17.02.1969
Neðri deild: 46. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Til þess hefur nú verið mælzt, að ég léti til mín heyra í þessum umr. dálítið frekar en ég hef gert, og skal ég reyna að vinna úr þeim umr., sem hér hafa farið fram, og ég hef reynt að ná aðalatriðunum úr því, sem ég tel, að helzt þyrfti að ræða frekar, eða ég vildi gera mínar athugasemdir við.

Það er ekki rétt eftir mér haft. að ég hafi sagt það sem staðreynd, að það væru smámunir, sem milli aðila bæri. Ég sagðist hafa séð það haft eftir deiluaðilum, að þeir telji nú vera smámunalega lítið bil á milli sín. Þetta orðalag mun ég hafa haft, þegar ræðan var skrifuð.

Ég skal engan dóm leggja á það, hvað langt bil var á milli deiluaðila. Það er ágreiningur um það. Samningsaðilum ber ekki saman um, hve langt bil hafi þarna verið. Hins vegar mun það alveg rétt. að nú við lok síðasta fundar deiluaðila hafi því verið lýst yfir, að það þyrfti að byrja deiluna upp að nýju, þar sem málin væru komin í þá sjálfheldu, sem þau virtust vera í. Þetta er a.m.k. eftir deiluaðilum haft, hvort sem það er rétt eða rangt, en hins vegar var það allra manna mál, sem ég hafði samband við í þessari deilu, að málið væri í algerri sjálfheldu og óleysanlegt, þrátt fyrir það, að báðir aðilar hafa sjálfsagt valið sitt bezta lið í þessa samninga, og ég efast ekki um, hvað sem öllum fullyrðingum hv. stjórnarandstæðinga líður, að þessir aðilar báðir hafa lagt sig alla fram til að ná samkomulagi í þessari deilu. Það er það alvarlegt mál fyrir báða þessa aðila, að slík deila standi lengi, og þar veit ég, að hvorugur hefur af sér leift í því efni. Og þá er heldur ekki að efast um það, af langri reynslu af starfi sáttasemjara, að hann hefur gert sitt ýtrasta til að lausn mætti fást. Það er því ekki fyrr en þessi sund lokast, að ríkisstj. tekur þá ákvörðun að flytja það frv., sem hér liggur fyrir. Það hefur verið bent á ýmislegt í aðdraganda þessarar deilu, sem talið er, að ríkisstj. eigi sök á, m.a. því, að hún hafi látið, eins og sagt var hér áðan, oddamann verðlagsnefndar neita að afgreiða fiskverð. Þetta er ekki rétt, því að sannleikurinn er sá, að þetta var samkomulag milli þeirra aðila, sem í yfirnefndinni eiga fulltrúa.

Þá er það einnig fullyrt, að með 500 kr. á skipstjóra og stýrimann mætti leysa þessa deilu. Af þeim tölum, sem birtar hafa verið í blöðum um úrslit sáttatilraunanna, var það þó ljóst, ef þær eru réttar, — maður efast nú um ýmislegt í þessum blessuðum blöðum, jafnvel þó að góðir og gáfaðir menn stýri þeim, — að andstaðan við sáttatillöguna var ríkust í vélstjóraliðinu. Ekki hefðu 500 kr. á skipstjóra og 500 kr. á stýrimann í hækkuðu fastakaupi leyst vanda vélstjóranna! (Gripið fram í: Hvaða útúrsnúningur er þetta?) Ég er nú hér að svara ræðum úr þingsalnum, þannig að ég vildi nú hafa frið til þess.

Þá er því enn fremur haldið fram, að það hefði orðið til stórra bóta í deilunni, ef skipuð hefði verið á fyrri stigum hennar sáttanefnd, og hv. þm. Hannibal Valdimarsson sagði hér áðan, að þetta væri vanræksla af hálfu ríkisstj. og þá fyrst og fremst mín. Þetta mál var á sínum tíma allmikið rætt, og það var líka mat manna þá í þeim umræðum, að það mundi engin áhrif hafa á gang málanna, svo að það er engin vanræksla, að það mál hafi ekki verið vandlega íhugað.

Hv. 4. þm. Austf. sagði, að ríkisstj. hefði átt að leggja hér nokkuð fram, ég hygg, að hann hafi átt þar við fé, til lausnar þessari deilu. Það hefur verið deilt allríkulega á ríkisstj. fyrir það, og ekki sízt við umr. um sjávarútvegsmálin hér á s.l. hausti, að hún byggi svo illa að íslenzkum sjávarútvegi. að hann væri ekki aflögufær um að hækka kaup til sinna manna. Ekki fór það þó á milli mála, að með þeim ráðstöfunum, sem var verið að gera í haust, þá var verið að færa peninga yfir til útgerðarinnar, sem hún hafði ekki haft áður, og bæta þar með rekstrargrundvöll flotans. Og það er alveg víst, hvað sem öllum fullyrðingum í þeim efnum líður, að ef þær ráðstafanir hefðu ekki verið gerðar á s.l. hausti, þá hefði flotinn ekki verið stöðvaður nú af áhöfnunum, yfirmönnum og undirmönnum, hann hefði verið stöðvaður af útgerðarmönnum sjálfum, og þess vegna jafnlítil atvinnutæki fyrir mannskapinn eins og um vinnudeilu væri að ræða. Það var alveg sannfæring allra þeirra, sem köfuðu í hag útgerðarinnar, að fram hjá þeim uppskurði, sem hér hefur verið nefndur, varð ekki komizt. Menn gátu deilt um það með hvaða hætti hann ætti að eiga sér stað, en þessa fjármuni varð útgerðin að fá, ætti að vera hægt að reka hana.

Þá hefur það verið sagt hér, sem ég get fyllilega tekið undir, að þótt bátaflotinn fari nú af stað, þá sé ekki búið að leysa öll atvinnuleysisvandamálin. Mér er það fyllilega ljóst, að svo er ekki, þrátt fyrir það, að það takist með þessari lagasetningu. Það eru mörg önnur mál, sem bíða úrlausnar, en öll hvíla þau á því, að útvegurinn gangi, og alla vega er það langstærsti liðurinn í því að útrýma atvinnuleysinu eða draga úr því, að flotinn geti farið af stað. Það fer ekkert á milli mála.

Hv. 2. landsk. þm. óskar eftir svari mínu um það. hvort fyrirbyggja ætti með lögum þessum, að sjómenn fengju vísitöluuppbætur, ef þær yrðu greiddar á laun verkafólks í landi með einhverjum hætti. Er það ekki rétt? (Gripið fram í: Nei, hvort þeir hefðu verkfallsrétt til að ná því fram.) Hvort þeir hefðu verkfallsrétt til að ná því fram, var það spurningin? Samkv. lögunum hafa þeir það ekki. Mér sýnist það alveg augljóst af því að lesa þau. En hins vegar er svo með vísitöluuppbætur til sjómanna, áð þær hafa alltaf verið greiddar eftir á. Uppistaðan í þeirri hækkun, sem nú verður á fiskverðinu, eru þær vísitöluuppbætur, sem landverkafólk var búið að fá áður.

Allir ræðumenn hafa komið inn á það, að það væri hreint neyðarúrræði að leysa deilur sem þessar og reyndar allar deilur með löggjöf. Ég tek fyllilega undir það og þóttist undirstrika það nokkuð í minni framsöguræðu, að hér er um hreint neyðarúrræði að ræða.

Hér er hreinn voði á ferðum, sem einhverja lausn þarf að fá á, og ég verð að segja, að það eitt að segja, að löggjöf sé óhafandi og ófær, eins og hún er borin fram, það dugar ekki, það verður þá að benda á aðrar jafnhaldgóðar leiðir til úrlausnar vandanum. Það hafa hv. stjórnarandstæðingar veigrað sér við að gera. Það var nákvæmlega það sama, sem skeði við afgreiðslu sjávarútvegsmálanna hér í haust. Það var marglýst eftir því með hvaða hætti öðrum ætti að leysa þann vanda, sem þá steðjaði að. Tillögur í þeim efnum fengust ekki.

Svo að lokum, þá skal ég aðeins svara fsp. hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar um það, hvort það hafi ekki verið þung spor fyrir mig að flytja þetta frv., og vitnaði þá sérstaklega til fortíðar minnar í verkalýðsmálum. Þessi ágæti þm. hefur nú ritstýrt flokksblaði sínu um langt árabil, og ég minnist þess nú ekki að hafa fengið þann lofgjörðarpistil um sjálfan mig, sem hann hafði hér uppi um mig áðan, á meðan ég var og hét í verkalýðshreyfingunni. Ég vissi ekki annað en að allverulegu rúmi af því blaði væri þá daglega eytt í það að útskýra, hverslags voðagripur þarna væri á ferðinni. Nú segir þessi hv. þm., að ég hafi notið þarna mikils trúnaðar og trausts, en það kom þá úr öðrum áttum en hans blaði. Ég skal fyllilega viðurkenna það, að það voru ekki létt spor að flytja þetta frv., en ég held, að hin sporin hefðu verið þyngri að sitja aðgerðarlaus og hafast ekki að, svo mikið sem í húfi er.