18.02.1969
Neðri deild: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég þakka yfirlýsingu þessa hv. 10. þm. Reykv. Ég er honum sammála. Ég álít, að Sjómannafélag Reykjavíkur og önnur sjómannasamtök hafi engan veginn samið af sér þann rétt, sem þau eiga, eins og önnur félög, til þess að berjast fyrir því, að verðtrygging kaups verði tekin upp að nýju. Þá hlýtur líka að leiða af því, að ef þessi félög eiga þennan rétt, eiga líka þau félög, sem nú er verið að lögbinda hér, sama rétt, vegna þess að það eru sömu samningar, sem er verið að lögbinda á þau, og samkv. yfirlýsingu forsrh. einmitt, að þessi félög muni eiga sama rétt og þau, sem sömdu. Þá sem sagt stenzt ekki sú yfirlýsing, sem hér var gefin fyrr, að þau hafi ekki þennan rétt, og ef þessari skoðun minni verður ekki mótmælt, tel ég, að þögn sé sama og samþykki.