sé alveg óhjákvæmilegt neyðarúrræði, og vissulega má segja, að það ástand sem nú er, sé hreint neyðarástand, enda þótt það sé skoðun okkar, að til þess hefði aldrei þurft að koma, ef rétt hefði verið á haldið. Enn fremur kemur það til, að það hefur ekki, eins og ég áðan sagði, verið leitað til okkar í þessum samningum á nokkurn hátt. Við höfum þess vegna ekki átt þess neinn kost að fylgjast með í þessu máli, og við höfum ekki átt þess neinn kost að kynna okkur þá málamiðlunartill., sem hér er lagt til að lögfest sé, en hún er, eins og hv. þm. bezt mega vita og sjá af því þskj., sem fyrir liggur, alllöng og flókin. Þegar litið er til þess, þá viljum við alls ekki taka ábyrgð á henni með því að samþykkja hana.