25.11.1968
Neðri deild: 18. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

39. mál, fyrirmæli Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed., þar sem ég ætla, að það hafi verið samþ. samhljóða. Eins og kunnugt er, hafa Sameinuðu þjóðirnar mjög takmarkaða getu til þess að fylgja eftir till. þeim, sem þar eru samþykktar. En einn möguleikinn til þess að gera þetta er sá að samþykkja refsiaðgerðir á þá, sem ekki vilja hlíta þessum samþykktum. Það er nú ekki oft, sem þetta kemur fyrir, og er raunar í fyrsta sinn framkvæmt fyrir tveimur árum, þegar Öryggisráðið samþykkti, að þessum refsiaðgerðum skyldi beitt gagnvart Suður-Rhodesíu vegna þess ástands, sem þar hafði skapazt. Öryggisráðið gerir samþykkt um þessar refsiaðgerðir, og þær eru skuldbindandi fyrir öll aðildarríki samtakanna. Hins vegar er ekki hægt á þeim vettvangi að samþykkja fyrirmæli til einstaklinga í aðildarlöndunum, heldur verður viðkomandi ríki að sjá um, að einstaklingarnir hlíti þeim fyrirmælum, sem Öryggisráðið samþykkti.

Efni þessa frv. er að heimila ríkisstj. að gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar kunna að vera til þess að framfylgja þeim ákvörðunum, sem Öryggisráðið tekur í þessu sambandi, og gera ríkisstj. hér kleift að gefa út fyrirmæli til allra einstaklinga þjóðarinnar um það að hlíta þessum fyrirmælum. Þessar refsiaðgerðir eru venjulega á þann hátt, að það er sett viðskiptabann á það ríki, sem um er að ræða, annaðhvort takmarkað eða algert. Í þessu tilfelli hefur það verið takmarkað, þannig að ákveðnar vörur er bannað að kaupa frá þessu landi og eins bannað að flytja þangað aðrar tilteknar vörur.

Ég þarf ekki að útskýra þetta nánar. Þetta er mjög einfalt mál. Í hv. Ed. var þessu frv. vísað til hv. allshn., og ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. verði hér einnig vísað til þeirrar nefndar.