17.02.1969
Efri deild: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Frsm. meiri hl. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Eins og fram kom við l. umr. þessa máls í dag er verkfallsmálið komið í þá sjálfheldu. að nauðsyn er að skera á hnútinn og gera ráðstafanir til þess, að bátaflotinn geti haldið úr höfn. Mér fannst rök allra ræðumannanna við I. umr. málsins hníga að því, að nauðsynin væri brýn, þó að allir væru ekki á einu máli um það, hvernig bæri að leysa vandann. Hv. 5. þm. Reykn. fannst mér einna helzt vilja reyna nýjar sáttaumleitanir. jafnvel að sjútvn., sem fékk málið til meðferðar, reyndi að ræða það við deiluaðila, kalla þá á sinn fund. Sannast að segja hygg ég, að það hefði aðeins orðið til að tefja málið, um það hafa á fyrri stigum þess þeir menn fjallað, að með allri virðingu fyrir hv. alþm. og sérstaklega þeirri góðu n., sem um málið fjallaði, þá hygg ég ekki, að við hefðum verið færir um að betrumbæta verk sáttasemjara og annarra kunnugustu manna, sem hingað til hafa haft meðferð málsins í sínum höndum og samið þær tillögur, sem nú er talað um að lögfesta. Hv. 6. þm. Sunnl. vildi, ef ég skildi hann rétt, fallast á lögfestingarleiðina, en með þeim fyrirvara, að farin væri „Vestmannaeyjaleiðin“, að lögleidd væri tillaga sem ýmsir studdu í Vestmannaeyjum, þó að um hitt gætti nokkurs misskilnings hjá honum, að sú till. hefði það fram yfir hina, að hafa ekki verið felld af málsaðilum.

Án nokkurs tilefnis frá sjútvn. barst henni núna rétt fyrir fundarbyrjun hraðskeyti frá Vestmannaeyjum, sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hv. forseta:

„Að gefnu tilefni tilkynnist yður, að tillaga bæjarráðs Vestmannaeyja um 500 kr. viðbótargreiðslu til yfirmanna á bátaflotanum var felld með 16 atkv. gegn 1 af stjórn og trúnaðarráði Útvegsbændafélags Vestmannaeyja, og almennur fundur í félaginu staðfesti þessa ákvörðun trúnaðarráðs. Útvegsbændafélag Vestmannaeyja. Björn Guðmundsson form.“

Það má e.t.v. segja, að það beri ekki mikið á milli hvort þarna standi 1 150 kr. eða 624 kr. Ef leyfilegt er að spauga í hinum alvarlegustu málum, þá vildi ég þó leyfa mér að segja, að við vitum ekki, hvaða „dreka“ við mundum vekja upp, ef við förum að fitla við tillögurnar eins og þær komu frá sáttasemjara.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. flutti hér skörulega ræðu við l. umr., talaði bæði með og móti málinu og komst að þeirri sjálfsögðu og í raun og veru rökréttu niðurstöðu að greiða ekki atkvæði. Fyrst var plús og svo var mínus, og loksins var ekki annað en núllið eftir. Ég held ekki, að okkur takist að leysa þetta mál frekar en önnur með aðgerðarleysi og þótt það sé hart og leitt að þurfa að beita lögþvingun í máli sem þessu, og skemmtilegra og æskilegra á allan hátt hefði verið að fá frjálst samkomulag beggja aðilanna, þá ber hér svo lítið á milli, og slík þjóðarnauðsyn að málið verði leyst án frekari tafar, að ég hika ekki við að leggja til, að frv. verði samþykkt óbreytt og að þeirri till. stendur meiri hluti sjútvn. Ég hygg óþarft að fara fleiri orðum um málið á þessu stigi, og legg því til, að frvgr. verði samþykkt og málinu vísað til 3. umr.