12.11.1968
Efri deild: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það er nú orðið ljóst, að ný kollsteypa er hafin í efnahagsmálum þjóðarinnar, kollsteypa, sem mun hafa örlagaríkar afleiðingar fyrir allt efnahags- og atvinnulíf landsmanna í næstu framtíð, og hvort tveggja mun búa að nokkuð lengi. Áhrif hennar munu smjúga um allt þjóðlífið, utanríkisviðskiptin, atvinnuvegina, kjör fólksins í öllum starfsgreinum þjóðfélagsins, hún mun setja mark sitt á vinnumarkaðinn og öll samskipti atvinnurekenda og verkalýðssamtaka um fyrirsjáanlega framtíð, og hún mun móta samskipti þessara aðila við ríkisstjórn og ríkisvald.

Um alllangt skeið hefur það verið augljóst, að óhjákvæmilegt væri að grípa til áhrifamikilla aðgerða í efnahagsmálum þjóðarinnar, ef algert hrun ætti ekki að blasa við, en menn og flokka hefur greint á um hvort tveggja, hverjar væru orsakir vandamálanna og hvernig við þeim skyldi brugðizt. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa viljað því einu um kenna, að mikið verðfall hafi orðið á útflutningsafurðum okkar og aflabrestur tilfinnanlegur, efnahagsstefna þeirra hafi hins vegar verið rétt, a.m.k. í öllum aðalatriðum, og við hana sé því ekki að sakast um það, hversu illa horfi nú. Stjórnarandstaðan bendir aftur á móti á það, að bæði verðlag og aflabrögð hafi á þessu og næstliðnu ári verið sambærileg við mörg þau ár, t.d. frá 1960, sem talin eru hafa verið fremur hagstæð að verzlunarárferði og aflafeng, þó að þau jafnist ekki á við metárin 1965 og '66. Orsaka vandans sé því fyrst og fremst að leita í rangri stjórnarstefnu, sem hafi magnað svo verðbólgu, að við ekkert fáist ráðið, þegar nokkuð hallar undan fæti um verðlag og aflabrögð, enda þótt hvort tveggja hafi batnað um hærri hundraðshluta á undangengnum góðærum en áfallinu, sem síðar kom, nemur.

Meðan þessar deilur hafa farið fram hafa hinar köldu staðreyndir þróunarinnar í efnahagsmálum tekið að tala æ skýrara máli og að flestu á einn veg, þann, að á flestum sviðum hefur stefnt til þrots og öngþveitis. Í gjaldeyrisbúskapnum hefur nú um tveggja ára skeið stefnt beint í algert þrot, án þess að nokkur rönd hafi verið reist við. Á þessum tveim árum hafa hjá þjóðinni eyðzt á þriðja þús. millj. kr. í gjaldeyri umfram það, sem hún hefur aflað á sama tíma. Í byrjun þessa árs var hinn svo kallaði gjaldeyrisvarasjóður raunverulega þrotinn með öllu, þar sem hann nam þá ekki hærri upphæð heldur en þeim skuldum, til skamms tíma, sem innflytjendur höfðu fengið leyfi til að stofna til, og nú í dag er hann ekki einasta þrotinn með öllu í raun og veru, heldur, ef skuldir innflytjenda eru taldar með, er um raunverulega neikvæða gjaldeyrisstöðu að ræða, sem þeim skuldum nemur. Á síðustu árum hafa svo skuldir þjóðarinnar út á við vaxið ákaflega ört og munu nú vera tæpir 9 milljarðar króna, og greiðslubyrðin af þessum skuldum er nú slík, að flestum mun ógna. En þær eru taldar, eftir því sem gefið hefur verið upp, yfir 13 hundruð millj. króna á ári í vexti og afborganir. En það mun svara nokkurn veginn til þeirrar upphæðar, sem við fáum fyrir okkar stærstu framleiðslugreinar, þ.e.a.s. afurðir frystihúsanna. Þær fara allar í skuldasúpuna og verður það að teljast geigvænlegt, þegar svo er komið. Hæstv. ríkisstj. hefur horft aðgerðarlaus á þessa geigvænlegu framvindu í gjaldeyrismálunum og á sér í raun og veru þá eina afsökun, sem að vísu er oft borin fram, að hún hafi vonað, að verðfall og aflabrestur væru tímabundnir erfiðleikar, sem úr kynni að rætast án aðgerða og afskipta, enda þótt ekkert benti til þess að svo færi. Þetta stjórnleysi í gjaldeyrisbúskapnum tel ég að hafi verið svo ábyrgðarlaust, að hliðstæðu sé naumast að finna, og raunverulega engri ábyrgri ríkisstj. sæmandi. Þegar svo er komið fram á þröm gjaldþrotsins á haustnóttum í ár, þá er gripið til þess ráðs að leggja á 20% gjaldeyrisskatt, sem varð ásamt öðru í reyndinni, þó að önnur kunni að hafa verið ætlunin, eins konar allsherjar merki um væntanlega gengisfellingu, sem hefur nú um tveggja mánaða skeið ýtt af stað holskeflu kaupæðis og gjaldeyriseyðslu og hvers konar spákaupmennsku. Öll skuggaöfl fjármálalífsins hafa á þessum tíma lifað blómatíma á kostnað almennings og á kostnað þjóðarinnar sem heildar, og á kostnað stöðu hennar í utanríkisviðskiptum. Þessi öfl geta nú vissulega fagnað góðri uppskeru, þegar kollsteypa gengisfellingarinnar er orðin að staðreynd. En það er á fleiri sviðum en sviði utanríkisviðskiptanna sem vandamálin hafa verið að hrannast upp að undanförnu. Hraðari skuldasöfnun ríkissjóðs en nokkur dæmi eru áður um talar sínu máli um öngþveitið. En þar hefur þróunin verið sú, að á einu ári hafa skuldir ríkisins vaxið úr 1.9 milljörðum í 3.4 milljarða. Þetta þýðir meðal annars það, að ríkissjóður þrengir með hallarekstri sínum og skuldasöfnun æ meira að bankakerfinu og gerir það ófærara um að greiða úr rekstrarfjárþörf atvinnuveganna. Og skuldasöfnunin vegna framkvæmda, sem þjóðin hefur alltaf áður staðið undir með samtíma tekjum, er líka eftirtektarvert tímanna tákn. Þegar litið er svo til atvinnuveganna og atvinnumálanna, blasir fyrst og fremst tvennt við: Annars vegar það, að afkoma sjávarútvegs og fiskiðnaðar er slík, að ýmist er komið í algjört þrot og stöðvun eða slíkt er þá á næsta leiti. Og hins vegar er mikil aðstöðubreyting til hagsbóta fyrir þessar atvinnugreinar óhjákvæmileg og þ. á m. fjármunatilfærsla til þeirra frá öðrum aðilum í þjóðfélaginu. Í öðrum atvinnugreinum eru samdráttareinkennin augljós, sérstaklega í ýmsum greinum iðnaðarins og þá ekki sízt þeim, sem einna flesta hefur f þjónustu sinni, byggingariðnaðinum. Allt þetta hefur svo leitt til samdráttar í atvinnulífinu, atvinnuleysis, sem þegar er skollið yfir í einstökum byggðarlögum, þar sem nú í dag ríkir algert neyðarástand, og einnig í einstökum atvinnugreinum. Og fyrirsjáanlegt er, að enn leiðir til stórfellds atvinnuleysis á þessum vetri, ef ekki er gripið til gagngerðra, skjótra og áhrifamikilla úrræða. Það er í þessu sambandi athyglisvert, að nú hefur á einu ári, á síðustu tólf mánuðum, verið greitt meira fé í atvinnuleysisbætur í landinu heldur en allan tímann samanlagðan frá því að Atvinnuleysistryggingasjóður tók til starfa, og segir það þó ekki alla sögu um ástandið í atvinnumálunum.

Af þeim aðgerðum, sem ríkisstj. nú hefur framkvæmt, þ.e.a.s. gengisfellingunni og öðrum, sem hún boðar, og ekki eru í einstökum atriðum alveg augljósar, verður þó sæmilega séð í meginatriðum, hvernig hún hyggst mæta þeim vanda, sem nú er við að glíma. Og í þeim viðræðum, sem undanfarnar vikur og mánuði hafa staðið yfir um vandamálin og hugsanlega samstöðu um lausn þeirra, þá hafa skoðanaskipti skýrt verulega í hverju ágreiningur um leiðir út úr vandanum er fólginn, og að hann er slíkur, að ekki reyndust möguleikar á því, að samstaða næðist. Meginstoðir úrræðanna, sem ríkisstj. beitir sér nú fyrir, eru tvær, annars vegar gengisfelling, sem svarar til hækkunar gjaldeyris um milli 54–55% og mun að sjálfsögðu á örskömmum tíma leiða til gífurlegrar hækkunar á öllu verðlagi í landinu, jafnt tilkostnaði atvinnuveganna sem allri framfærslu almennings. Hins vegar er svo lítið dulbúin almenn kaupbinding, sem á að hindra hækkun launa til samræmis við það verðlag, sem ráðandi verður að gengisfellingunni afstaðinni. Allt annað, sem fram hefur komið í afsleppum — vil ég segja — yfirlýsingum ríkisstj., er fullkominni óvissu háð, og þar á meðal allt, sem kynni að geta orðið til þess að létta þær þungu byrðar, sem með þessu eru lagðar á herðar almennings.

Það er mín skoðun, að gengisfellingin, svo stórfelld sem hún er, sé engin allsherjar lausn á þeim vanda, sem nú er fyrir hendi og viðurkenndur er af öllum — og allra sízt eins og að henni er staðið. Það sannar raunar strax reynsla okkar af þrem sams konar aðgerðum í stjórnartíð núv. valdaflokka, því að allar hafa þær runnið út í sandinn á örskömmum tíma. En margt ber hér fleira til en fyrri reynsla. Fjárhagsstaða mjög mikils hluta fyrirtækja, ekki sízt í þýðingarmestu greinum, sjávarútvegi og fiskiðnaði, er nú slík, að gengisfelling fær ekki þokað þeim úr sjálfheldunni, sem þau eru nú komin í. Skuldir hafa vaxið þessum fyrirtækjum yfir höfuð og það svo, að mörg eiga þar ekki eignir á mótí, jafnvel þó að miðað sé við hæsta hugsanlegt matsverð, og munu jafnvel vera dæmi til þess, að einstök fyrirtæki, sem þó eru enn starfandi, munu þurfa lánsfé, sem svarar tvöföldu matsverði. Nýir lánamöguleikar standa á núlli, aukið rekstrarfé er ófáanlegt, sem þó þyrfti að stórauka, jafnvel þó að gengið væri ekki fellt, hvað þá eftir að gengisfellingin er ráðin. Hér hefði því þurft að koma til sem fyrsta aðgerð allsherjar skuldaskil, og ég vil segja skuldaeftirgjöf, til þess að koma þessum grundvallarfyrirtækjum á rekstrarhæfan kjöl, og hefði slíkt verið gert, áður en til fjármunatilfærslu yrði gripið með gengisfellingu eða eftir öðrum leiðum, þá leikur mér ekki a.m.k. vafi á því, að slík tilfærsla hefði bæði getað verið miklum mun minni og almenningi léttbærari heldur en að nú verður raunin á. Við hlið almennra skuldaskila — a.m.k. í sjávarútvegi og fiskiðnaði og jafnvel einnig í landbúnaði og að einhverju leyti í iðnaði — hefðu svo þurft að koma til margvíslegar aðrar hliðarráðstafanir til þess að draga úr tilkostnaði og bæta hag fyrirtækjanna, með því höfuðmarkmiði að minnka höfuðvandann og gera lausn hans léttbærari. Þar vil ég nefna til verulega lækkun vaxta, a.m.k. á afurða- og stofnlánum, lengingu lána og breytingu lána í föst lán til langs tíma, endurskoðun á útflutningsgjaldi, á vátryggingakerfinu, niðurfellingu ýmissa gjalda, sem á atvinnurekstrinum hvíla, og jöfnun á aðstöðumun fyrirtækja, sem fyrir hendi er, eftir því hvar þau eru í sveit sett í landinu. Í þessum sama tilgangi, að reyna að draga sem mest úr ónauðsynlegri millifærslu fjármuna og tekna, tel ég, að hefði verið nauðsynlegt að leita eftir erlendum lánum, t.d. í Noregi eða V.-Þýzkalandi, þar sem þau trúanlega eru fáanleg, auk þeirra gjaldeyrislána, sem er opinbert leyndarmál að eigi að taka hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusjóðnum, og yrði þeim lánum fyrst og fremst varið til að tryggja fulla atvinnu í landinu og auka framleiðslu þjóðarinnar.

Ég tel, að þó að það sé ef til vil góðra gjalda vert að bjóða upp á samninga um þessi mál, úrlausn í atvinnumálunum við verkalýðssamtökin, þá sé engin nauðsyn á því né ástæða til að gera úrlausn í þeim málum að óljósu samningamáli við verkalýðshreyfinguna einhvern tíma í framtíðinni. Vandamálin eru til staðar, og þau eru svo augljós, að það hefði verið og er skylda ríkisstj. að reyna að leysa þau, og það verður ekki gert með viðhlítandi hætti nema með því að útvega til þess mjög verulegt fjármagn. Samningar einir breyta þar litlu um. Og slíkar ráðstafanir þola enga slíka bið, sem greinilegt er, að stjórnarflokkarnir og ríkisstj. ráðgera. Atvinnuleysið er þegar orðið staðreynd og verður það í enn ríkara mæli, eftir því sem róttækar aðgerðir bíða lengur. Hér dugir því engin tilraunastarfsemi, sem eigi að skera úr um það, hvort gengisfellingin dugi hér sem eina úrræðið, því öllum má vera ljóst, að það gerir hún ekki, og mun raunar í ýmsum tilvikum auka á þennan stóra þátt vandans en ekki draga úr honum. T.d. að því er þær greinar atvinnulífsins snertir, sem háðastar eru kaupgetu almennings, og hljóta að draga saman seglin í beinu framhaldi af almennri skerðingu launa. Og þar er raunverulega um að ræða mjög mikinn hluta af okkar iðnaði, bæði framleiðsluiðnaði og þjónustuiðnaði, sem byggir eingöngu á innlendum markaði og þeirri kaupgetu, sem fyrir er í landinu. Sé hún skert, þá verður ekki um neitt blómatímabil að ræða fyrir íslenzkan iðnað, hvorki framleiðsluiðnaðinn né þjónustuiðnaðinn.

Ég hef í viðræðum stjórnmálaflokkanna látið í ljós þá skoðun, að svo uggvænlega horfi nú í atvinnumálum, að setja beri þegar í stað upp sérstaka stofnun eða nefnd með þátttöku aðila vinnumarkaðsins, sem hefði það hlutverk að tryggja fulla atvinnu allra vinnufærra manna, og að slíkri stofnun yrði séð fyrir verulega miklu fjármagni, sem ég tel líklegt, að unnt væri að fá, ef ákveðinn skilningur og vilji væri fyrir hendi.

Ég hef áður minnzt á gjaldeyrisbúskapinn og hvernig honum er nú komið. Þar blasir við, að það þarf að bæta árlega afkomu okkar í gjaldeyrisbúskapnum um nokkuð á annan milljarð á ári, ef áframhaldandi á ekki að stefna til nýrra þrota, þrátt fyrir óveruleg gjaldeyrislán, sem talin eru fáanleg og munu nema innan við tveggja mánaða neyzluþörf okkar á erlendum gjaldeyri. Í þeim efnum lýsi ég andstöðu minni við þau einhliða samdráttar- og kjaraskerðingarúrræði, sem mér virðast efst á baugi, og tel, að það vandamál verði fyrst og fremst að leysa eftir jákvæðum leiðum, samhliða því, að upp verði tekin stjórn á gjaldeyrismálunum í stað þess stjórnleysis, sem hefur verið ráðandi. Þær jákvæðu leiðir eru að mínu viti þær m.a., að stórfelld ný gjaldeyrisöflun komi til, svo sem með allsherjar átaki og löggjöf um vöruvöndun útflutningsafurða, sem nú eru að þarflausu að meiri hluta í lakari gæðaflokkum og gefa þar með miklu lægra verð en ástæða væri til. Með aukinni og efldri markaðsöflun og endurskipulagningu útflutningsverzlunarinnar, með aukinni fjölbreytni í útflutningsframleiðslu, með eflingu íslenzks iðnaðar til útflutnings, og ég nefndi síðast en ekki sízt með stóraukinni ferðamannaþjónustu, sem vafalaust getur fært okkur margfaldar gjaldeyristekjur frá því, sem nú er, ef réttar ráðstafanir eru gerðar í þá átt. En aukin gjaldeyrisöflun eftir þessum leiðum mundi jafnframt bæta hag útflutningsatvinnuveganna og enn draga úr þunga efnahagsaðgerða þeim til framdráttar.

Það hefur líka komið fram sem sameiginleg skoðun allra talsmanna stjórnarandstöðunnar í undanfarandi viðræðum flokkanna, að heildarstjórn fjárfestingarmála sé óhjákvæmileg nauðsyn. En því áliti hefur ekki verið mætt af miklum skilningi af hálfu stjórnarflokkanna. Happa- og glappastefnan virðist eiga að verða ráðandi í þeim efnum áfram, svo dýrkeypt sem hún hefur þó reynzt þjóðinni á undanförnum árum. Þó að ekki sé lengur rakið að sinni, má af því, sem ég hef hér sagt, strax nokkuð ráða, hver munur er á þeim viðhorfum, sem annars vegar ráða nú gerðum stjórnarflokkanna og þeirra, sem móta afstöðuna núna, og vafalítið hins vegar þorra stjórnarandstæðinga. Þetta kann þó að verða enn ljósara, þegar að þeim þætti kemur, sem alveg beint snýr að kjaramálunum í þrengri merkingu, þeim þætti, sem snýr að því, hvernig þeim byrðum, sem nauðsynlegt er, að þjóðin í heild taki á sig, meðan við erum að feta okkur út úr mesta vandanum, verði jafnað niður. Mitt viðhorf er það, og mér þykir næsta líklegt, að það sé einnig viðhorf manna í verkalýðshreyfingunni almennt, hvar sem þeir hafa skipað sér í stjórnmálum, að hinir lægst launuðu í landinu, að ég ekki tali um bótaþega almannatrygginga, geti ekki tekið á sig skert kjör, frá því sem nú er, og að því beri að kappkosta, að óhjákvæmilegum byrðum verði jafnað niður af réttlæti og þeim, sem betur mega, verði gert að taka meginþunga þeirra á sínar herðar.

Í þeim efnum er ég alveg sammála því, sem um þetta segir í stjórnmálaályktun flokksþings Alþfl., sem þar var samþykkt fyrir skömmu. En þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta, þegar rætt er um væntanlegar aðgerðir: Þar eru taldar fyrst, ráðstafanir til að tryggja öllum vinnufærum fulla atvinnu.

„Í öðru lagi: aðgerðir í efnahagsmálum miðist við það eitt að mæta aðsteðjandi vanda og að þeim byrðum, sem óhjákvæmilegt reynist að leggja á þjóðina, verði dreift réttlátlega á stéttir þjóðfélagsins og sérstakt tillit verði tekið til hagsmuna láglaunafólks, barnafjölskyldna og bótaþega almannatrygginga.“

Sú nakta gengisfelling, sem verkalýðsstéttin og þjóðin öll standa nú frammi fyrir, ásamt yfirlýsingunni um kaupbindingu, er að mínu viti algerlega andstæð þessari ályktun og því viðhorfi verkalýðshreyfingarinnar, sem liggur þar að baki. Að þeim ráðstöfunum gerðum er kjaraskerðing, sem svara mundi trúlega til 15–20 óbættra vísitölustiga, orðin staðreynd, sem hvílir með þeim mun meiri þunga á þeim, sem við minnstu eða engu mega, en öðrum, sem hafa meira að bíta og brenna. Og þessi stórfellda skerðing mun reynast því þungbærari, nái hún fram að ganga, sem gjaldþol láglaunamanna hefur minnkað vegna atvinnusamdráttar og atvinnuleysis. Og ég held, að þessi lífskjaraskerðing muni ekki aðeins reynast þungbær, heldur einnig óframkvæmanleg, eins og nú er komið hag láglaunafólks, og þau úrræði, sem á slíkri skerðingu eru byggð, öllu öðru fremur dæmi til þess að missa þess marks, sem þeim þó væntanlega er ætlað að ná.

Ég hef ekki farið dult með þá skoðun mína, að á meðan við erum í mestum vanda staddir með að halda atvinnuvegunum á floti, ættu að koma til eftir leiðum frjálsra samninga og eftir leiðum breyttra skattalaga veruleg jöfnun launa og takmörkun bæði á hærri launum við ákveðin mörk og ekki síður á gróða, ekki síður á gróðaviðskiptum og atvinnurekstri. Það er bæði skömm og hneyksli að skerða laun verkamanna, sem í fullri atvinnu ná ekki yfir 120–130 þús. kr. árstekjum og með skertri atvinnu oft og tíðum miklu lægri tekjum, að skerða þau um 15–20 vísitölustig, meðan hálaunamenn komast unnvörpum í margfaldar eða jafnvel tugfaldar þær tekjur, án þess að missa nokkuð sem heitir við þær aðgerðir, sem eru ákveðnar eða fyrirhugaðar. Og enn aðrir hópar hirða ómældan gróða gegnum hlunnindi frá fyrirtækjum og jafnvel frá því opinbera eða geta dregið út úr atvinnurekstrinum stórar fjárfúlgur til óhófseyðslu.

Eins og hér hefur verið vikið að, hafa viðræður um efnahagsmálin milli stjórnmálaflokkanna staðið yfir undanfarna rúma tvo mánuði, til s.l. laugardags, þegar þeim var slitið án árangurs. Það voru ríkisstjórnarflokkarnir, sem áttu frumkvæðið að þessum viðræðum, og hinn yfirlýsti tilgangur þeirra var og hét, hvort reyna mætti að ná allsherjar samstöðu um lausn vandamálanna og þá með þeim hætti, að ný ríkisstj. allra flokka yrði mynduð til að standa fyrir þeim ráðstöfunum og aðgerðum, sem samstaða kynni að nást um. Þessu algerlega nýja viðhorfi ríkisstjórnarflokkanna var vel tekið af stjórnarandstöðunni og sú skoðun virtist almenn meðal þjóðarinnar, að nú stefndi í þann háska fyrir atvinnuvegunum og í viðskiptum þjóðarinnar út á við, að þjóðareining um lausn vandamálanna væri ekki aðeins æskileg, heldur nauðsynleg. En það var vitanlega auðsætt frá upphafi, að slík samstaða gat ekki verið hugsanleg, hvað þá raunveruleg, nema stjórnarflokkarnir væru reiðubúnir til að taka mikið tillit til og mæta með skilningi viðhorfum stjórnarandstöðunnar og verkalýðshreyfingarinnar, væru reiðubúnir til að breyta á marga grein stefnu sinni, þeirri, sem þeir hafa í meginatriðum fylgt nú um áratugs skeið. Ég tel, að reynslan af þessum viðræðum, að því leyti sem þær hafa raunverulega snúizt um stefnuna varðandi lausn aðsteðjandi vanda, hafi sýnt, að þessu grundvallarskilyrði voru stjórnarflokkarnir aldrei tilbúnir til þess að fullnægja. Og niðurstaða þeirra, eins og hún birtist með gengisfellingunni nú og þeim augljósu aðgerðum öðrum, sem greinilegar yfirlýsingar liggja fyrir um, sanna þetta, að því er ég fæ bezt séð, fullkomlega. Það eru gömlu, margreyndu úrræðin frá 1960, 1961 og 1967, sem í öllum aðalatriðum er enn haldið fast við, í stað þess að viðurkenna það, hve illa þau hafi gefizt, og breyta samkvæmt því. Það er rokið í stórfelldustu gengisfellingu sögunnar, án þess áður að þrautkanna aðrar færar leiðir til þess að minnka vanda atvinnuveganna, eins og stjórnarandstaðan hefur lagt til. Afnám verðlagsbóta á laun er boðuð, rift frjálsum samningum verkalýðssamtakanna og vinnuveitenda og árás boðuð á ævagamlan, hefðbundinn og samningsbundinn eignarrétt sjómanna á aflahlut sínum, allt án þess að áður hafi nokkurt samkomulag verið reynt við verkalýðshreyfinguna. Enn er hafnað allri mótaðri stjórnun í fjárfestingar- og gjaldeyrismálum, þótt flestum sé nú orðið ljóst, að í stjórnleysi þessara mála er ein höfuðmeinsemd stjórnarstefnunnar á undanförnum árum fólgin. Happa- og glappastefnan á áfram að ríkja í atvinnumálunum og nauðsynlegri samfélagslegri forystu í þeim málum hafnað í aðalatriðum, jafnvel þegar svo stendur á, að vofa kreppu og atvinnuleysis stendur í dyragættinni. Og síðast en ekki sízt: Það á enn að leysa vandamálin fyrst og fremst á þann veg, að hlutfallslega þyngstu byrðarnar lendi á bökum þeirra, sem í dag hafa naumast til hnífs og skeiðar og margir hverjir knapplega það.

Ég segi aðeins að lokum: Þetta er ekki stefna, sem samstaða og þjóðareining getur tekizt um. Hún býður heim sundrungu og baráttu á vinnumarkaðinum og raunar í öllu þjóðlífinu. Og ég fullyrði, að þessi stefna á ekki neinum meiri hluta að fagna á meðal þjóðarinnar, og ég dreg reyndar mjög í efa, að hún eigi nokkurn raunverulegan meiri hluta hér á hv. Alþingi, þó að sterku flokksvaldi kunni kannske að takast að knýja hana hér í gegn. En eins og nú er komið, held ég, að sú krafa, að þing verði rofið og efnt til nýrra alþingiskosninga, svo fljótt sem stjskr. og lög leyfa, hljóti að rísa hátt bæði utan þings og innan. Þjóðin stendur vissulega á örlagaríkum tímamótum og hún á fyllsta rétt á því að kveða upp sinn úrskurð um það, hvernig við þeim vandamálum verði brugðizt, sem nú steðja að. Hún á rétt á því að skapa í almennum kosningum þá þjóðareiningu, sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa nú í reynd hafnað.