17.02.1969
Neðri deild: 46. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Hér er mikið alvörumál á ferðinni. Það er í fyrsta lagi það, að það verkfall. sem nú hefur staðið nokkuð framyfir einn mánuð á bátaflotanum, er að sjálfsögðu þjóðarbúinu, sjómönnum og verkafólki þessa lands mjög mikið alvörumál. En það er þessi lagasetning ekki síður, sem hér er á döfinni. Með þessu frv. er lagt til, að samningsfrelsið og verkfallsrétturinn verði tekinn af þeim hluta verkalýðshreyfingarinnar, sem enn á í vinnudeilu, þ.e.a.s. samtökum yfirmanna á bátaflotanum. Þetta liggur beint við og er það, sem gera á. Þegar um svo mikið alvörumál er að ræða, sem hvort tveggja er, sem ég nú hef nefnt, þá er náttúrlega nauðsynlegt að gera sér alveg ljósa grein fyrir því, hverjar séu orsakir þess, að svo alvarlega horfir.

Ég ætla ekki að ræða hér langt mál um efnisatriði þessa máls í heild. Það hefur svo rækilega verið gert af hv. 4. þm. Austf. að ég tel ekki, að þar sé þörf á við að bæta. En það verður hins vegar aldrei of oft fram tekið, að orsökin fyrir þessari deilu og því, hvernig nú er komið og þeirri lagasetningu, sem hér er til umr.. eru þær aðgerðir ríkisvaldsins og Alþ. í haust í sambandi við gengisfellinguna að raska hlutaskiptum sjómanna. eins og þá var gert. Þetta er grundvallarorsökin. Það hefði ekki komið til þessara deilna eða átaka, ef þetta skref hefði ekki verið stigið. Þess vegna er alrangt að skella skuldinni á samtök sjómanna, hvort heldur er yfirmanna eða undirmanna á bátaflotanum, varðandi það hvernig málum er komið. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er einfaldlega um, að lögþvinguð verði kjör yfirmanna á bátaflotanum og verkfall þeirra bannað. Þetta tvennt er innihald frv. um leið og á að löggilda og lögfesta þá tillögu sáttasemjara, sem samtök yfirmanna hafa ekki fallizt á. Þessi aðgerð af hálfu ríkisstj. er ekki neitt nýtt fyrirbæri. Við þekkjum þess ákaflega mörg dæmi í valdatíð núv. hæstv. ríkisstj., að þessum aðferðum hefur verið beitt. Þær eru ekki orðnar margar starfsstéttirnar í þjóðfélaginu, sem ekki hafa fengið að kenna á slíkum valdbeitingum, allt frá verkamönnum til verkfræðinga, lækna o.s.frv. Þetta hefur sem sagt verið iðkað má segja nærri árlega og stundum oft á ári í valdatíð núv. ríkisstjórnar.

Í grg. þessa frv. segir, að atvinnuleysi það, sem nú er í landinu, stafi fyrst og fremst af yfirstandandi verkföllum á bátaflutanum, og til þess að firra þjóðina þessu neyðarástandi. þá sé þessi lagasetning réttlætt. Að sjálfsögðu þarf engum blöðum um það að fletta, að það væru margir menn í vinnu, sem nú eru ekki í vinnu, ef verkfallið væri ekki á bátaflotanum. Það er náttúrlega alveg augljóst. En ég held. að það sé ákaflega hættulegt. ef menn halda, að atvinnuleysismálin hjá okkur núna séu svo auðveld, að þó að þessu verkfalli ljúki, þá sé þeim málum lukið. Menn, sem hugsa á þann hátt, sem þessi tilvitnun í grg. frv. gefur sannarlega tilefni til að halda, að ríkisstj. geri, ja, þeir menn eru áreiðanlega alveg á rangri leið, hvað varðar atvinnuleysismálin. Það er að vísu rétt, að í hreinum verstöðvum, þar sem bókstaflega er ekki um neitt annað að ræða en sjósókn og fiskvinnslu, þar munu auðvitað verða algjör skil, ef verkfallið leysist, en það eru miklu fleiri atvinnuleysingjar í landi voru en svo, að þeim verði borgið með lausn þessa verkfalls. Ég ætla ekki að ræða þau mál frekar núna, en ég vil alvarlega vara við því, ef menn telja að atvinnuleysismálin leysist við það að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir. Atvinnuleysið, sem nú ríkir hér í landinu, er allt annað og meira en það, að hægt sé að leysa það á svona auðveldan hátt.

Í þessari grg. segir enn fremur, að mikill meiri hl. þeirra manna, sem á bátaflotanum starfa, hafi samþ. þá lausn deilunnar, sem í sáttatill. felst. Ég held, að þetta sé ákaflega hæpin fullyrðing, svo að ekki sé meira sagt, enda kom það fram hjá hæstv. ráðh. í hans framsögu hér í kvöld, hann einmitt sagði þvert á móti, að það væri þátttökuleysið í lausn þessarar deilu af hálfu sjómannanna, sem væri aðaleinkennið og væri mál til íhugunar. Ég er honum algjörlega sammála um það, að það er sannarlega mál til íhugunar, það er einmitt þátttökuleysi sjómannanna varðandi lausn þessara mála, sem er mest áberandi. Í félögum yfirmanna var þátttakan mun meiri, en það er áreiðanlega rangt, að meiri hl. yfirmanna á bátaflotanum, þó að það sé einvörðungu átt við þá, hafi samþykkt þá lausn, sem í þessu frv. felst, þ.e. sáttatillöguna, og áreiðanlega ekki heldur í samtökum undirmanna. Kannske hefði það staðizt, ef sagt hefði verið, að meiri hl. þeirra félaga, sem eiga samningsaðild, hefðu samþykkt það, en að halda því fram, að meiri hl. þeirra manna, sem á bátaflotanum starfa, eins og sagt er í grg. frv., hafi samþ. það, tel ég algjörlega rangt. Hæstv. ráðh. sagði einmitt, að meiri hl. hefði ekki tekið afstöðu til málsins, nokkrum sekúndum síðar sagði hann, reyndar í sömu ræðu, að meiri hl. hefði samþykkt sáttatill. Hið fyrra er rétt, hið síðara rangt, enda mótsögn algjör í þessum orðum. Okkur er sagt, að þetta mál sé komið í algjöra sjálfheldu. Það má vera, að málið sé ekki auðvelt til lausnar, þó er mér nær að halda, að ef virkilega hefði verið alvarlega reynt að leysa málið, hefði það mátt takast, og að sjálfsögðu hefði fyrir löngu síðan átt að setja sáttanefnd í þessa vinnudeilu, þ.e. vel skipaða sáttanefnd sem hefði haft það verkefni að leysa deiluna. Ef það hefði verið gert, þá er ég alveg sannfærður um, að það hefði tekizt. Ég er einnig sannfærður um það, að ef á laugardaginn eða núna fyrir helgina, — en það er ekki nokkur vafi á því, að hæstv. ríkisstj. hefur þá verið búin að taka ákvörðun um að lögbinda sátiatillöguna, — hefði verið farið í málið á þann veg, þá hefði einnig verið hægt að leysa það.

Það er enginn efi á því, að ef við ætlum að lifa í þessu landi okkar, þá verðum við að gera okkur ljóst, að við verðum að launa fiskimenn okkar vel. Ég skal ekki segja nákvæmlega, hve stór mannaflinn er á fiskibátum þeim, sem þessi deila hefur snert. Ætli þeir séu mikið yfir 2 þús.? Það er verið að láta það vefjast fyrir, hvort þessir menn eigi að fá aðild að lífeyrissjóði eða ekki. Hvað ætli opinberir starfsmenn séu mörgum sinnum fleiri en þessir fiskimenn? Ætli þeir séu ekki þrisvar sinnum fleiri eða meira en það? Ekki er ég að telja eftir, að þeir hafi lífeyrissjóð og það verðtryggðan lífeyrissjóð, sem kostar ríkissjóð margar millj. á ári hverju auk beinna greiðslna, iðgjaldagreiðslnanna. En ef við höfum efni á þessu við hæst launuðu embættismenn í landinu, þá hefðum við átt að bjóða fram lífeyrissjóðinn til fiskimannanna fyrir löngu síðan. Þetta eru mennirnir, sem standa undir grundvellinum að lífskjörum okkar allra í landinu, og ef síðan á að vera að telja svona hluti eftir, hvar lendum við þá? Ef við ekki getum tryggt það í sæmilegu árferði, — núna er kannske allt hægt, þegar menn neyðast til að taka hverju sem er, — að við fáum úrvalsmenn á bátaflotann, þá er ilta komið fyrir okkur.

Almennt verkafólk í þessu landi hefur aldrei talið eftir eða séð ofsjónir yfir þeim tekjum, sem sjómenn hafa haft, þegar bezt hefur gengið hjá þeim. Það eru hins vegar ýmsir aðrir, og kannske margar hálaunastéttir þessa lands, sem hafa gjarnan borið sig saman við hæstu tekjur sjómanna og náð fram mikilli hækkun á sínum kjörum, en það er ekki verið að líta á það, að þó að þessir menn hafi góðar tekjur eitt árið, geta þær farið niður í lágmark tekna annað árið. Það er ekki verið að miða við það. Síðasta Alþýðusambandsþing, sem fór fram í lok nóvember í haust, gerði mjög ákveðnar samþykktir varðandi aðstöðu sjómannanna og þá árás. sem þá var búið að gera, eða var um það bil verið að gera, á hlut sjómannanna. Það væri hægt að lesa þetta hér upp, ég ætla ekki út af fyrir sig að gera það, en þar var mjög skýrt að orði kveðið og sagt, að barátta sjómannanna væri jafnframt barátta allra stéttanna og ég hygg, að á því sé engin breyting. Það er náttúrlega ekkert vafamál, að við viljum allir saman lausn þessa verkfalls, og það er alveg sjálfgefinn hlutur, að það þyrfti að hafa verið búið að leysa það fyrir löngu síðan, en ekki á kostnað sjómannanna, það á ekki að gera það. slíkt er hættulegt bæði núna og upp á seinni tímann.

Grundvallarsjónarmið verkalýðshreyfingarinnar er, að það eigi ekki að leysa vinnudeilur með lögþvingunum, og verkalýðshreyfingin lítur á sérhverja slíka árás eða aðgerð gagnvart hinum minnsta hópi sem árás á verkalýðshreyfinguna í heild. Síðasta Alþýðusambandsþing talaði enga tæpitungu í þessum efnum, það var ákaflega fjarri því. Það sagði meðal annars, ef ég man rétt, að algjört skilyrði fyrir því, að Alþýðusambandið hugsaði sér að starfa með ríkisstj. og atvinnurekendum að atvinnumálum og að tryggja atvinnuöryggi í landinu, væri það, að fyrir lægju alveg óyggjandi yfirlýsingar og trygging fyrir því, að lögþvingunum yrði ekki beitt gagnvart verkalýðshreyfingunni, og fleira í þessum dúr. Hæstv. sjútvmrh. sagði hér í ræðu sinni, að nú væri mikil nauðsyn að bera klæði á vopnin, ja, hann hefði nú mátt sjá það fyrr, að slíkt væri nauðsyn, og fyrst og fremst að beita ekki þeim bitvopnum, sem hér hefur verið beitt af hálfu ríkisvaldsins, fyrst og fremst það, að það er ákaflega skakkt að halda það, að þetta frv. sé til þess fallið að bera klæði á vopnin. Ég er sannfærður um, að það hefur einmitt þveröfug áhrif. Það mun fyrst og fremst valda biturleik og hefndarhug þeirra, sem nú telja sig órétti beitta, og það er öll verkalýðshreyfingin, með slíkum lögþvingunum, sem hér er verið að fikta við.

Verkalýðsfélögin eru nú að undirbúa baráttu sína fyrir áframhaldandi verðtryggingu á kaup, og þar eru sjómannasamtökin einnig með, það er ekkert síður þeirra mál en annarra. Við vonum náttúrlega, að það komi ekki til verkfalla í sambandi við þá sjálfsögðu kröfu, sem verkalýðshreyfingin þar gerir. En verði nú svo á móti von okkar, að til þess þyrfti að grípa, hvar eru þá samtök sjómanna stödd eftir samþykkt þessa frv.? Stór hluti af sjómönnum er einvörðungu upp á kauptryggingu. Kaup hefur nú þegar frá gengisfellingunni í haust lækkað um full 10%. Það er náttúrlega óhugsandi að þetta haldi áfram, það er gert ráð fyrir, að þetta verði kannske upp í 20% á tiltölulega skömmum tíma. Það þarf náttúrlega enginn að gera sér í hugarlund, að verkalýðshreyfingin uni slíku til lengdar. Þetta er ekkert síður mál sjómanna þeirra, sem nú á að lögbinda, og ég spyr, hvar eru þeir á vegi staddir? Er ætlunin með þessu frv., að samtök sjómanna hafi ekki rétt til þess að beita verkfalli, til þess að fá vísitölu á sitt kaup, er það ætlunin? Ég óska svars áður en lýkur.

Lagasetningin í nóvember var ógæfuspor, eins og hér var sagt áðan. Þetta frv. er í rauninni alveg sama eðlis, og mundi verða enn eitt ógæfusporið, og þess vegna ber að fella það.