17.02.1969
Neðri deild: 46. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þó að ég sé nokkuð oft sammála sessunaut mínum, hv. 6. þm. Reykv., þá gat ég ekki gert að því að hvísla að honum, þegar hann lauk hér að ýmsu leyti ágætri ræðu áðan, að ég væri honum ekki að öllu leyti sammála, a.m.k. ekki einu atriði í ræðu hans. Þetta atriði var það, að ríkisstj. fylgdi mjög ákveðinni stefnu, vissi sjálfsagt, hvað hún vildi og stefndi alveg að ákveðnu marki. Mér finnst nú hins vegar það um hæstv. ríkisstj., að hún hafi ekki neitt ákveðið stefnumark og hún viti yfirleitt ákaflega lítið. hvað hún er að gera og þess vegna sé hún að leiða þjóðina út í meiri og meiri ófæru án þess að gera sér grein fyrir því. Þetta stafar ekki af því, að hæstv. ráðh. séu neitt illa meinandi menn, heldur þvert á móti. Ég tel alveg víst um þá eins og ráðh. yfirleitt, að þeir vilji gera sitt bezta og hljóta þakklæti og góða dóma fyrir sín störf. En það, sem er að hjá hæstv. ráðh. er það, að þeir hafa ekki næga þekkingu, næga reynslu á atvinnumálum og næga dómgreind til að gera það, sem rétt er og þarf að gera, heldur stefna þeir alltaf með sínum aðgerðum meira og meira út í ófæruna. Þess vegna er orðið nákvæmlega sami hátturinn á hjá hæstv. ríkisstj. og þar sem verst hefur gengið annars staðar. Hér er að verða nákvæmlega sama ástandið og var hjá Þjóðverjum eftir fyrri heimsstyrjöldina, þegar hver gengisfellingin fylgdi annarri, peningarnir voru alltaf að lækka og allt stefndi út í meiri ófæru af þeim ástæðum, eða hjá Frökkum fyrstu árin eftir síðari heimsstyrjöldina, þegar þeir lækkuðu gengið átta sinnum á 6 árum eða eitthvað þar um bil og sem endaði með því, að þeirra stjórnarkerfi sprakk, og þeir urðu að taka upp hálfgert einræðisstjórnarfar til að komast út úr erfiðleikunum. Og það er nákvæmlega það, sem er að gerast hér. Ríkisstj. er algerlega áttavillt og ráðvillt, reynir að lifa með einhverjum bráðabirgðaaðgerðum frá degi til dags. gengisfellingum og öðru slíku, og eftir hverja ráðstöfun, sem hún gerir, þá er vandinn alltaf jafnmikill og hann var áður, alveg eins og hv. seinasti ræðumaður var að lýsa hér, og þrátt fyrir allar þær miklu efnahagsaðgerðir. sem stjórnin þykist vera að gera núna. þá er vandinn engu minni en áður var.

Hið sama gerðist á seinasta hausti, haustið 1967. Þá var ráðizt í gengislækkun og aðalbankastjóri Seðlabankans lýsti því yfir, að nú ætti að vera allt í lagi. Það væri búið að tryggja nokkuð varanlega lausn efnahagsmálanna. Niðurstaðan varð sú, að tæpu ári seinna var talið, að það þyrfti að gera enn þá meiri gengislækkun en hina fyrri. Ég er alveg sannfærður um það, eins og hv. seinasti ræðumaður, að það á ekki eftir að líða langur tími þangað til að við lendum í sömu erfiðleikunum aftur eða vandanum og var hér á s.l. hausti og það verði að gera nýjar ráðstafanir. Þetta er vegna þess, að hæstv. ríkisstj. hefur enga stefnu. Hún veit ekkert, hvað hún er að fara. Það veit eiginlega enginn. hvert hún er að fara nema það, að hún er að fara út í meira og meira öngþveiti, og allra sízt er það ríkisstj. sjálf, sem veit hvað hún er að fara. Og hafi ég verið í einhverjum vafa um þetta áður, þá sannfærðist ég fullkomlega um það, þegar hæstv. forsrh. var að tala hér áðan, því að þar kom fram á sjónarsviðið maður, sem bersýnilega vissi ekki nokkurn skapaðan hlut um það, sem hefur verið að gerast í landinu á undanförnum mánuðum.

Forsrh. sagðist kannske geta viðurkennt það núna, að lagasetning Eggerts G. Þorsteinssonar á s.l. hausti um að skerða kjör sjómannanna hafi orðið til þess að setja þrjózku í málið, og þess vegna hafi deilan orðið torleystari en ella. Loksins sá hann það. Það þurfti eiginlega stöðvun flotans í 50 daga, til þess að forsrh. gerði sér grein fyrir þessu. Þó stóð hér upp hver maðurinn á fætur öðrum á s.l. hausti, þegar þetta mál var til meðferðar og skýrði ráðh. frá því, að þetta mundi leiða til vandræða, þetta mundi valda stöðvun á flotanum. Nei, forsrh. sá það ekki þá, enn síður viðskmrh., sem er nú samt hans leiðarstjarna í efnahagsmálum. Enginn ráðh. sá þetta. Það var sama hve margir sögðu þeim frá þessu, og þess vegna gönuðu þeir út í ófæruna. Núna, þegar flotinn er búinn að vera stöðvaður í nær 50 daga eða það sem af er þessu ári, gerir forsrh. sér loksins grein fyrir því, að þessi lagasetning hafi nú eitthvað orðið til þess að setja þrjózku í málið og gera deiluna torleystari en ella.

Þetta er glöggt dæmi um það, hvernig þessi hæstv. ríkisstj. vinnur og hvað hún fylgist með í málunum og gerir sér mikla grein fyrir þeim. Enn þá aumari var sú lýsingin. þegar forsrh. fór að lýsa því, hvernig þetta hefði nú verið, þegar verkfallið hófst, og sjútvmrh. í raun og veru líka. Sjútvmrh. sagði það, að þeim ráðh. hefði verið sagt það, og forsrh. endurtók það, af deiluaðilum, að það væri sáralítið, sem bæri á milli. það væru smámunir. Forsrh. sagði, að þetta hefði verið svo lítið, að það hefði varla verið hægt að festa hendur á því, sem bar á milli. Ráðh. trúa því, eftir því, sem þessir ráðh. lýsa sjálfir, að það sé sáralítið, sem ber á milli og deilan muni leysast á morgun eða hinn daginn, og þess vegna þurfi þeir ekki að gera neitt. Svo stendur bara deilan í 45 daga, eða er raunverulega búin að standa það, því að flotinn hefur verið stöðvaður að mestu síðan um áramót. Þetta eru vinnubrögðin. Þetta er skilningurinn. Svona fylgir stjórnin málunum, og er von, að vel fari, þegar við búum við slíka ráðsmennsku.

Ég minnist þess ekki hér í þingi, og hef ég fylgzt sem fréttamaður með þingstörfum miklu lengur en ég hef verið hér þm., að hafa séð forsrh. standa hér upp og gefa aðra eins lýsingu á sjálfum sér og sinni stjórn og hæstv. forsrh. gerði hér áðan, að hann hafi enga grein gert sér fyrir því á s.l. hausti, að lagasetningin þá mundi leiða til stórfelldra átaka, en núna sjái hann það þó loks eftir þetta langa verkfall, að lagasetningin muni hafa sett þrjózku í málið. Og svo hitt, að í þessa 48 daga, sem liðnir eru síðan um áramót og deilan hefur raunverulega staðið, þá hafi stjórnin alltaf trúað því, að þetta væru bara smámunir, sem bæri á milli, þess vegna mundi deilan leysast og stjórnin þyrfti ekki að gera neitt. Loksins eftir þetta langan tíma, þegar þjóðin er búin að tapa svona 500–600 millj. kr. á verkfallinu, virðast þeir fyrst gera sér grein fyrir því, að eitthvað sé að og eitthvað þurfi að gera.

Nei, slík ríkisstj. dæmir sig svo sjálf, að það þarf ekki mörgum orðum um það að fara.

Það, sem ég ætla að segja að lokum, vegna þess að ég ætla ekki að tefja þessar umr., er að svara fsp., sem kom fram hjá hæstv. sjútvmrh. Hann taldi sig geta státað af einhverju áðan, er hann sagði: „Við leggjum þó til, að deilan sé leyst svona, eins og bessi lög gera ráð fyrir, en stjórnarandstæðingar, hvað gera þeir? Hver er þeirra tillaga? Standa þeir ekki bara alveg ráðalausir gagnvart þessum vanda?“ Mitt svar er það, að jafnvel þó að okkur takist með þessari vandræðalöggjöf, sem hér er verið að vinna að, að koma flotanum á stað, þá leysir það ekki vandann nema að sáralitlu leyti. Aðalvandinn er óleystur eftir sem áður, og hann er sá, að það þarf að gerbreyta stjórnarstefnunni, taka upp allt aðra starfshætti en þá, sem við höfum fylgt á undanförnum árum. Það þarf að fá ríkisstj., sem fylgist með málum og gerir sér grein fyrir málum, en vaknar ekki eftir dúk og disk, eins og kom fram í ræðu hæstv. forsrh. Það, sem þarf að gera núna, er fyrst og fremst það, að það á að rjúfa þingið og efna til nýrra kosninga og gefa þjóðinni tækifæri til að skipta um stjórn og taka vandamálið fyrir alveg að nýju og breyta um stefnu. Þetta er það, sem við leggjum til, og ef hæstv. ráðh. trúa alveg á það, að það sé rétt, sem þeir eru að gera og þeir geti sannfært þjóðina um það, hvers vegna gera þeir það þá ekki? Ef þeir ynnu í kosningum, mundu þeir standa miklu sterkari eftir en áður til að gera það, sem þeir vilja. Ef þeir tapa, hefur þjóðin kveðið upp sinn úrskurð og þá gefst tækifæri til þess að breyta um stefnu og taka upp önnur vinnubrögð.