12.12.1968
Neðri deild: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

4. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft mál það, sem hér liggur fyrir, til athugunar. Hún sendi það til umsagnar nokkurra aðila, sem hún taldi eðlilegt, að um málið gæfu álit. Einnig fékk hún á sinn fund Benedikt Tómasson skólayfirlækni, sem var formaður þeirrar nefndar, sem frv. samdi. Helztu nýmæli frv. koma fram í grg. þess, og tel ég rétt að kynna þau helztu, þó að hæstv. heilbrmrh. hafi við framsögu gert allýtarlega grein fyrir því. En í grg. frv. segir:

„1. Heilbrigðisnefnd skal vera í hverju sveitarfélagi landsins. Sveitarfélögum er heimilt að sameinast um heilbrigðisnefnd með vissum takmörkunum.

2. Heilbrigðisnefnd skal öll kosin af sveitarstjórn, þar eð skylda lögreglustjóra og héraðslækna til setu í nefndunum er felld niður.

3. Ákvæði eru um vald heilbrigðisnefnda til stöðvunar á starfrækslu eða notkun.

4. Héraðslæknir er gerður faglegur ráðunautur heilbrigðisnefndar.

5. Heimila má héraðsdýralækni að sitja heilbrigðisnefndarfundi.

6. Kaupstaðir með 10 þús. íbúum eða fleiri skulu ráða sér sérmenntaða heilbrigðisfulltrúa í starfið, einn eða fleiri eftir íbúafjölda.

7. Komið skal á fót nýrri stofnun, Heilbrigðiseftirliti ríkisins, sem hefur undir stjórn landlæknis yfirumsjón með heilbrigðiseftirlitinu í landinu.“

Þetta eru þau helztu nýmæli, sem fyrirfinnast í frv. Að vísu eru þar nokkur önnur, en veigaminni og ekki ástæða til þess að rifja þau upp hér. Eins og ég sagði, var frv. sent til umsagnar nokkurra aðila, þ. á m. til Sambands ísl. sveitarfélaga og stjórnar Læknafélags Íslands. Umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga er á þá leið, að þar er lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt. Í umsögn Læknafélags Íslands, hún verður að teljast jákvæð, koma fram nokkrar ábendingar, og eina þeirra tók heilbr.- og félmn. til sérstakrar athugunar, en hún er á þá leið, að Reykjavíkursvæðið allt verði undir einu og sama heilbrigðiseftirliti. Sem form. n. hafði ég samband við ráðamenn þeirra sveitarfélaga, sem hér eiga hlut að máli, þ.e. borgarstjórnar Reykjavíkur og bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og Kópavogs og sveitarstjórnar í Garðahreppi og Seltjarnarneshreppi. Í viðtali við þessa aðila kom það fram, að þeir höfðu áhuga fyrir að kynna sér þetta mál betur og óskuðu eftir, að n. sendi sér það til umsagnar, eins og gert var, en það varð til þess að tefja nokkuð framgang málsins hjá n. Umsagnir hafa nú borizt frá þessum aðilum flestum, og kemur það fram í umsögn borgarstjórnar Reykjavíkur eða borgarlæknis, sem málið var sent til athugunar, að hann telur ekki ástæðu til að sameina þetta svæði allt í eitt umdæmi, en bendir hins vegar á, að mörg atriði í sambandi við heilbrigðismálin geti mjög vel farið saman á þessu svæði í heild, og yrði þá að sjálfsögðu gerður um það sérstakur samningur.

Frá bæjarstjórn Kópavogs kemur það álit fram, að þeir telja, að mjög vel komi til greina að sameina þau sveitarfélög, sem þar liggja næst, þ.e. Hafnarfjörð, Kópavog og Garðahrepp, í eitt umdæmi. Svipað kemur einnig fram frá hreppsnefnd Garðahrepps og Seltjarnarnesshrepps, að það komi mjög til greina, að þeir verði sameinaðir í umdæmi með þeim kaupstöðum, sem þar liggja næst. Eins og ég sagði, varð þessi ábending stjórnar Læknafélags Íslands nokkuð til þess að tefja afgreiðslu málsins hjá n., en henni þótti það þess vert, að þeir aðilar, sem þar áttu hlut að máli, fengju að skoða það nánar, og tel ég, að svo hafi verið, því að þetta vekur hjá þeim aðstöðu til þess að athuga, hvort þeir geti komið þessum málum fyrir á hagkvæmari hátt hjá sér heldur en þeir annars kannske hefðu verið með í huga. N. gerir við frv. þrjár brtt., sem ekki eru veigamiklar, en hún telur þó, að eðlilegt sé, að fram komi. En það er í fyrsta lagi við 2. gr. frv.. 1. mgr. þess, en þar segir, með leyfi forseta:

„Er þá sveitarfélögum innan sama læknishéraðs öðrum en kaupstöðum og kauptúnum heimilt að sameina umdæmi heilbrigðisnefnda, þannig að það nái yfir tvo eða fleiri hreppa.“

N. fannst þetta of þröngur rammi og leggur til, að þessi 1. mgr. 2. gr. hljóði þannig:

„Heilbrigðisnefnd skal vera í hverju sveitarfélagi landsins. Með leyfi ráðh. er þó sveitarfélögum heimilt að sameina umdæmi heilbrigðisnefnda þannig, að það nái yfir tvö eða fleiri sveitarfélög.“

Þetta gæfi t.d. sveitarfélögum hér í nágrenni Reykjavíkur, bæði kaupstöðunum og eins þeim hreppsfélögum, sem að þeim liggja, Seltjarnarnesi og Garðahreppi, aðstöðu til þess að sameinast í eitt eða fleiri umdæmi, ef ráðamenn þessara staða teldu sér það til hagræðis.

Þá gerir n. brtt. einnig við 2. gr., 3. mgr. hennar, en þar segir í 2. málsl.: „Heilbrigðisnefnd, samkv. fyrri málsl. 1. mgr., skal kosin hlutfallskosningu, ef 1/4 hluti sveitarstjórnarmanna krefst þess.“ N. leggur til, að þetta ákvæði verði fellt niður, því að í sveitarstjórnarlögum er ráð fyrir því gert, hvernig kosningu nefnda skal hagað, og ef það þykir hentara og eðlilegra að hafa hlutfallskosningu, þá er það á valdi sveitarstjórnar að ákveða slíkt og n. taldi ekki ástæðu til þess að vera að binda ákvæði um eina nefnd í lögum hvað þetta varðar. Leggur n. til, að 3. málsgr. hljóði svo:

„Heilbrigðisnefnd skal kosin af sveitarstjórn til fjögurra ára í senn að afloknum hverjum almennum sveitarstjórnarkosningum. Um kosningatilhögun heilbrigðisnefndar samkv. 2. málsl. 1. mgr. skulu vera ákvæði í samningum sveitarfélaga um sameiningu umdæma.“

Það segir sig sjálft, að ef fleiri sveitarfélög sameinast í eitt umdæmi, verður að hafa þar um samning, hvernig kjósa skuli heilbrigðisnefnd.

Við 5. gr. gerir n. þá brtt., að síðasta mgr. falli niður, en hún hljóðar svo:

„Héraðslækni skal gefinn kostur á að sitja sveitarstjórnarfund, þegar heilbrigðismál eru til umr., og hefur hann þar sama rétt og á fundum heilbrigðisnefndar.“

Heilbrn. er þeirrar skoðunar, að það sé ástæðulaust að hafa þetta ákvæði í l., því að ef sveitarstjórn óskar þess að kalla sérstaka aðila á sinn fund, þá hafi hún samkv. sveitarstjórnarlögunum og eðli málsins aðstöðu til þess að gera það. Þetta ákvæði er í gildandi l.. en n. telur ekki ástæðu til, að það verði framlengt í þeim l., sem hér liggja fyrir.

Við 7. gr. gerir n. brtt. og leggur til, að 5. mgr. orðist svo: „Sveitarstjórn ræður heilbrigðisfulltrúa að fenginni till. heilbrigðisnefndar og umsögn héraðslæknis og setur honum erindisbréf með ráði sömu aðila. Laun hans skulu greidd úr sveitarsjóði.“ Breytingin, sem þarna er lagt til, að gerð verði, er sú, að í frv. er gert ráð fyrir, að bæði heilbrigðisnefnd og héraðslæknir skuli gera till. um ráðningu heilbrigðisfulltrúa til sveitarstjórnar. N. telur eðlilegra, að það sé heilbrigðisnefnd ein, sem að fenginni umsögn héraðslæknis gerir till. til sveitarstjórnar um ráðningu heilbrigðisfulltrúa.

Ég tel ekki, að ástæða sé til að svo stöddu að fara um þetta fleiri orðum, en n. leggur til, að frv. verði samþ. Einstakir nm. hafa þó áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.