12.11.1968
Efri deild: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að ræða hér um efnahagsmálin almennt, enda þótt full ástæða sé til í sambandi við það mál, sem hér er til umræðu. En hvort tveggja er, að það hefur nú verið gert rækilega af öðrum ræðumönnum og er nú orðið áliðið nætur, svo að ég mun ekki fara að ræða efnahagsvandann í heild.

En ég tel ástæðu til að minnast á eitt atriði sérstaklega, þó að það sé nú raunar svo, að þegar um stórfellda gengisbreytingu er að ræða, veldur hún að sjálfsögðu verulegri röskun hjá mörgum þjóðfélagsþegni og mörgum einstökum hópum innan þjóðfélagsins. En þó hygg ég, að það sé einn hópur manna, sem mikil gengisfelling kemur ef til vill meira við heldur en flesta aðra, hún raskar högum ákveðins hóp meira en flestra annarra, og þá á ég við þá námsmenn, sem stunda nám sitt erlendis og eru í mjög mörgum tilfellum að berjast við það, ásamt vandamönnum sínum, að halda áfram eða ljúka námi, sem þeir hafa þegar lagt í mörg ár ævi sinnar og alla sína fjármuni og gjarnan fjármuni venzlamanna sinna í ríkum mæli.

Það er viðurkennt af öllum nú, að ég hygg, að ein af undirstöðum nútímaþjóðlífs er það, að um sé að ræða vel menntaða menn, vaxandi fjölda vel menntaðra manna, manna, sem hafa yfir margvíslegri þekkingu að ráða á ýmsum sviðum. Og því er ekki að leyna, að við verðum enn um sinn að sækja þessa menntun og þekkingu í töluvert ríkum mæli til annarra landa, annars er ekki kostur enn sem komið er. Æðri skólar hér á landi og framhaldsskólar ýmsir fullnægja okkur ekki í þessu efni, og það tekur vissulega sinn tíma að breyta þessu. Við höfum þess vegna orðið, og verðum enn um sinn, að sækja allverulegan hluta af hinni æðri menntun til annarra landa og það væri þess vegna mjög mikið óheillaspor, ef ákvörðun eins og gengisfelling yrði nú mjög erfiður þröskuldur á vegi þeirra manna, sem eru að leita sér þessarar nauðsynlegu þekkingar og menntunar erlendis.

Ég held, að það sé ekki ofmælt, að gengisfellingin í fyrra hafi orðið ýmsum námsmanni og aðstandendum námsmanna nokkuð þung í skauti. Þá var íslenzkum námsmönnum erlendis að vísu veitt sú fyrirgreiðsla, að framlag ríkissjóðs til lánasjóðs námsmanna var hækkað nokkuð, vegna gengisfellingarinnar þá, eða eitthvað nálægt því, sem gengisbreytingunni nam á þann hluta námskostnaðarins, sem hið opinbera hefur lánað fé til. En nú er þess að gæta, að þetta lánsfé, sem ríkið hefur veitt með tiltölulega góðum kjörum, er yfirleitt ekki nema einn þriðji eða í hæsta lagi 2/5 hlutar námskostnaðar, eins og hann hefur verið undanfarin ár, og hækkun námskostnaðarins að öðru leyti er allt að 2/3 hlutum í ýmsum tilfellum. Þessa hækkun námskostnaðar urðu námsmenn á s.l. hausti að þola algerlega bótalaust. Þetta veit ég, að hefur reynzt mjög örðugt fyrir marga, og í fyrra skeði þetta jafnhliða minnkandi tekjumöguleikum námsmanna og raunar ýmissa vandamanna þeirra einnig. Nú vil ég spyrja, ef einhver hæstv. ráðh., heyrir mál mitt. Hvert verður hlutskipti þeirra mörgu námsmanna, sem stunda nám við erlenda skóla? Hvert verður það nú í sambandi við þá stórfelldu gengisfellingu, sem nú hefur verið ákveðin?

Ég hef ekki nákvæmar tölur um fjölda þessara manna, námsmanna, sem segja má að séu í alxarlegu og nauðsynlegu námi, bæði háskólanámi og ýmsu öðru framhaldsnámi, tækninámi o.s.frv., en hygg, að það sé ekki mjög fjarri, að þeir séu að minnsta kosti um 700, sennilega fremur fleiri en færri. Ekki tel ég ólíklegt, að námskostnaður að meðaltali hafi verið fyrir þessa gengisfellingu að minnsta kosti 100 þús. kr. á námsmann á ári, sennilega nokkuð hærri. Þarna er þá um að ræða 70 milljónir, ef maður gerir ráð fyrir, að námsmennirnir séu 700. Nú virðist mér, að þessi upphæð hækki í íslenzkum krónum úr ca. 70 milljónum í 107–108 millj. kr. Þetta yrði vitanlega gífurlegt áfall fyrir námsmennina og fyrir aðstandendur þeirra þá, sem reyna að hjálpa þeim til þess að kljúfa hinn mikla námskostnað.

Ég vil aðeins taka dæmi. Að ef að svo færi nú, sem mér þætti nú ef til vill ekki ólíklegt, að hæstv. ríkisstj. gleymdi ekki námsmönnunum alveg heldur leiðrétti þeirra mál á svipaðan hátt og í fyrra, þ.e.a.s., að hún hækkaði eitthvað þann hluta námskostnaðar, sem ríkissjóður lánar til, en léti hitt eiga sig, þá kæmi dæmi, sem ekki er fjarri lagi, einhvern veginn þannig út: Að námskostnaður, sem hefur verið 100 þús. kr. á s.l. ári, ríkið hefur lagt þar fram fyrst og fremst með lánum úr lánasjóði væntanlega allt að 2/5 hlutum eða 40 þús. kr. þá hefur námsmaðurinn sjálfur eðavandamenn hans orðið að afla 60 þús. kr. Nú verður þessi upphæð eftir gengisfellinguna 154 þús. kr. Ef ríkið skyldi nú áfram lána 2/5 hluta námskostnaðar, ef framlag til lánasjóðsins skyldi hækka það, væri þar um að ræða 62 þús. kr. en sá hluti námskostnaðar, sem námsmaðurinn yrði sjálfur að afla fjár til, hækkaði þá úr 60 þús. kr. í 92 þús. kr.

Annað dæmi, sem einnig er nálægt veruleikanum, vildi ég nefna. Námskostnaður í öðru og dýrara landi hefur verið 120 þús. kr., lán frá ríkinu 1/3 hluti námskostnaðar eða 40 þús. kr., þessi námsmaður hefur sjálfur orðið að afla 80 þús. kr. Eftir gengisfellinguna nú verður námskostnaður þessa manns, sem áður var 120 þús. kr. á ári, að mér skilst, 186 þús. kr. Ef ríkið lánaði viðkomandi áfram 1/3 hluta námskostnaðar, væru það 62 þús. kr., en þá verður námsmaðurinn og vandamenn hans eftir gengisfellinguna að afla hvorki meira né minna heldur en 124 þús. kr. í stað 80 þús. áður.

Ég vil benda hv. ríkisstj. á þetta atriði. Þetta er ekki smátt mál fyrir þjóðarheildina, þó að það taki ekki til fleiri heldur en kannske 700 námsmanna. Það er stórmál, hvort að einhver verulegur hluti þessara manna, sem hefur verið að berjast við að kljúfa eða ljúka kannske löngum námsferli, — hvort verulegur hluti þessara manna verður hreinlega að gefast upp. Og ég tel, að á því sé mikil hætta, ef ekki verður verulega að gert í þeim hliðarráðstöfunum, sem væntanlega fylgja þessum gengismálum. Það er vitað, að tekjuöflun námsmanna hefur verið erfiðari að undanförnu heldur en á tímabili áður, og ég sé ekki annað. en að ýmsir þeirra verði að hætta og hitt sé næstum því víst, að öðrum, sem ætluðu sér og vildu fara utan til framhaldsnáms, sé leiðin algerlega lokuð, nema að verulegt tillit verði tekið til sérstöðu þessara manna, tillit tekið til þess, hversu gengisfellingin kemur harkalega við og raskar stórlega þeirra högum.