18.11.1968
Neðri deild: 16. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

51. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er þáttur í þeirri fyrirætlan, að Alþ. setji nýja löggjöf um ríkisskjalasöfnin öll. Gildandi lög um Þjóðskjalasafn eru frá árinu 1915, mjög fáorð, en reglugerð var áður gefin út, og hefur hún raunverulega verið sá grundvöllur, sem starf safnsins hefur hvílt á. Þess vegna þótti nú tímabært um leið og lögð hafa verið fram frv. um hin ríkissöfnin að leggja einnig fram frv. um Þjóðskjalasafn Íslands, sem í aðalatriðum hvílir á sama grundvelli og þau frv., sem hafa verið flutt um Landsbókasafn, Þjóðminjasafn og Listasafn. Það er rétt, að það komi fram hér, að þó lagasetningarnar um Þjóðskjalasafn hafi ekki verið margar né margbrotnar, þá hefur þó á grundvelli gildandi reglugerðar verið um að ræða ýmis nýmæli í starfsemi safnsins á undanförnum árum. Þess er fyrst að geta, að 1952 komu mormónar hingað og fengu leyfi til þess að taka míkrófilmur af öllum helztu ættfræðiheimildum skjalasafnsins, þ. á m. manntölum, kirkjubókum, dómabókum og skiptabókum, eins og þeim var þá raunar heimilað í öllum meiri háttar skjalasöfnum annars staðar á Norðurlöndum og víðar. Þjóðskjalasafnið fékk, sér að kostnaðarlausu, eitt eintak af hverri spólu, sem þeir tóku hér, og áskotnuðust safninu þar um 1000 spólur, og þar með ágæt lestrarvél, og var þetta stofn að ágætu og mjög handhægu míkrófilmusafni í Þjóðskjalasafni, sem síðan hefur verið lögð rækt við að auka með ári hverju.

Árið 1959 var einnig byrjað að afrita gömul manntöl skjalasafnsins á vél til afnota fyrir gesti í stað frumritanna, sem lágu undir beinni hættu og skemmdum af völdum mikillar notkunar. Slík afrit liggja nú fyrir af manntölum 1870, 1880, 1890, 1920 og 1930, og verið er nú af kappi að vinna að því að afrita manntalið 1860. Þetta hefur forðað dýrmætum frumskjölum frá eyðileggingu.

Fyrir fjórum árum var í svipuðum tilgangi byrjað að ljósrita gamlar kirkjubækur skjalasafnsins, sem allt of lengi hafa sætt mikilli ofnotkun og þess vegna beinlínis legið undir skemmdum. Þá er rétt að geta þess þáttar í starfsemi Þjóðskjalasafnsins, sem er þýðingarmikill þáttur skjalavörzlunnar, en það er skjalaviðgerðarstofnun, sem komið er á fót á árunum 1964–1965, en hún annast einnig handritaviðgerðir fyrir Landsbókasafn og Handritastofnun. Hefur á þessari nýju deild innan Þjóðskjalasafnsins verið unnið ómetanlegt starf að varðveizlu skjala og annarra dýrmætra heimilda. En stærsta og merkasta nýjungin í starfi Þjóðskjalasafnsins á undanförnum árum er þó sú, að smám saman hafa verið keyptir stálskápar á rennibrautum, sem síðan 1964 hefur verið komið fyrir í skjalageymslurými safnsins á tveim hæðum af þeim fimm, sem safnið hefur til umráða í vesturenda Safnahússins. Hér er ekki aðeins um að ræða nýjar og mjög fullkomnar geymslur fyrir skjöl safnsins, heldur er hér einnig um að ræða verulega aukningu á geymslurými hússins, en við þessa endurbót hefur geymslurými þess aukizt um því sem næst 60%. Þetta hefur að sjálfsögðu allt verið hægt að gera án þess að til þess hafi þurft sérstakan lagagrundvöll, og verður þessu starfi að sjálfsögðu haldið áfram. En um t.d. handritaviðgerðarstofnunina voru engin ákvæði, hvorki í gömlu I. eða gildandi l. né heldur í reglugerðinni, en ákvæði eru tekin upp um starfsemi hennar og hlutverk í þetta frv. Þá eru lagaákvæði um starfsmenn safnsins, launakjör þeirra og fjölda og skipunarhátt, samræmd því, sem er í hinum frv., sem lögð hafa verið fyrir hið háa Alþingi.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. menntmn.