13.02.1969
Efri deild: 42. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

135. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umræðu, um hækkun á bótum almannatrygginga, er sennilega hv. þm. þegar nokkuð kunnugt af blaðaskrifum, sem um það hafa verið, eiginlega frá því um síðustu áramót. Í sambandi við gengisbreyt. í nóvember s.l. þá lýsti ríkisstj. því yfir, að hún mundi beita sér fyrir hækkun á bótum almannatrygginga um a.m.k. 150 millj. kr. Frv. það um hækkun á bótum almannatrygginga, sem er hér til umræðu, er því flutt í samræmi við þessa yfirlýsingu ríkisstj. Með frv. þessu er lagt til, að fjölskyldubætur verði hækkaðar um 10%. Fjölskyldubætur eru nú greiddar með hverju barni, samtals 3.961 kr. á ári, en hækka samkvæmt frv. um 395 kr. og verða því frá 1. jan. s.l., ef frv. nær samþykki, 4.356 kr. á ári. Fæðingarstyrkur hækkar í kr. 10.200, eða um ca. 33%. Lagt er til, að aðrar bætur hækki um 17%. Sem dæmi má nefna ellilífeyri til einstaklinga, sem verið hefur 36.786 kr. á ári, samkv. frv. hækkar hann um 6.258 kr. og verður því 43.044 kr. á ári frá 1. jan. s.l. að telja. Í sambandi við þá miklu hækkun, sem ákveðin var á daggjöldum sjúkrahúsa, hækkaði legukostnaður á fæðingardeild Landspítalans og Fæðingarheimili Reykjavíkurborgar allverulega. Til að bæta fæðandi konum þessa miklu hækkun, er lagt til í frv., að fæðingarstyrkurinn hækki svo sem áður er getið og að sjúkrasamlög greiði legudaga, sem verða umfram 7. Samkvæmt núgildandi l. greiða sjúkrasamlög aðeins þá legudaga, sem verða umfram 9.

Með frv. er lagt til, að ákvæði þessi gildi frá I. jan. s.l., eins og hin fyrri ákvæði. Ef frv. verður að l., verður staða sængurkvenna gagnvart nefndum stofnunum í Reykjavík ekki lakari en hún hefur til þessa verið. Í fjárl. þessa árs var gert ráð fyrir 90 millj. kr. hækkun á framlagi ríkissjóðs til almannatrygginganna til þess að mæta fyrirhuguðum hækkunum á bótum. Fjölskyldubætur höfðu verið áætlaðar 292 millj. kr. á þessu ári, en þær eru greiddar að fullu af framlagi ríkissjóðs til trygginganna. Af áðurnefndum 90 millj. kr. fara því 29.2 millj. kr. til greiðslu á hækkun fjölskyldubóta. Gert er ráð fyrir því, að aðrir aðilar, sem bera uppi tryggingarnar. þ.e. hinir tryggðu, sveitarfélög og atvinnurekendur, leggi á móti þeim 60.8 millj. kr., sem ríkissjóður leggur fram, í sömu hlutföllum og ákveðin eru í 23. gr. laga nr. 40 frá 1963 um almannatryggingar. Á þennan hátt hækka bæturnar samtals um 198.1 millj. kr., eða allmiklu meira en gert var ráð fyrir í áðurnefndri yfirlýsingu ríkisstj. Þegar iðgjöld hinna tryggðu og atvinnurekenda voru ákveðin með reglugerð lögum skv. um s.l. áramót, var gert ráð fyrir hækkun iðgjaldanna í samræmi við þær hækkanir bóta, sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Hjónaiðgjöld hækka úr 4.730 kr. í 5.500, iðgjöld karla úr 4.300 kr., eins og þau eru nú, og í 5.000 kr., iðgjöld kvenna úr 3.225 kr. í 3.750 kr., iðgjöld atvinnurekenda, sem voru kr. 40 fyrir hverja vinnuviku, hækka í 48 kr. fyrir vinnuvikuna.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að bótahækkanir fyrir mánuðina jan. og febr. verði greiddar með bótagreiðslunni í marzmánuði á þessu ári. Ég vil því leggja áherzlu á, að meðferð frv. verði hraðað svo sem kostur er í n., svo að unnt sé að greiða bótahækkanir fyrir jan. og febr. með bótagreiðslum marzmánaðar, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Herra forseti. Ég tel ekki þurfa að hafa um frv. fleiri orð, en legg til, að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.