18.02.1969
Neðri deild: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef skilað sérstöku nál., en það hefur ekki unnizt tími til að láta prenta það eða fjölrita, og ég vil því leggja það fram hér og afhenda hæstv. forseta það með ósk um, að hann sjái um, að það verði prentað og lagt hér fram, þó síðar verði. Niðurstaðan í mínu nál. er sú, að ég legg til, að frv. verði fellt, en ég vil svo gera hér grein fyrir minni afstöðu til málsins nánar, ef tími verður.

Ég verð að segja það, að mér þykir sú afstaða, sem fram kemur hjá fulltrúum Framsfl. harla einkennileg í þessu máli. Þeir halda hér gjarnan ræður, sem mjög fordæma öll þau vinnubrögð, sem við hafa verið höfð í þessu máli og lýsa í rauninni yfir fullkominni andstöðu við gerðir ríkisstj. í málinu, en þó verða lokaorðin þau. eins og þau voru mælt hér af talsmanni Framsfl. að þessu sinni, að þeir efist um, að það sé önnur leið út úr málinu en að samþykkja frv. ríkisstj. En það voru lokaorð þessa ræðumanns, sem hér talaði á undan mér. Afstaða mín gegn frv. hún mótast af því, að við Alþb.-menn lítum á þetta frv. sem mjög stórt og þýðingarmikið prinsipmál. Við teljum, að þær aðstæður séu ekki fyrir hendi, að það réttlæti að setja lögþvingun á í þessari kjaradeilu, sem hér er um að ræða. Við teljum, að það séu allar líkur, sem bendi til þess, að það hefði átt að vera hægt og það sé hægt að ná samkomulagi í deilunni með eðlilegum hætti, þar sem það er viðurkennt af flestum, að hér beri í rauninni ekki orðið mikið á milli, vegna þess að yfirmenn eins og undirmenn á skipunum hafa fallið frá miklum hluta af kröfum sínum, sem þeir lögðu fram á fyrra stigi málsins. Hins vegar er það alveg vitað, að þeirra viðsemjendur hafa sáralítið viljað ganga til móts við þá um leiðréttingar á þeirra kjörum, sáralítið. Það þýðir vitanlega ekki að reyna að neita því, að þau ákvæði, sem samið hefur verið um við undirmenn á skipunum um lífeyrissjóð, færa ekki sjómönnum miklar bætur fyrst um sinn, á þessu ári engar beinar bætur. Í þeim efnum leggja þeirra viðsemjendur ekki mikið fram.

Því er á sama hátt ekki hægt að neita, að um hitt samningsatriðið, sem var um greiðslu á fæðiskostnaði. er gengið mjög skammt til móts við kröfur sjómanna. Það er algjör misskilningur. sem hér hefur komið fram í þessum umr., að það hafi verið fallizt á það að greiða sjómönnum sem nemur hálfum fæðiskostnaði. Það er aðeins á yfirborðinu, sem það lítur þannig út. Það er e.t.v. hægt að segja, að það eigi að greiða þeim um það bil sem nemur hálfum fæðiskostnaði. en með þeim sérstaka hætti. að þeir borgi helminginn af þessum helmingi sjálfir. Þannig er það, að það er ekki verið að mæta kröfum þeirra í þessum efnum, nema sem nemur í mesta lagi 1/4 af fæðiskostnaði. Það sem verra er er það. að peningarnir, sem aflað er til þess að standa undir þessum greiðslum upp í fæðiskostnað, eru að talsverðu leyti frá öðrum sjómönnum, sem eiga ekki að njóta neinna réttinda úr þessum fæðissjóði. Það ú að skattleggja þá sjómenn, sem veiðar stunda á smábátum, bátum undir 12 rúmlestum að stærð, það á að láta þá borga í sjóðinn, en þeir eiga ekki að geta fenguð neitt úr honum. Það á einnig að láta togarasjómenn borga í þennan sjóð, en þeir fá heldur ekkert úr honum. Ég segi því, að í þessum efnum hefur verið gengið mjög skammt til móts við kröfur sjómanna, og ég er því ekkert hissa á því, þó fram komi kröfur um það hjá yfirmönnum á bátaflotanum, að þeir fái nokkra leiðréttingu á sínu fastakaupi, eða þá á lágmarkskauptryggingu, því það er alveg óumdeilanlegt, að kauptrygging þeirra hefur verið tiltölulega lág miðað við þeirra aflahlut. Þegar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að skerða aflahlutinn jafnfreklega og gert hefur verið, þá er ofur eðlilegt, að þeir, sem hafa byggt kaup sitt fyrst og fremst á aflahlut, eins og yfirmennirnir, geri nokkrar kröfur um að fá fastakaup sitt eða kauptrygginguna eitthvað hækkaða. Ég tel, að það hafi komið greinilega fram, að það eru allar líkur, sem benda til þess, að hægt hefði verið að ná samkomulagi við yfirmennina um eðlilega lausn á deilunni, ef sýnd hefði verið nokkur sanngirni frá hinum samningsaðilanum varðandi þessi sjónarmið þeirra.

Menn verða að gera sér grein fyrir því. að auðvitað hlýtur það að fara þannig í öllum vinnudeilum, að ef annar aðilinn er algjörlega staður og fæst ekki til að hreyfa sig, þá gengur seint að ná samkomulagi. Ég hef bent á það, að ástæðan til þess, að útvegsmennirnir í þessu tilfelli hafa verið svona staðir og ósanngjarnir að mínum dómi í samningaviðskiptum sínum við yfirmennina, eru ábyggilega þær, að þeir hafa greinilega vitað. hver var afstaða ríkisstj. í þessum efnum, en hún hafði gefið út þá stefnu sína áður, að það ætti að skerða kjör sjómannanna, eins og gert var ráð fyrir í löggjöfinni, sem sett var um þeirra málefni í desembermánuði. Útgerðamenn hafa bókstaflega treyst á það, að ríkisstj. stæði við bakið ú þeim, þar sem þeir neituðu að verða við sanngjörnum kröfum. og það hefur komið í ljós, að ríkisstj. vill lögfesta þeirra sjónarmið í málinu. Með þessu frv. er því samningsrétturinn í raun og veru tekinn af yfirmönnum á fiskiskipaflotanum. Það á að setja lög um það við hvaða kjör þeir eiga að búa.

Þetta álít ég mjög alvarlegt, og þá ekki síður, þegar þess er gætt. sem ég hef minnzt á, að kröfur þeirra voru tvímælalaust eðlilegar miðað við allar aðstæður, og þeir höfðu fallið frá miklu af sínum upphaflegu kröfum. Ég tel. að setning þessara laga sé mjög hættulegt fordæmi. Ég efast ekkert um það, að sú ríkisstj., sem nú kemur fram með frv. í þessa átt. hún er vís til þess að koma með hliðstæða löggjöf á verkalýðssamtökin í landinu og banna þeim að knýja fram eftir samningaleiðum í eða með verkfallsátökum vísitöluuppbætur á laun. Ríkisstj. hefur sömu rökin í þeim tilfellum eins og nú. Hún segir: Þjóðfélagið þolir það ekki. að efnt verði til verkfalla, og af því setjum við lög og bönnum ykkur að ganga eftir þessum réttindum. Hér er því vitanlega um stórt prinsipmál að ræða, sem verkalýðshreyfingin hefur hvað eftir annað gert samþykktir um, og það hefur ekki verið neinn vafi á því, hver hefur verið afstaða verkalýðshreyfingarinnar í þessum efnum. Eins og fram hefur komið hér í þessum umr., þá samþykkti m.a. síðasta Alþýðusambandsþing mjög harðorða yfirlýsingu í þá átt, að verkalýðshreyfingin neitaði með öllu að eiga nokkurt samstarf við ríkisstj., sem ætlaði sér að beita lögþvingunarleiðum. Það er full ástæða að benda hæstv. ríkisstj. á þessa yfirlýsingu frá síðasta Alþýðusambandsþingi, það er ekki öll nótt úti enn. Ríkisstj. mun enn þurfa að eiga ákveðin samskipti við verkalýðssamtökin í landinu, hún kemst ekki hjá því, og það getur orðið henni kostnaðarsamt að bregðast þannig við yfirlýsingum frá hálfu verkalýðshreyfingarinnar sem hún gerir raunverulega með þessu frv., en þar heldur hún sér enn þá við það að fara lögþvingunarleiðina.

Það er ofureðlilegt, að sjómenn, bæði undirmenn og yfirmenn, geri tilraunir til þess að fá breytt sínum launakjörum meira bæði í hlunnindaátt og eins í þá átt að tryggja sér hærra lágmarkskaup. Það leiðir aðeins af því. að ríkisstj. er greinilega að eyðileggja þann grundvöll. sem byggt hefur verið á í launamálum sjómanna til þessa, en það eru hlutaskiptakjörin. Það rekur eitt frv. annað, sem fer í þessa átt. Ég skal nefna hér nokkur atriði um það, hvernig fiskverðið er gert óeðlilegt með sérstakri löggjöf frá Alþ. Eins og hv. þm. kannast við, þá er nú komið í lög, að það skuli taka fyrst 10% af fiskverðinu, sem ekki kemur til skipta og rennur í Stofnfjársjóð fiskiskipa, til þess að borga afborganir og vexti af bátunum, en þó 20% þegar um síldarafla er að ræða. Þetta er ekki það eina, því þar að auki er svo tekið af því fiskverði, sem ákveðið hefur verið, 17%, sem ekki heldur á að koma til skipta, og afhent er útgerðarmönnum til að greiða upp í almennan rekstrarkostnað skipanna.

Það er til fleira af þessu tagi. Það er búið að taka af óskiptum afla til þess að greiða vátryggingarkostnað af skipunum. Sú upphæð, sem tekin er á þann hátt af fiskverðinu til þess að greiða vátryggingarkostnaðinn, mun orðið nema á milli 300 og 400 millj. kr. á ári. Það er einnig tekið með sérstökum skatti allhátt gjald af hinu almenna fiskverði í Aflatryggingasjóð, en Aflatryggingasjóður er samkv. lögum sjóður útgerðarmanna. Greiðslur úr honum ganga aðeins til útgerðarinnar. Þær greiðslur ganga ekki til skipverja, en tekjur sjóðsins eru fengnar með útflutningsgjaldi á sjávarafurðum, og á þann hátt er verið að velta greiðslum til sjóðsins yfir á herðar hlutamanna. Nýlega hefur verið myndaður sjóður. sem heitir Verðjöfnunarsjóður. Ef svo vill til, að fiskverð á erlendum markaði hækkar, þá má taka ákveðinn hluta af hækkuninni á fiskverðinu, leggja hann í ákveðinn sjóð. og ríkisstj. og þeir menn. sem hún hefur tilnefnt af hálfu útgerðarmanna, geta ráðstafað þessu fé. þannig að það komi ekki fyrr en eftir langan tíma inn í fiskverð. og kannske aldrei inn í fiskverð í viðkomandi grein. Þarna er einn skatturinn enn! Svo er nýjasta tiltækið þetta að leggja á enn nýtt útflutningsgjald til þess að greiða þennan margumtalaða fæðiskostnað.

Á þennan hátt er verið að leggja alls konar gjöld á sjávarútvegsframleiðsluna, sem öll verða til þess að halda fiskverðinu hér niðri og gera það óeðlilega lágt. Þetta kerfi er í eðli sínu stórhættulegt. auk þess sem þetta er líka óréttlátt, því að það var gengið út frá því, að sjómennirnir á bátunum ættu að eiga ákveðinn hundraðshluta af aflaverðmætinu, en ekki af aflaverðmæti, sem búið væri að stýfa með alls konar ráðstöfunum. Þetta verður til þess. að fiskverð hér verður algjörlega ósambærilegt við það, sem fiskverð er í nálægum löndum, því að enn þá hefur ekki verið ákveðið að þessu sinni verð á loðnu, þó að bátarnir séu nú að undirbúa sig til þess að fara að veiða loðnu, en ekki hygg ég, að það fari langt frá því, að verð á loðnu muni vera ákveðið núna eitthvað í kringum 60–70 aura, og heyrt hefur maður, að það yrði lægra, það mun hafa verið 41 eyrir síðast á kg. En hins vegar vitum við það, að verð á loðnu í Færeyjum er rétt aðeins tæpar 2 kr. fyrir kg. Það er nefnilega ofureðlilegt, að þegar okkar sjómenn sjá það, að það verð, sem þeir eiga að fá hér innanlands, er svona kannske helmingur eða ekki helmingur af erlenda verðinu, þá verði þeim nokkuð gjarnt á það að landa heldur erlendis. Að vísu hefur nú ríkisstj. reynt að sjá dálítið við því með því að leggja þá enn þá hærra gjald á þann afla, sem landað er erlendis. En eigi að síður mun þetta fara svona.

Við samanburð á þorskverðinu hér og t.d. í Noregi kemur út nokkuð svipuð mynd. Hér er um stórhættulegt fyrirbæri að ræða, og ég efast ekkert um það fyrir mitt leyti, að það mun draga til þess, m.a. vegna alls þessa fyrirkomulags, að sá fiskveiðifloti okkar, sem getur auðveldlega hreyft sig á milli landa, mun í vaxandi mæli stunda veiðarnar við önnur lönd og leggja þar upp afla sinn. Það er búið að brjála á þennan hátt allt verðlag hér. Þetta er vitanlega óeðlilegt. Fiskverðið átti að fá að koma út eins og efni stóðu til, og útgerðin átti að hafa aðstöðu til að borga sína rekstrarliði með eðlilegum hætti, en það átti ekki að velta kostnaðinum yfir í einhvern almennan sjóð, eins og gert hefur verið, því að áframhald á þessari stefnu leiðir auðvitað út í algjört öngþveiti.

Ég býst við því t.d., að næsti almenningssjóður, sem verður myndaður í þessum efnum, verði t.d. olíukostnaðarsjóður. Það verður lagt á útflutningsgjald, safnað peningum í einn stóran sjóð, og svo koma allir útgerðarmenn í landinu og segja: Ég vil fá borgaðan minn olíukostnað úr þessum almenna sjóði. — Á þennan hátt verður sá látinn borga alltaf langmest í olíukostnað úr sjóðnum. sem hefur aflað mest, því hann leggur auðvitað mest í sjóðinn. Svo kemur almennur veiðarfærasjóður, og svona verður haldið áfram. Það kemur auðvitað að því, að efnahagsráðunautar ríkisstj. átta sig á því, að þeir eru hér úti á glapstigum í þessum efnum, þeir eru á algjörum villigötum.

Ég hef hér, eins og hv. þm. hafa hlustað á. haldið margar ræður á hverju ári í sex ár um þá óhemjuvitleysu, sem væri fólgin í því fyrirkomulagi, sem hér hefur gilt á vátryggingarkerfinu. Ég hef ekki talið það eftir mér að halda þessar ræður, en það hefur ekki hnikað ríkisstj. til, fyrr en nú á þessu ári, að þá fékk ég að lesa eitt bréf. skrifað af Jónasi Haralz, þar sem hann segir. að um það sé ekkert að villast, að þjóðarbúið hafi tapað hundruðum milljóna á þessu vitlausa fyrirkomulagi. Hann er að byrja að rumska, en samt hefur hann ekki áttað sig betur á þessu en svo, að hann ætlar að leggja út í einn nýjan fæðiskostnaðarsjóð, sem er raunverulega byggður á sömu hugsuninni. En löngunin hjá ríkisstj. til þess að reyna að hafa hlut af sjómönnum í þessum efnum hefur verið svo mikil, að hún hefur farið þessa leið alltaf í vaxandi mæli.

Ég skal nú ekki flytja hér langt mál til viðbótar þessu, sem ég er búinn að ræða um þetta frv. Þó eru atriði í þessu samkomulagi, sem hefði verið nokkur ástæða til þess að fá hér frekari skýringar á, en ég býst þó varla við því, að þær skýringar fáist. Þegar ég t.d. las yfir það samkomulag, sem hér á að lögfesta varðandi lífeyrissjóðinn, þá tek ég eftir, að í upphafi þessa samkomulags segir: „Það er samkomulag samningsaðila, að þeir beiti sér fyrir því á árinu 1969, að bátasjómönnum verði með lögum tryggð aðild að Lífeyrissjóði togarasjómanna og að þeir aðilar beiti sér fyrir því, að settur verði upp lífeyrissjóður.“ Þá minnist ég þess, að ríkisstj. hafði eitthvað svipað orðalag um almenna lífeyrissjóðinn, þegar hún lýsti því yfir, að ríkisstj. ætlaði að beita sér fyrir því að koma upp almennum lífeyrissjóði, en það gerði hún fyrir rúmum tveim árum og hann er ekki kominn enn.

Þó að útgerðarmenn og sjómenn í þessu tilfelli lýsi því yfir, að þeir ætli að beita sér fyrir því að koma á þessum sjóði, þá er það nú ekki alveg öruggt. Mér sýnist, að þarna hefði nú verið full ástæða til þess, að ríkisstj. hefði a.m.k. lofað því alveg skuldbindandi, til þess að koma hér á sáttum, að löggjöf yrði sett um þennan lífeyrissjóð, sem þessir aðilar vildu standa að. En þannig er ekki formið, hvað sem verður um framkvæmdina. Þá tók ég eftir í þessu samkomulagi, að í niðurlagi 7. töluliðar segir: „Þeim sjómönnum, sem hættir eru störfum á sjó, skal heimil áframhaldandi aðild, enda vinni þeir í landi við útgerð.“ Enda vinni þeir í landi við útgerð? Hvað þýðir þetta? Vinnur sá bátasjómaður við útgerð, sem t.d. vinnur í frystihúsi eða í fiskvinnslustöð, eða vinna ekki aðrir skv. þessu orðalagi við útgerð en þeir, sem eru hlutarráðnir menn á bát, þó í landi séu? Ég vil nú vænta, að meiningin sé sú, að þeir bátasjómenn, sem fara í land, sem oft vill verða, og fara þá t.d. að vinna í fiskverkun, eða ýmsum öðrum útgerðarstörfum, eigi rétt á því að vera áfram í sjóðnum. En hver á þá að borga fyrir þessa menn? Ekki geta útgerðarmenn eða bátaeigendur og hásetar ákveðið það í samningi sín á milli, að þessi eða hinn frystihúsamaðurinn skuli borga sínum starfsmanni 6% af launum hans í lífeyrissjóð. Til þess þarf löggjöf, ef það á að skylda þá til þess. Þá er auðvitað komið hér upp ákvæði um það, að sumir starfsmenn í frystihúsunum hafa þarna lífeyrissjóðsréttindi og aðrir ekki. Hvaða hugsun liggur á bak við þetta? Hvernig á að framkvæma þetta? Það hefur auðvitað ekkert komið fram um það í þessum umr.

Í því samkomulagi, sem hér er birt og fjallar um fæðiskostnaðinn, segir, að það skuli miða þessar fæðisgreiðslur við úthaldsdaga. Svo segir síðar: „Ákvörðun úthaldsdagafjölda og áhafnarstærðar fer eftir almennum reglum sjóðsins,“ þ.e.a.s. Aflatryggingasjóðs. Nú auðvitað vaknar sú spurning, hvort úthaldsdagar á fiskibát eru þeir dagar, sem skráðir hafa verið á bátinn. lögskráningardagarnir. Auðvitað hefði verið það eðlilega að miða þetta við skráningardagana, þá daga, sem skipverjinn er sannanlega skráður á bátinn. Þá er sagt, að í þessum efnum skuli þó fara eftir almennum reglum um Aflatryggingasjóð. Ég þykist þekkja talsvert til þessara reglna, hef gert upp við þennan sjóð fyrir fjölda marga aðila og veit, að í ýmsum tilfellum, þar sem lögskráningardagarnir eru t.d. 100, segir sjóðurinn: „Ég viðurkenni ekki nema 70–80 daga af þessu sem úthaldsdaga og færi þetta þannig niður.“ Sjóðurinn hefur engar fastar reglur um þetta mat sitt. Hann miðar þó við nokkur tilvik, t.d. þegar það liggur fyrir, að fiskibátur á skráningartímanum hefur ekki getað haldið róðrum vegna vélarbilunar eða annarrar bilunar. Þá hefur sjóðurinn venjulega tekið þann dagafjölda og dregið hann frá skráningardagafjöldanum til þess að finna úthaldsdagafjöldann. Þá mundi sem sé samkv. þessu það koma út, að ef sjómaður á fiskibát verður fyrir því óhappi, sem oft vill nú verða, að bátur bilar í eina viku og bíður eftir viðgerð, þá fær hann ekki greiðslur upp í fæðiskostnaðinn þann tíma, þó að hann þurfi auðvitað að vera á fæði við útgerðina þessa daga alveg eins og hina, meðan á rekstri stendur. En það er sýnilega þá ætlazt til þess, að fæðisgreiðslur falli niður í þessu tilfelli. En svo færir Aflatryggingasjóður þennan dagafjölda niður í ýmsum öðrum tilvikum eftir mati og samanburði við rekstur annarra. Ég er mjög hræddur um það, að miðað við þær vinnuaðferðir. sem hafa verið hafðar hjá þessum sjóði, verði svolítið erfitt fyrir útgerðarmenn að ákveða það fyrirfram, hverju þeir eiga að halda eftir af kauptryggingu sjómanna upp í væntanlegan fæðiskostnað þeirra. Þeir vita ekkert um það, hvað Aflatryggingasjóður gerir í þessum efnum, fyrr en eftir dúk og disk, fyrr en eftir marga mánuði. En þetta voru miklu frekar aukaatriði og voru mörg fleiri af þessu tagi, sem ég hefði gjarnan viljað ræða um, en það er sýnilega enginn tími til þess að fara út í það, eins og hér er stefnt að afgreiðslu þessa máls.

Mér sýnist, að þetta mál liggi þannig fyrir, að það verði ekki um það villzt, að sjómannadeilan, sem staðið hefur að undanförnu, varð til vegna þeirrar löggjafar. sem ríkisstj. knúði hér í gegnum Alþ. í desembermánuði s.l. Mér sýnist það liggja einnig alveg glögglega fyrir, að með þeirri löggjöf var gengið freklega á umsaminn rétt sjómanna um aflahlut. Mér sýnist, að það hafi komið alveg greinilega fram, að í samningum þeim, sem fram hafa farið í sambandi við þessa deilu. hafa sjómenn gert hóflegar kröfur, bæði yfirmenn og undirmenn. Þeir hafa mjög fallið frá sínum upphaflegu kröfum til þess að reyna að ná samkomulagi, en þeirra viðsemjendur. studdir af ríkisstj., hafa sáralítið gengið til móts við þá og þegar tiltölulega lítið ber á milli. eins og við yfirmenn, þá er sagt nei og ákveðið að fara lögþvingunarleið. Mér sýnist. að það liggi líka alveg skýrt fyrir, að sú lögþvingunarleið, sem hér er ráðgerð, skapar hér mjög hættulegt fordæmi. Það hlýtur að verða litið á hana mjög alvarlegum augum af verkalýðshreyfingunni í landinu, og ég get ekki ímyndað mér annað en þessi lagasetning verði til þess að torvelda mjög samstarf allt á milli verkalýðshreyfingar í landinu og ríkisstj. Enginn vafi er á því, að þeir sjómenn, sem verða nú fyrir þessari lögþvingun, telja, að mjög hafi verið á sinn rétt gengið, og það er líka hættulegt, því að þeir eru sannarlega þýðingarmiklir starfsmenn í okkar efnahagskerfi. Það var allra sízt, eins og ég hef bent á áður í þessum umr., þörf á því eða ástæða til þess að ætla að fara að skerða umsaminn kauprétt sjómanna. Nú þurftum við einmitt meira á góðum og duglegum sjómönnum að halda til þess að koma lífi í okkar efnahagskerfi en nokkru sinni fyrr. En þetta hefur hæstv. ríkisstj. ekki skilið, og því hefur hún kosið að fara þú ógæfuleið, sem hún hefur valið með þessu frv.

Afstaða mín og okkar Alþb.-manna er sú, að við leggjum til, að þetta frv. verði fellt, og ég óska eftir því, að það fari hér fram nafnakall um afgreiðslu frv. nú við 2. umr. Við höfum bent á það, að við teljum, að rétta leiðin hefði verið sú að setja sem allra fyrst á laggirnar sérstaka sáttanefnd, til þess að leita eftir fullu samkomulagi. og við teljum, að miklar líkur bendi til þess, að hægt hefði verið að ná slíku samkomulagi.