18.02.1969
Neðri deild: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. 2. landsk. þm. beindi fsp. til mín í síðustu ræðu sinni. Nú skal ég viðurkenna það, að ég hef ekki orðalag á þeim samningum hjá mér, sem gerðir voru af Sjómannafélagi Reykjavíkur og samþykktir voru fyrir skömmu um bátakjörin, en ég þykist mega fullyrða það, að það hafi ekki verið sleppt niður neinum þeim ákvæðum varðandi vísitöluna í þessum nýju samningum. Þau ákvæði voru fyrir hendi. og með hliðsjón af því, að Sjómannafélag Reykjavíkur er eitt af aðildarfélögum Alþýðusambandsins, og það mál er ekki enn komið á dagskrá. þá þykist ég mega fullyrða það, að bæði varðandi bátasjómenn og reyndar einnig hvað varðar farmenn og togarasjómenn mun Sjómannafélag Reykjavíkur eiga aðild að Alþýðusambandinu í þeim umr., sem fara að hefjast um það mál.

Ég er einn af þeim stuðningsmönnum stjórnarinnar, sem hef gengizt undir það við þessa og aðrar umr. um þetta mál, að tefja ekki málið með því að ræða það efnislega. Ég mun standa við það. Það mun gefast tækifæri til þess síðar í vikunni að ræða þetta og önnur vandamál sem steðja að þjóðfélaginu efnislega, og þá mun ég ræða frekar um þetta mál. Ég vil hins vegar taka það fram, að það eru, eins og reyndar hæstv. sjútvmrh. tók fram í einni ræðu sinni hér í kvöld, vissulega ekki létt spor fyrir marga, sem þurfa að greiða þessu frv. atkv., og hefði vissulega verið miklu æskilegra, að lausn hefði fengizt á málinu með frjálsum samningum. Hins vegar virðist öllum þeim, sem bezt til þekkja, bera saman um það, að málið sé komið í þann hnút, að á þann hnút verði að skera. og þess vegna mun ég fylgja framgangi frv. og greiða því atkv.