17.02.1969
Neðri deild: 46. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þó að því hafi verið lofað af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna að tefja þetta mál ekki með miklum umr., þá finnst mér eigi að síður rétt, að það fái hér þinglega meðferð, þannig að hæfilegar umr. verði um það og eins að það fái þinglega meðferð í n. Það tel ég m.a. þinglega meðferð í n., að það verði leitað til fulltrúa þeirra aðila, sem eiga hér í deilu, m.a. til að upplýsa það, hvað það er raunverulega, sem nú ber á milli í deilunni, en því var lýst yfir af hæstv. sjútvmrh. í Ed., að í raun og veru væru smámunir, sem bæru hér á milli. Ef það er rétt hjá hæstv. ráðh., þá finnst mér það vel tilvinnandi og ekki annað sæmandi, en að þingið fái fullar upplýsingar um það, hverjir þessir smámunir eru og hvort ekki muni því vera hægt að leiða málið til lykta á stuttum tíma, án þess að það þurfi að fara þá leið, sem hæstv. ríkisstj. leggur hér til. Ég vil vænta þess, að hæstv. sjútvmrh. hafi farið með rétt mál og verið búinn að kynna sér allar staðreyndir þar að lútandi, þegar hann sagði, að hér væru raunverulega smámunir, sem bæri á milli. Því að það skulum við gera okkur ljóst. að hvað framtíðarlausn þessa máls snertir, er það að sjálfsögðu langæskilegast. að það verði hægt að fá fullt samkomulag um þetta mál og a.m.k. sé það til fulls upplýst, áður en þetta mál er endanlega afgreitt, hvað það er, sem raunverulega ber á milli, fyrst hæstv. ráðh. fer um það þeim orðum, að hér sé um smámuni að ræða.

Áður en ég vík að málinu sjálfu finnst mér rétt að minnast örlítið á setningu, sem hæstv. sjútvmrh. lét falla hér áðan. Hann talaði um það með verulegum fjálgleik, að nú skipti það mestu máli að bera klæði á vopnin. Og þetta er alveg rétt hjá hæstv. sjútvmrh. En það gildir hér um hann eins og um ýmsa fleiri, að það er hægara að kenna heilræðin en að halda þau. Ef hæstv. sjútvmrh. hefði minnzt þessara orða og farið eftir þessum orðum á haustþinginu, mundi aldrei hafa til þeirrar deilu komið. sem hefur verið háð hér í landinu að undanförnu, sjómannadeilunnar og verkfallsins í sambandi við hana. En í stað þess að bera þá klæði á vopnin, hellti ráðh. olíu á eldinn og þess vegna fór sem fór. Það sorglega við þessa deilu, sem hér er nú rætt um, er einmitt það, að það hefði aldrei þurft til hennar að koma og það hefði verið hægt að forða þjóðinni auðveldlega frá því mikla tjóni, sem af henni hefur hlotizt, ef með hæfilegri skynsemi og aðgætni hefði verið haldið á þessu máli af hálfu hæstv. ríkisstj. Það var einu sinni sögð setning hér í þinginu af voldugum þingeyskum manni, sem fjallaði eitthvað um móðuharðindi af manna völdum. Mér finnst, að öll afskipti ríkisstj. af þessu máli minni á móðuharðindi af manna völdum. Og ég lýsi fullkomlega á hendur henni ábyrgðinni af því tjóni, sem af þessari deilu hefur leitt. Það er haft eftir merkum útgerðarmanni, sem ætti að þekkja vel til þessara mála, að eins og nú sé komið, kosti þessi deila þjóðarbúið um 20 millj. á dag. Það eru liðnir 48 dagar af þessu ári og þó að við reiknum með því, að þeir hefðu ekki allir verið færir til sjósóknar, mun það ekki fjarri lagi að reikna með því samkv. þessum tölum, að tjónið af deilunni nemi orðið 500–600 millj. kr. og kannske meiru en það. En hjá þessu tjóni hefði verið hægt að komast, hjá þessum móðuharðindum af manna völdum hefði verið hægt að komast, ef ríkisstj. hefði haldið með skynsemi, aðgætni og lagni á þessum málum. Og mér finnst rétt, áður en ég vík að málinu sjálfu, að rökstyðja það nokkuð, að ég kalla þessi afskipti ríkisstj. móðuharðindi af manna völdum.

Ég kalla þetta í fyrsta lagi móðuharðindi af manna völdum vegna þess, að til þessarar deilu hefði aldrei þurft að koma og hefði aldrei komið, ef ríkisstj. hefði ekki algerlega að óþörfu blandað sér inn í samningamál sjómanna og útvegsmanna á s.l. hausti og sett lög um það að rjúfa samningana á milli þessara aðila, sem er í raun og veru algerlega einstætt verk í þingsögunni. Ég man ekki eftir því, það kann að vera hægt að finna fordæmi fyrir því, að ríkisstj. eða annar aðili hafi áður fyrr komið með mál hér á Alþ. og knúið það fram að rjúfa gerða samninga milli stéttarfélaga í landinu. Ef það hefði ekki verið gert, er það alveg víst, að ekki hefði til þessarar deilu komið, því að það var bæði hjá sjómönnum og útgerðarmönnum ríkjandi fullur skilningur á því, að vinnufriður væri nauðsynlegur og ef þessi afskipti ríkisstj. hefðu ekki komið til sögunnar er ég viss um það, að þessir aðilar hefðu leyst deilumál sín með friðsamlegum hætti, eins og svo oft áður. En eftir að svo var komið, að með þessari lagasetningu ríkisstj. var búið að rjúfa samningana milli útgerðarmanna og sjómanna með þeim hætti, að kjör sjómannanna voru stórkostlega skert, þá var ekki von á öðru, ekki nema eðlilegt og mannlegt, en að þeir brygðust við á þann hátt, sem raun varð á. En ég segi það enn í fyrsta lagi, að ég tel verknað ríkisstj. móðuharðindi af manna völdum vegna þess, að til þessarar deilu hefði aldrei þurft að koma, ef hún hefði ekki skorizt í hana með þeim hætti, sem ég hef nú gert grein fyrir.

Í öðru lagi segi ég, að afskipti ríkisstj. af þessu máli minni á móðuharðindi af manna völdum vegna þess, að það hefði verið fyrir löngu hægt að leysa þessa deilu, ef nokkur vilji hefði verið hjá hæstv. ríkisstj. til þess að ná því marki. Sjómennirnir settu sínar kröfur þannig fram strax í upphafi, að það var ekki annað en fullkomin sanngirni, að að þeim væri gengið. Þeirra meginkröfur hljóðuðu ekki upp á annað en það, að bátasjómennirnir og yfirmennirnir á bátunum sætu við sama borð og sjómenn á togurum og farskipum hafa þegar tryggt sér, að þeir fengju fæði sitt greitt og yrðu aðilar að lífeyris­ sjóðum. Og það var áreiðanlega af hálfu útgerðarmanna fullur skilningur á því, að þessum kröfum þeirra væri fullnægt. Hins vegar verður að gera sér grein fyrir því, að þannig er að útgerðinni búið af hálfu hæstv. ríkisstj. með ýmsum sköttum og álögum og sérstaklega með meiri vaxta- og peningapólitík, sem því fylgir, að það er ekki hægt um vik fyrir útgerðina, jafnvel þó að útgerðarmenn vilji veita starfsmönnum sínum góð kjör, nema þeir fái á móti einhverjar tilslakanir af hálfu ríkisstj. Ég er alveg viss um það, að á bak við tjöldin hefur verið mjög reynt til þess af útgerðarmönnum síðan þessi deila hófst að fá tilslakanir af hálfu ríkisstj., sem gerði útgerðarmönnum auðvelt að semja, en ríkisstj. hefur alltaf þverneitað að veita slíkar tilslakanir. Svo var komið fyrir rúmum þremur vikum síðan samkv. því, sem eitt stjórnarblaðið, Vísir, upplýsti, að það, sem á milli bar milli sjómanna og útgerðarmanna, svaraði ekki nema 27 millj. kr. á ári. Fjárlög íslenzka ríkisins eru nú á 8. milljarð kr. Hver heldur það, að ríkisstj. hefði ekki auðveldlega getað brúað þetta bil, þessar 27 millj. kr., milli sjómanna og útgerðarmanna, ef hún hefði haft minnsta vilja til að gera það? En ríkisstj. hafði engan vilja til að gera það og þess vegna hélt þessi deila áfram viku eftir viku með þeim afleiðingum fyrir þjóðarbúið og alla aðila, sem ég hef nú lýst. Ég segi þess vegna enn einu sinni, að öll framkoma og öll afskipti ríkisstj. í þessu máli minnir fullkomlega á hina frægu setningu um móðuharðindi af manna völdum. Ríkisstj. hefur hér með stífni sinni, yfirgangssemi og skilningsleysi átt sinn þátt í því, að þjóðin er í dag 500–600 millj. kr. fátækari en hún þyrfti að vera, ef með nokkurri skynsemi og gætni hefði verið á þessum málum haldið af hálfu hæstv. ríkisstj.

En þetta er ekki í fyrsta sinn, sem þessi ríkisstj. gerir sig seka um slík móðuharðindi af manna völdum sem ég hef nú rætt um. Á seinasta þingi gerðist nákvæmlega sami atburðurinn. Þá afnam ríkisstj. lög um vísitöluuppbætur á kaup með þeim afleiðingum, að launþegar urðu að hefja stærsta og dýrasta verkfall, sem hefur verið háð á Íslandi, til að knýja fram sinn rétt. Til þess verkfalls og til þess tjóns hefði áreiðanlega ekki komið, ef ríkisstj. hefði ekki hér algerlega að óþörfu skorizt í málið og afnumið l. um vísitöluuppbætur á kaupgjaldi. Ég er ekki að halda því fram, að það séu ekki sæmilega velmetandi menn, sem sitja í hæstv. ríkisstj., en af einhverjum ástæðum tekst þeim svona klaufalega til, að verk þeirra snúast hvaðeina upp í það að vera móðuharðindi af manna völdum og baka þjóðinni hið stórfelldasta tjón. Ríkisstj. og stjórnarblöðin hafa fundið það, að aðstaða þeirra var ekki sterk í þessari deilu. Þessir aðilar hafa fundið það, að sökin var ríkisstj. og hennar stuðningsmanna, og þess vegna hefur verið kappsamlega að því unnið á undanförnum vikum að reyna að koma sökinni á aðra. Það hefur verið reynt að koma sökinni á stjórnarandstæðinga og sagt, að þeir spilltu fyrir samkomulagi um þetta mál. Og það hefur verið svo langt gengið, að þegar þm. hafa ferðazt hér um húsið í einkaerindum, hefur verið sagt í stjórnarblöðunum, að þeir væru að koma hingað til að spilla fyrir samkomulagi um málið, þó að þeir hafi ekki rætt við neina af þeim mönnum, sem þar áttu þátt í samningagerð, nema þá að Lúðvík Jósefsson hafi kannske átt samtal við einn af forystumönnum útgerðarmanna, en mér finnst ólíklegt, að það hafi verið gert til þess að espa upp sjómennina að tala við þann mann. Það hefur verið reynt að halda þessum sama áróðri uppi manna á milli, ekki aðeins í blöðunum, að stjórnarandstæðingar væru að spilla fyrir málinu, en ég held þó með heldur litlum árangri vegna þess, að það hefur legið svo skýrt fyrir, hver afstaða stjórnarandstæðinga var.

Afstaða stjórnarandstæðinga var í fyrsta lagi sú, að þeir reyndu eftir megni að koma í veg fyrir það, að þessi deila hlypi af stokkunum með því að beita sér gegn því frv. hæstv. sjútvmrh., sem hleypti henni af stað. Síðan hefur hvað eftir annað af hálfu þeirra verið hvatt til þess að leysa deiluna sem fyrst, og þeir hafa jafnan lýst því yfir, að þeir væru reiðubúnir til að eiga sinn þátt í því t.d. að taka þátt í sáttanefnd ef eftir því væri óskað. Stjórn Steingríms Steinþórssonar gekk þau spor í verkamannaverkfallinu, sem háð var hér 1955, að leita til stjórnarandstöðunnar og biðja hana um að eiga aðild að sáttanefnd sem reyndi að koma á samkomulagi í þeirri deilu. Upp úr þessari deilu náðist samkomulag, og m.a. samkomulag um atvinnuleysistryggingarnar, sem nú hafa komið að beztum notum. Ef ríkisstj. hefði haft nokkurn áhuga fyrir að leysa þessa deilu, átti hún að snúa sér strax til andstöðuflokka sinna og biðja þá að eiga þátt f því með sér að vinna að lausn hennar, en í stað þess að gera það, var haldið uppi rógi um stjórnarandstöðuna um það, að hún væri að spilla fyrir málinu.

En þó álít ég, að þessi áróður um stjórnarandstöðuna sé ekki það versta, sem hent hefur áróðursmeistara stjórnarflokkanna og ríkisstj. í þessu máli. Það, sem ég tel langverst og langalvarlegast í sambandi við þessa áróðursherferð ríkisstj. og hennar stuðningsmanna í málinu, er sú áróðursherferð, sem hefur verið haldið uppi gegn yfirmönnunum á bátaflotanum og reynt að hengja þá upp sem einhverja sökudólga, sem ættu mestan þátt í því, að samkomulag næðist ekki í þessari deilu. Og það hefur ekki verið látið þar við sitja. Það hafa verið breiddar út alls konar sögur um það, að hér væri um að ræða einhverja mestu hátekjustéttina í landinu, og þá sé nú skörin farin að færast upp í bekkinn, þegar þessir hátekjumenn ættu meginþátt í því, að aðalatvinnuvegur þjóðarinnar stöðvaðist. Þessi rógur hefur verið látinn ganga mann frá manni. Það hefur ekki verið látið bera eins mikið á honum í stjórnarblöðunum til þess að undirbúa þá aðgerð, sem nú er verið að framkvæma hér í þinginu. Það hefur verið talað öðruvísi um þessa menn núna en á sjómannadaginn og á tyllidögum, þegar verið er að tala um það, hvað sjómannastéttin sé nauðsynleg og hve mikilsvert það sé, að þar sé valinn maður í hverju rúmi. Nú hefur verið talað um það, að hér væri um hátekjumenn að ræða, sem væru með óbilgirni að stöðva aðalatvinnuveg þjóðarinnar um hábjargræðistímann og ættu þátt í því, að þúsundir manna gengju atvinnulausar í landinu. Og það hafa verið nefndar hinar furðulegustu tölur um það, hvað það væri, sem þessir menn bæru úr býtum.

Satt að segja finnst mér nú, þegar maður rifjar upp ýmsar ræður og ýmis skrif hjá stjórnarblöðunum á undanförnum misserum, að þá séu þessar tölur, sem eru nefndar um hinar háu tekjur yfirmannanna á bátaflotanum, nokkuð einkennilegar, því að þegar stjórnin hefur verið að afsaka sínar gerðir hér í þinginu í efnahagsmálum, hefur ekki vantað upplýsingar um það, hve afli hefur minnkað mikið á undanförnum árum eða hvað verð hafi fallið mikið á sjávarafurðum o.s.frv. En nú er eins og þetta hafi ekki haft nein áhrif á kjör sjómannanna og yfirmannanna á bátaflotanum á undanförnum misserum. Það virðist alveg samkv. þessum áróðri eins og þeirra kjör hafi verið óbreytt, þó að afli hafi dregizt saman og þó að verðlag hafi fallið á íslenzkum sjávarafurðum erlendis. En til þess verða menn að taka eðlilegt tillit, þeir, sem vilja vera sanngjarnir í þessum efnum, að þó að þessi stétt manna bæri sæmileg kjör úr býtum á árunum 1964–1966, er allt annað uppi á teningnum í dag. Niðurstaðan er sú, að samkv. útreikningum, sem eru byggðir á tölum frá Efnahagsstofnun ríkisins og stjórnarliðar ættu þess vegna ekki að vefengja, þá hafa yfirmenn á skipum á síðasta ári sízt haft hærri laun en t.d. verkstjórar í landi. Vil ég ekki neitt lítið úr þeim gera, en hitt er þó alveg víst, að á langflestum þeirra hvílir minni ábyrgð en þeim, sem eru til fyrirsvars á okkar bátaflota, auk þess, sem allir sjá, að vinna þeirra er ekki eins erfið og áhættan miklu minni, sem þeirra störfum fylgir. Og hver getur nú ætlazt til þess að það verði til lengdar hægt að tryggja þá stefnu, sem allir virðast vera sammála um, að á okkar fiskiskipum þurfi að verða valinn maður í hverju rúmi, ef þeir, sem þar starfa, bera ekki meira úr býtum en t.d. verkstjórar í landi? Ég er ekki að segja það, að verkstjórar í landi eigi ekki að hafa sæmileg laun, síður en svo, og ég tel þeirra störf mjög þýðingarmikil og það skipti mjög miklu máli fyrir okkur að hafa góða verkstjórastétt, og við eigum að leggja áherzlu á að bæta hana. En þrátt fyrir það, þó að ég viðurkenni þessa stétt fullkomlega, hygg ég, að því verði ekki neitað, að þeir menn, sem veljast til þess að verða yfirmenn á bátaflotanum, hvort heldur þeir eiga að verða þar skipstjórar, stýrimenn eða vélstjórar, gegni enn ábyrgðarmeira, þýðingarmeira og örlagaríkara starfi fyrir íslenzkt þjóðfélag. Því að hvaða trú, sem menn kunna að hafa á stóriðju og öðru slíku og atvinnurekstri útlendinga hér á landi, er það víst, að um langa framtíð enn mun afkoma okkar þjóðarbúskapar fyrst og fremst velta á því, sem sjávarútvegurinn eða sjómennirnir koma með að landi og hvernig úr þeim afla verður unnið. Við getum ekki tryggt góðan rekstur á sjávarútveginum, nema það sé tryggt, sem menn telja, að sé nauðsynlegt, a.m.k. á sjómannadaginn og öðrum slíkum tyllidögum, að það sé valinn maður í hverju rúmi.

Ég vil vænta þess, að þeir erfiðleikar, sem nú ganga yfir og hvernig að okkar sjómannastétt er búið í dag, verði ekki til þess, sem hv. seinasti ræðumaður minntist á, að þeir muni leita sér atvinnu í öðrum löndum. Okkar þjóð má ekki við því og við verðum að treysta því, að til þess komi ekki. En það verðum við hins vegar að gera okkur ljóst samkv. mannlegu eðli, að ef engin breyting verður á í þessum efnum og ef störf þeirra, sem á sjónum vinna, eru ekki tiltölulega betur launuð en okkar, sem erum í landi, miðað við þá áhættu og erfiðleika og ábyrgð, sem á þeim hvílir, gæti þróunin hæglega orðið sú, áður en langt um liði.

Ég vil því nota þetta tækifæri til að fordæma með hinum sterkustu orðum þann áróður, sem hefur verið haldið uppi af ríkisstj. og stuðningsmönnum ríkisstj. gegn yfirmönnum bátaflotans á undanförnum dögum. hvernig hefur verið reynt að hengja þá upp sem ósanngjarna kaupkröfumenn, hátekjumenn, sem þyrftu alls ekki á því að halda, sem þeir væru að berjast fyrir og sýndu þar ósanngirni gagnvart öðrum stéttum í landinu. Ég vil sérstaklega láta þar í ljósi sterka fordæmingu á því, að á sama tíma og blað sjútvmrh. þykist vera velviljað sjómönnum, hafa það verið forystumenn Alþfl., sem öðrum frekar hafa gengið fram í þessum áróðri bak við tjöldin og breitt þetta út um yfirmennina á bátaflotanum, að þeir væru ósanngjarnir hátekjumenn, sem væru vegna heimtufrekju að reyna að stöðva aðalatvinnuveg þjóðarinnar.

Ég vil ekki brjóta það samkomulag, sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa gert við stjórnina í sambandi við þetta mál, þ.e. að ræða ekki almenn efnahagsmál, því að samkomulag er um það, að umr. um það mál fari fram síðar. Ég skal því ekki hafa þessi orð mín öllu fleiri um það, sem snertir þetta mál almennt, en víkja að lokum nokkrum orðum að því frv., sem hér liggur fyrir.

Ég vil í sambandi við það segja það fyrst, að það hefur frá upphafi verið meginstefna Framsfl. að leysa kaupdeilur með frjálsum samningum, og ég held, að ég segi það rétt, að á þeim einum 30 árum eða svo, sem Framsfl. hefur haft aðild að ríkisstj., muni það ekki hafa komið fyrir nema í tvö eða þrjú skipti undir alveg sérstökum kringumstæðum, að gripið var til lagasetningar til þess að leysa kaupdeilur. Það má gjarnan í þessu sambandi minnast þess, að þegar íhaldsflokkurinn gamli, núv. Sjálfstfl., beitti sér fyrir því á þingi 1925, að komið yrði upp svokallaðri varalögreglu til þess að skerast í leikinn í kaupdeilum, áttu þm. Framsfl. frumkvæðið að því, þeir Tryggvi Þórhallsson og Ásgeir Ásgeirsson, að sett voru l. um sáttasemjara ríkisins eða sáttasemjara í vinnudeilum, sem hefur starfað síðan og tvímælalaust hefur átt oft mikinn og gæfuríkan þátt í því, að slíkar deilur hafa leysts. Allt frá þessum tíma hefur það verið meginregla, sem Framsfl. hefur viljað fylgja og fylgt, að slíkar deilur yrðu leystar með frjálsum samningum. En eins og ég sagði áðan, eru ein tvö eða þrjú undantekningardæmi frá þessu og ég skal líka fúslega viðurkenna það, að svo getur verið ástatt, að málum sé þannig komið og högum þjóðfélagsins þannig háttað, að ekki sé um aðra leið að ræða en að leysa mál með lagasetningu. En til þess að slíkt geti talizt réttmætt frá mínu sjónarmiði og þeirra manna, sem líta svipað á málin og ég, þá verða a.m.k. tvö meginskilyrði að vera fyrir hendi auk þess, sem lausn málsins verður að vera réttlát.

Þessi meginskilyrði eru þau, að í fyrsta lagi sé málum þjóðarinnar þannig komið og deilan eða verkfallið þannig vaxið, að þjóðarbúið þoli það ekki öllu lengur, að hún haldi áfram, án þess að löggjafinn skerist í leikinn.

Í öðru lagi þarf það að liggja fyrir, að samningar hafi verið reyndir til hins ýtrasta og ekkert hafi verið látið ógert til að koma þeim á með frjálsum hætti. Ég tel, að í sambandi við þá deilu, sem hér liggur fyrir, megi segja, hvað fyrra atriðið snertir um þörf þjóðfélagsins og það tjón, sem það verður fyrir af áframhaldandi deilu, að það geti réttlætt íhlutun eins og þá, sem hér er um að ræða, en þó því aðeins, að það sé um réttláta lausn að ræða. En hitt er alveg ljóst, að enn sem komið er hefur ekki í þessu máli verið reynt nægilega að koma á samningum. Deilan hefur dregizt von úr viti, þó að allir viðurkenni, að það sé raunverulega lítið, sem beri á milli, án þess að nokkuð hafi verið gert til þess að höggva á hnútinn og til að koma á samkomulagi, og sérstaklega hefur ríkisstj. látið það ógert að reyna að koma á samkomulagi um þessi mál, því að ef hún hefði gert það, væri deilan leyst fyrir löngu, m.a. má þar vitna í umsögn eins stjórnarblaðsins, eins og ég gerði áðan, um að það hefði ekki þurft að brúa bil, sem svaraði meiru en 27 millj. kr. fyrir þremur vikum síðan. Það gat stjórnin gert með einu pennastriki, ef hún hefði haft nokkurn áhuga fyrir því. Það er líka upplýst, að nú fyrir nokkrum dögum var reynd sáttatilraun í Vestmannaeyjum, sem sýnir það, að það munaði raunverulega ekki nema fáum millj. kr., að því er manni virðist, til þess að það væri hægt að ná samkomulagi í deilunni. En þrátt fyrir það þó að þetta liggi fyrir, hafa núna 4–5 dagar verið látnir líða síðan atkvgr. fór fram, án þess að samningaleiðin væri reynd til nokkurrar hlítar.

Það mætti segja þess vegna, að þar sem ekki er að mínum dómi fullnægt nema öðru af þessu meginatriði, þannig að fyrirsjáanlegt er mikið tjón þjóðarbúsins, ef deilan heldur áfram, en hinu ekki, að samningaleiðin hafi verið reynd til hlítar eða til hins ýtrasta, þá væri það eðlileg afstaða að greiða atkv. á móti þessu frv. Niðurstaðan er samt sú, að ég og mínir flokksmenn munum sitja hjá við atkvgr., og það byggi ég á eftirgreindum þremur atriðum:

Í fyrsta lagi er fyrirsjáanlegt, að það verður mikið tjón fyrir þjóðarbúið og fjölda aðila, ef deilan heldur áfram. Í öðru lagi liggur það fyrir eftir því, sem upplýst hefur verið hér í þinginu bæði af hæstv. ríkisstj. og þeim, sem styðja málstað hinna, að það er sáralítið, sem á milli ber, og þegar svo er komið, að ekki ber orðið nema sáralítið á milli í deilunni, viljum við ekki verða til þess að bregða fæti fyrir, að það mál gangi fram, sem hér liggur fyrir, þó að við hins vegar viljum ekki taka neina ábyrgð á afgreiðslu þess. Í fyrsta lagi vegna þess, að samningaleiðin hefur ekki verið reynd til fulls að okkar dómi og í öðru lagi vegna þess, að að öðru leyti hefur öll málsmeðferð ríkisstj. á þessu máli verið þannig, að við viljum hvergi nálægt henni koma. Til þess verður svo að taka einnig tillit, sem gerir þessa deilu alveg sérstæða, og það er það, að nokkur hluti þeirra manna, og það jafnvel meiri hluti þeirra manna, sem á bátaflotanum vinna, er búinn að samþykkja ákveðna lausn fyrir sitt leyti, og það er ekki óeðlilegt, að það hafi nokkur áhrif á þá heildarafstöðu, sem menn taka til þessa máls.

En þó að við framsóknarmenn fordæmum afstöðu ríkisstj. eins harðlega og hægt er að gera í sambandi við alla þessa málsmeðferð, þá viljum við ekki, eins og málið er komið nú, verða til þess að bregða fæti fyrir það, að þetta frv. nái fram að ganga af þeim ástæðum, sem ég hef nú gert grein fyrir og þess vegna verður það okkar niðurstaða að sitja hjá við þetta mál.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða meira um þetta mál að sinni, en ég vænti þess, að það gefist tækifæri til þess að ræða frekar um það, því að ég tel þá aðferð, sem hæstv. ríkisstj. hafði í Ed., fullkomlega óverjandi og óþinglega. Hún var sú, að eftir að fulltrúar annarra flokka en stjórnarandstöðunnar höfðu talað, létu ráðh. eða aðrir fulltrúar stjórnarflokkanna ekki neitt til sín heyra. Ég álít, að þeir eigi ekki aðeins að sýna andstæðingum sínum heldur einnig þinginu þann sóma að svara þeirri gagnrýni, ef þeir treysta sér til þess, sem kemur fram í sambandi við meðferð þessa máls. Ég er ekki viss um, að það verði heldur neitt til þess að greiða fyrir framgangi málsins eða stuttum umr. hér í þinginu, ef ríkisstj. ætlar að halda áfram þessari siðvenju í sambandi við þessar umr. Jafnvel þó að ríkisstj. telji málið aðkallandi, á hún að ástunda þingleg vinnubrögð eigi að síður um meðferð málsins. Það eru óþingleg vinnubrögð, sem hæstv. ráðh. hafa í Ed. í sambandi við þetta mál og hafa oft haft í sambandi við önnur svipuð mál á undanförnum árum, þegar þeir halda aðeins sínar stuttu framsöguræður, síðan tala andstæðingarnir og ekkert heyrist meira af hálfu ráðh. Þeir reyna þannig að kæfa allar umr. niður. Ég held, að slík vinnubrögð þekkist hvergi á þingi nema hér. Einstaka sinnum kemur það að vísu fyrir, og það er helzt forsrh., sem beitir þeirri vinnuaðferð, að eftir að andstæðingarnir hafa talað, tekur hann til máls og talar það, sem eftir er af fundartímanum. Síðan er málinu frestað. Þetta á sérstaklega við um mál, sem stjórnarandstæðingar flytja, og málið oft og tíðum ekki tekið til umr. meir. Ég veit ekki dæmi til þess, að nokkur ríkisstj. hagi sér í þessum efnum eins og hæstv. ríkisstj. gerir. Ég skal taka það fram, að það er einn ráðh., sem er undantekning í þessum efnum, og það er rétt að geta þess vegna þess, að honum ber viðurkenning fyrir það, það er hæstv. landbrh., Ingólfur Jónsson. Ég minnist ekki annars en, ef um mál er að ræða, sem hann flytur hér, að hann taki fullan þátt í umr. um þau lög eins að hann ræði mál, sem koma fram af hálfu andstæðinganna og snerta þau rn., sem undir hann heyra. En allir hinir ráðh. eru meira og minna brotlegir í þessu sambandi, og ég verð að segja, að mér finnst nú brot hæstv. sjútvmrh. vera einna mest, ef hann lætur sér nægja í sambandi við þetta mál að flytja stuttar málamyndaframsöguræður í báðum d. og segja svo ekki neitt meira um málið, svara engu þeim ádeilum og þeirri gagnrýni, sem kemur fram af hálfu andstæðinga hans, heldur reynir að þegja málið í hel. Ef slík vinnubrögð verða höfð í þessu máli áfram, þá verður það áreiðanlega ekki til þess að greiða fyrir því, að það verði hægt að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna í framtíðinni um það að stytta umr. um mál, eins og nú hefur verið gert, því að það er það minnsta sem hægt er að ætlast til, þegar slíkt samkomulag hefur verið gert og stjórnarandstæðingar halda sínum málflutningi mjög í skefjum hvað tímann snertir, að þeim sé þá svarað aftur af hálfu ríkisstj. Ég vil þess vegna vænta þess, að hæstv. sjútvmrh. hafi annan hátt á hér í þessari d. en í Ed., og ræði við okkur um málið. Það þarf ekki að tefja það neitt. Það er ekkert meira fyrir okkur að vera hér kannske fram undir 5 eða 6 en fyrir sáttanefndina, sjómennina og útgerðarmennina, sem voru hér til 8–9 á morgnana og það á ekki neitt að þurfa að vera til trafala fyrir framgang þessa máls, sem ríkisstj. leggur svona mikla áherzlu á, en það á hins vegar þó að hafa þann kostinn í för með sér, að málið fær þó sæmilega þinglega meðferð.