04.03.1969
Efri deild: 54. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

51. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Menntmn. hefur athugað þetta frv. til l. um Þjóðskjalasafn Íslands. Ef frv. þetta verður að lögum, sem reyndar má nú nokkurn veginn víst telja, leysir það af hólmi núgildandi lög, sem eru orðin meira en hálfrar aldar gömul, en gildandi lög eru nr. 39 frá 1915. Þau lög eru ekki mikil að vöxtum. aðeins tvær stuttar lagagr., en hins vegar er allítarlegar reglur um starfsemi Þjóðskjalasafnsins að finna í reglugerð frá 1916. Eins og kemur fram í nál. á þskj. 302, leggur n. til, að frv. verði samþ., en hins vegar er rétt, að það komi hér fram, þegar mælt er fyrir nál., að í menntmn. kom það til athugunar, hvort ástæða væri til að kveða í sjálfum l. nánar á um afhendingarskyldu skjala til Þjóðskjalasafns, skjala opinberra embætta og stofnana, en að slíkri afhendingarskyldu er vikið í 1. tölulið 2. gr. frv.

Í reglugerðinni frá 1916 eru ákvæði um það, hvenær slík skjöl séu afhendingarskyld, og jafnframt taldar upp þær stofnanir og embætti, sem undir þetta falla. Aðalreglan er sú, að skjöl séu afhendingarskyld, þegar 20 ár eru liðin frá því, að þau fyrst voru tekin í notkun, en þó ekki á meðan þau enn eru notuð, þ.e.a.s. bækur embætta og stofnana hafa enn ekki verið skrifaðar út til fulls. Þetta ákvæði reglugerðarinnar um afhendingarskyldu er þó túlkað þannig, að rn. geti leyft, að skjöl, sem skylt er orðið að afhenda, séu áfram við embætti eða stofnun, og það mun líka svo vera með ýmsar bækur, m.a. t.d. veðmálabækur o.fl. varðandi réttindi yfir fasteignum o.s.frv. Þjóðskjalasafnið hefur, að ég ætla, ekki gengið mjög ríkt eftir afhendingu skjala nema þá að sjálfsögðu þeirra, sem eru sérlega þýðingarmikil, en ég býst líka við, að safninu muni vera orðinn nokkur vandi á höndum að ganga ríkt eftir afhendingu skjala, því að skortur á geymslurými er vandamál, sem Þjóðskjalasafnið og slík söfn reyndar víða um lönd horfast í augu við og verður erfiðara viðfangs með hverju ári sem líður, vegna þess að stöðugt eykst magn það af skjölum, sem hrúgast upp hjá embættum og stofnunum, sem varðveita þarf. Rétt er að geta þess. enda kemur það fram í aths. við frv., að nýlega hefur verið bætt mjög um í þeim efnum í skjalageymslum Þjóðskjalasafns, en með nýtízkuútbúnaði í skjalageymslum og varðveizlu skjala á míkrófilmum, sem mér er sagt, að muni nú þó vera æðikostnaðarsamt, mun m.a. vera hægt að leysa vandann að vissu marki, en þó ljóst, að því eru takmörk sett, hve langt slíkar aðgerðir hrökkva.

Ég skal að lokum geta þess, að í viðtali við núverandi þjóðskjalavörð lét hann í ljós, þegar það var undir hann borið, hvort hann hefði nokkuð við það að athuga eða teldi ekki eðlilegt, að í l. sjálfum yrði ákvæði um tímamörk afhendingarskyldu, að hann áleit, að 20 ára viðmiðun með þeim takmörkunum, sem áður er getið, væri mjög eðlileg. En hins vegar áleit hann þó, að þegar viss árafjöldi, og það ætla ég, að hann hafi nefnt 50 ár, er liðinn frá því, að skjöl fyrst voru tekin í notkun, ættu þau fortakslaust að vera afhendingarskyld, þó að þau séu ekki fullnotuð, þ.e.a.s. embættisbækur, sem ekki hafa verið skrifaðar út til fulls, og nefndi í því sambandi t.d. kirkjubækur í mjög fámennum söfnuðum.

Eftir að málið hafði verið rætt eða þessi hugmynd hafði verið rædd í n., var þó niðurstaðan sú, að n. flytti ekki brtt. við frv.. en í framsögu yrði hins vegar getið þessara umr. í n.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um málið nema tilefni gefist til og vísa þá aftur til nál. á þskj. nr. 302, þar sem segir, að n. hafi athugað frv. og leggi til, að það verði samþ.