04.03.1969
Neðri deild: 59. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

135. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Áætlað er að hækkun framfærslukostnaðar af völdum síðustu gengislækkunar muni nema allt að 30%. Frv. það, sem hér liggur fyrir, miðar að því að verja 198.1 millj. kr. til þess að bæta lífeyrisþegum almannatrygginga hækkun framfærslukostnaðar. með aukningu fjölskyldubóta um 10% og hækkun annarra bótagreiðslna um 17%. Að sjálfsögðu duga þessar upphæðir ekki til þess að jafna skerðingu lífeyris vegna hækkana á lífsnauðsynjum. einkum á þetta við um fjölskyldubætur, sem hækka aðeins um 10%, og þess er þar að auki að gæta, að iðgjöld til almannatrygginga hækka verulega í kjölfarið. Enn fremur má telja líklegt, að hækkun framfærslukostnaðar lífeyrisþega verði meiri en útreiknuð meðaltalshækkun í landinu. Fjár til þessara greiðslna er aflað þannig, að ríkissjóður greiðir 90 millj. kr., hinir tryggðu 54.1 millj., sveitarsjóðir 30.4 millj. og atvinnurekendur 23.6 millj.. eða samtals 198.1 millj. Þegar um það er að ræða að verja tæplega 200 millj. kr. til þess að viðhalda raungildi tryggingabóta, að svo miklu leyti sem upphæðin dugir til þess í þeirri verðhækkanaöldu, sem nú ríður yfir landsmenn, þá koma að sjálfsögðu ýmsar leiðir til greina. Þetta mál ber þó þannig að, að erfitt er um vik að haga þessum viðbótargreiðslum á annan hátt en þann, sem lagt er til með frv., og hækka bætur einfaldlega um ákveðinn hundraðshluta án þess að gera aðrar breytingar. Vissulega geta menn þó haft þá skoðun, að réttlátara væri að nota þetta fjármagn með öðrum hætti og á þann veg, sem menn teldu, að betur nýttist til þess að aðstoða þá, sem kjaraskerðingin leikur verst, en í því fælist í raun að endurmeta sjálft tryggingakerfið. Ekki aðeins þá tillögu, sem hér er gerð, um nýtingu tiltekinnar viðbótarfjárhæðir, heldur nýtingu alls þess fjármagns, sem almannatryggingarnar verja til bótagreiðslna. Að mínum dómi verður slíkum endurbótum ekki komið við í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir. Það er þegar komið í eindaga, að Alþ. afgreiði þetta mál og naumast um annað að ræða en að hv. alþm. samþykki það eins og það liggur fyrir, hverja skoðun sem þeir kunna að hafa á því, hvernig þessu fjármagni yrði í rauninni bezt varið.

Ég mun því fylgja þessu frv. og greiða því atkv., enda þótt ég sé, eins og ég ég lýsti yfir í tryggingaráði, þegar það lá þar fyrir, engan veginn á þeirri skoðun, að það fullnægi réttlæti nú eins og bezt mætti verða að mínum dómi. Eins og ég áðan gat um, þarf þetta mál að hljóta skjótan framgang, og ég skal því ekki tefja afgreiðslu þess með löngu máli, en ég vil þó ekki láta hjá líða að minnast aðeins á örfá atriði í sambandi við almannatryggingar í heild sinni.

Í löggjöfinni um almannatryggingar hafa nokkuð togast á annars vegar hrein tryggingasjónarmið, þ.e. að líta á þær sömu augum og almenna tryggingastarfsemi. þar sem menn kaupa sér ákveðinn og sama rétt gegn sömu greiðslu, og hins vegar tekjujöfnunarsjónarmiðin. Mætti e.t.v. segja, að í framkvæmd hafi tryggingasjónarmiðin verið að sækja á, að því er lýtur að afnámi skerðingarákvæða, sem áður giltu vegna tekna bótaþega, en hins vegar hafa þó sérstök heimildarákvæði um viðbótargreiðslur til einstakra bótaþega verið nokkuð rýmkuð, en eru þó fyrst og fremst heimildar ákvæði en ekki lögbundinn réttur, sem tekur tillit til mismunandi aðstæðna bótaþega. Ég er þeirrar skoðunar, að sé tryggingalöggjöfin svo fullkomin, að bótaþegar njóti bóta, sem teljast mega öllum viðunandi til framfærslu, þá megi una því, að um sé að ræða jafnar bætur til allra, án tillits til tekjumöguleika og annarra aðstæðna. sem ráða fjárhagslegri afkomu bótaþega. Þegar hins vegar er um það að ræða eins og háttar hjá okkur, að tryggingabætur duga engan veginn til að tryggja einar sér afkomu nokkurs manns, þá ætti í ríkara mæli en ella og í ríkara mæli en nú er gert og jafnvel fyrst og fremst að nota fjármagnið með hliðsjón af aðstöðu hvers og eins bótaþega. þannig að þeir, sem verst eru staddir og hafa ekki annað að styðjast við, njóti bóta, sem gætu talizt lífvænlegur framfærslueyrir, jafnvel þótt það yrði að biða fullkomnara tryggingakerfis, að þeir, sem við betri aðstæður búa, gætu vænzt sömu greiðslu. Þetta sjónarmið tekjujöfnunar kemur helzt fram í heimildargreinum almannatryggingalaganna. Í ákvæðum þessum felast m.a. heimildir til þess að greiða uppbót á elli- og örorkulífeyri, ef sýnt þykir, að lífeyrisþegi geti ekki komizt af án hækkunarinnar, og er samkvæmt l. heimilt að verja 10% af heildarupphæðum elli- og örorkulífeyris í þessu skyni. Þá er heimilt að greiða ekki lífeyri með börnum, eða eins og l. segja með sínu kynduga orðalagi, „ef fráfall eiginkonu veldur tilfinnanlegri röskun á afkomu hans.“ Samsvarandi reglur gilda um ellilífeyrisþega, einstæða móður, sem er öryrki, svo og hjón, sem verða fyrir verulegum tekjumissi eða útgjaldaaukningu sökum örorku eiginkonu. Enn fremur er heimilt að verja allt að 10% þeirrar heildarfjárhæðar, sem árlega er varið í örorkulífeyri, til viðbótargreiðslna handa þeim, sem misst hafa 50–70% starfsorku sinnar, en annars er markið 75%. Uppbætur á elli- og örorkulífeyri eru að 3/5 hlutum greiddar af Tryggingastofnuninni, en 2/5 hluta greiða viðkomandi sveitarfélög. Það er mín skoðun, að leggja þurfi meiri áherzlu á það hlutverk almannatrygginga, sem í þessum heimildarákvæðum felst, þ.e. að koma meira til móts við þá, sem við erfiðastar aðstæður búa, og í raun þurfi ýmsar breytingar til þess, að þessum tilgangi verði betur náð. M.a. þyrfti að breyta þessum ákvæðum úr heimildum í lögbundinn rétt. enda þótt framkvæmdin á þessum heimildum fari nú fram samkv. ákveðnum starfsreglum, sem Tryggingastofnunin hefur sett sér. Nú er það svo, að þessar heimildargreiðslur, sem miðaðar eru við 10% af heildarbótum samsvarandi tegunda tryggingabótahafa ekki verið notaðar að fullu, en til þess liggja að mínum dómi tvær ástæður, sem eru óeðlilegur hemill á greiðslu þessara sérstöku hækkana á bótagreiðslum til einstakra bótaþega: Í fyrsta lagi er upplýsingastarfsemi Tryggingastofnunarinnar ekki meiri en svo, að fjölda bótaþega, gamalmenna og öryrkja, ekkla og annarra er ekki kunnugt um þessi heimildarákvæði, og ýmsir þeir, sem illa eru staddir, njóta ekki þessara heimiluðu hækkana. Í öðru lagi verkar það sem hemill á greiðslu uppbóta á elli- og örorkulífeyri, að fulltrúar sveitarsjóða, sem greiða eiga 2/5 hluta hækkananna, eiga sjálfir að sækja um þessar viðbótargreiðslur, og þar getur sparnaðarhvöt forráðamanna sveitarfélaga ráðið nokkru um, að þessi heimildarákvæði eru ekki nýtt að fullu. En ástæðan til þess, að slík mál eru á þennan hátt lögð í hendur sveitarfélaganna mætti ætla að væri sú, auk þeirrar staðreyndar, að sveitarsjóðir greiða 2/5 hluta kostnaðar, að fulltrúar hvers sveitarfélags hafa að sjálfsögðu betri aðstöðu til að dæma um þörf ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega til viðbótargreiðslna, en Tryggingastofnunin getur sjálf haft, eins og málum er nú háttað.

Og kem ég þá að enn einu atriði í starfsemi almannatrygginganna, auk upplýsingastarfseminnar, sem ég áður nefndi, sem ég tel, að bæta þurfi verulega úr, en það er félagsleg könnun á högum bótaþega. Mín skoðun er sú, að smám saman þurfi að létta af sveitarfélögunum greiðslum á 2/5 hlutum viðbótanna. eða hækkana á elli- og örorkulífeyri, en jafnhliða taki Tryggingastofnunin sjálf upp nána félagslega könnun á högum bótaþega og tryggingastarfsemin verði á grundvelli þess færð meira í það horf, að unnt sé að taka tillit til aðstæðna hvers bótaþega, þannig að einstaklingar eigi rétt á ákveðnum viðbótargreiðslum, ef um er að ræða sérstakar aðstæður, sem metnar eru gildar. Nokkrum hluta af árlegum tekjum almannatrygginga þyrfti að verja annars vegar til miklu meiri kynningar á rétti bótaþega en nú á sér stað og hins vegar félagslegra rannsókna, sem ekkert hefur verið sinnt til þessa, með það markmið, að stofnunin hafi jafnan sjálf upplýsingar um hag og aðstöðu hvers bótaþega og geti grundvallað viðbótargreiðslur af þeim upplýsingum, en ekki verði búið við það, sem nú á sér stað, að sveitárfélögin, sem greiða eiga 2/5 hluta hækkananna, hafi ein með höndum þá einu könnun á högum bótaþega, sem á sér stað. Þótt ekki væri varið nema 1/4% af tekjum lífeyristrygginga til þessara tveggja verkefna, þá væri þar árlega um að ræða milli 3 og 4 millj. kr.

Það hefur jafnan verið haft mjög á orði í umr. um kjaramál, að erfitt sé að koma tekjubótum til þeirra, sem erfiðast eiga í þjóðfélaginu, án þess að slíkar hækkanir fari um allt launakerfið. Það ætti að vera óþarft að láta slíkt hið sama gerast í tryggingakerfinu, þannig að meginhluti fjármagnsins fari fram hjá þeim. sem helzt þurfa þess með, en til þess þarf að koma ýmislegt af því, sem ég hef minnzt á, t.d. aukin réttindi til sérstakra viðbótargreiðslna, aukin upplýsingastarfsemi og auknar fétagslegar rannsóknir á högum bútaþega. Það er mín skoðun, að þegar auknu fé er veitt í tryggingakerfið, þurfi að hafa þessi sjónarmið í huga. og á ýmsan hátt má koma til móts við þá bótaþega, sem erfiðast eiga, t.d. skal ég nefna, að hugsanlegt væri, að sjúkrasamlögin greiddu hærri hluta af lyfjakostnaði ellilífeyrisþega en annarra. Það mundi verka sem hækkun á ellilífeyri til þeirra sérstaklega, sem vegna sjúkleika búa við meiri framfærslukostnað en hinir. sem hraustari eru. En þess eru mörg dæmi að verulegur hluti ellilífeyris einstakra lífeyrisþega fari til greiðslu á lyfjakostnaði. Sérstök útgjöld, sem heimili geta orðið fyrir og eru í krónutölu ámóta há hjá öllum, valda að sjálfsögðu meiri fjárhagslegum erfiðleikum hjá þeim, sem lægri tekjur hafa, en hinum. Ef slík útgjöld eru greidd úr tryggingakerfinu, eru því þau tiltölulega bezta hjálpin fyrir þá, sem erfiðast eiga með að kljúfa þann kostnað. Ég nefni sem dæmi útfararkostnað. Til þess að greiða úr almannatryggingum t.d. 15.000 kr. í útfararkostnað vegna allra dauðsfalla færu á ári hverju 20 millj. kr. af 1300 millj. kr. útgjöldum lífeyristrygginganna og mundi líklega hækka árleg iðgjöld bótaþega um 50 kr. Mér virðist fullkomlega ástæða til að taka upp slíkar greiðslur. Þær kæmu þeim bezt að notum, sem sízt ráða við sérstakar viðbótargreiðslur, sem hvenær sem er geta bætzt við venjulega framfærslu heimilis.

Þá get ég ekki stillt mig um að minnast aðeins á fjölskyldubæturnar. Fjölskyldubætur eru sérstaklega til þess fallnar að beita þeim til jöfnunar til að draga úr þeirri auknu framfærslubyrði, sem helzt í hendur við tölu barna á heimili. Til þess að það fé, sem varið er til fjölskyldubóta, komi að gagni í þessu skyni, þarf greiðslum þeirra að vera hagað þannig og tilgangur þeirra að vera sá að miða fyrst og fremst að því að jafna fjárhagslegan aðstöðumun lítilla og stórra fjölskyldna. Það hefur þó algjörlega mótað tilhögun á greiðslu fjölskyldubóta og nýtingu þess fjár, sem til þeirra er varið, að þær eru ódýrasta leið hverrar ríkisstj. til að halda niðri vísitölu framfærslukostnaðar, en til þess þarf að sjálfsögðu fyrst og fremst að tryggja, að vísitölufjölskyldan með 1.8 barn á framfæri fái sem allra mest af bótunum, því að það fjármagn, sem fer til greiðslu fjölskyldubóta með börnum fram yfir 2 á heimili, virkar ekkert á þetta kerfi. Þessi staðreynd ræður því, að hér eru fjölskyldubætur greiddar jafnháar vegna hvers og eins barns, hins fyrsta og hins tíunda í fjölskyldunni. Það má jafnvel ganga svo langt að halda því fram, að hver ríkisstj., sem vill beita fjölskyldubótafé til þess að lækka vísitölu og þar með vísitölubætur á laun, þegar þær eru greiddar, gæti haft tilhneigingu til að veita öllu fjármagninu til greiðslu á bótum með fyrsta og öðru barni, en sleppa hinum. Þá kæmi heildarfjárhæðin öll að notum til að halda niðri vísitölubótunum. Svo langt hefur að sjálfsögðu engin ríkisstj. talið sér fært að ganga, en þó ber notkun fjármagnsins, sem veitt er til fjölskyldubóta, greinileg merki þessarar viðleitni, að nota féð fyrst og fremst í baráttu gegn vísitöluhækkunum og gegn hækkun á vísitölubótum á laun, en ekki til aðstöðujöfnunar milli lítilla fjölskyldna og stórra barnafjölskyldna. Það er persónuleg skoðun mín. að þessu eigi að breyta með stighækkandi fjölskyldubótum. Í Noregi t.d. er miðað við 500 norskra kr. í greiðslú á ári með fyrsta barni, en síðan hækkandi allt að 2400 norskar kr. með fimmta barni, og fjölskyldubætur með 5 börnum nema þar um 100.000 kr. íslenzkum á ári.

Ég er einnig þeirrar skoðunar, að dálætið á vísitölufjölskyldunni með sín tæplega tvö börn og viðleitnin til þess að viðhalda, á pappírunum a.m.k., kaupmætti launa hennar hafi um of skyggt á þörfina á könnun og athugun á þróun á afkomumöguleikum stærri barnafjölskyldna og þróun á kaupmætti þeirra launa, sem verður að verja til þess að sjá fyrir stærri fjölskyldum en vísitölufjölskyldan er og hér eigi bæði ríkisvaldið og verkalýðshreyfingin hlut að máli. Á sama hátt og stjórnarvöldin hafa einbeitt sér að því að nota fjölskyldubætur til þess að halda niðri vísitölubótum á laun virðist mér, að verkalýðshreyfingin hafi um of látið sér nægja. að þessar reikningsaðferðir og fjármálaráðstafanir sýni á hverjum tíma viðhald kaupmáttar launa vísitölufjölskyldunnar, tveggja barna fjölskyldunnar, en hitt látið um of lönd og leið, hver er hin raunverulega þróun í afkomu stærri fjölskyldna, einmitt þeirra sem við erfiðari afkomumöguleika búa. Einkum er ástæða til þess að gefa þessu gaum, þegar haft er í huga, að á undanförnum árum hefur þróunin verið sú, að neyzluskattar, sérstakir skattar á brýnustu lífsnauðsynjar, hafa mjög aukizt, en hlutur beinna skatta minnkað að sama skapi, en hjá stærstu fjölskyldunum fer að sjálfsögðu hlutfallslega mest af laununum í brýnustu lífsnauðsynjar, en hinir tekjuhæstu hafa mest notið hlutfallslegrar lækkunar beinna skatta.

Ég endurtek það svo að lokum, að þótt ég hafi látið þessar almennu athugasemdir um almannatryggingarnar koma fram og sé engan veginn á þeirri skoðun, að með því frv., sem hér liggur fyrir, sé tilgreindu fjármagni varið á beztan hugsanlegan hátt, þá tel ég ekki ástæðu til annars, eins og málin eru nú vaxin, en að fylgja þessu frv. óbreyttu.