19.11.1968
Efri deild: 16. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

68. mál, ráðstafanir vegna flutninga sjósaltaðrar síldar af fjarlægum miðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur af þskj. þessa máls, þá er það flutt til staðfestingar á brbl., sem samkomulag varð um að setja á s.l. vori, skömmu eftir lok síðasta Alþ., og voru till. nefndar um þann vanda, sem fyrirsjáanlega framundan var, vegna þeirrar fjarlægðar, sem síldin var í frá hinum venjulegu íslenzku miðum. Lögin voru gefin út í framhaldi af till. umræddrar nefndar, sem skipuð hafði verið hinn 20. febr. s.l. til að gera till. um ráðstafanir til að leysa eftir því sem tök yrðu á þann vanda, sem skapaðist við það, að orðið hefur að sækja síldina á fjarlæg mið. Þessi lög eru aðeins einn þáttur í mörgum alhliða ráðstöfunum, sem gerðar voru s.l. vor til bættrar þjónustu við síldveiðiflotann á fjarlægum miðum. Eftir að lögin höfðu verið gefin út, var gefin út reglugerð um ráðstafanir vegna flutninga saltaðrar og ísvarinnar síldar af fjarlægum miðum á þessu sumri. Lögin og reglugerðin fjölluðu um lántökuheimildir, framkvæmd og greiðslukostnað við þessa flutninga. Síldarútvegsnefnd var falið að hafa á hendi framkvæmd flutninga saltaðrar síldar af fjarlægum miðum til hafna hér á landi á þessu sumri. Var nefndinni heimilað að taka á leigu flutningaskip í þessu skyni og að gera þær aðrar ráðstafanir, sem nauðsynlegar teljast til að tryggja framgang flutninganna. Ákveðið var að greiða 130 kr. í flutningastyrk á fiskipakkaða tunnu til þeirra veiðiskipa og móðurskipa, sem fluttu saltaða síld af fjarlægum miðum til íslenzkra hafna. Enn fremur var heimilað að verja allt að 3 millj. kr. til að styrkja flutninga á ísvarinni síld af fjarlægum miðum.

Síldarútvegsnefnd tók á leigu 2 skip, Caterine og Laxá, til síldarflutninganna. Skipin fluttu tiltölulega mjög lítið magn á land, en á hinn bóginn veittu þau mjög verðmæta og vinsæla þjónustu með því að sjá skipunum fyrir tunnum og salti. Sjósaltaðar voru rúml. 66 þús. tunnur, eða rúmur þriðjungur þess magns, sem enn þá hefur tekizt að salta upp í gerða samninga, og nam flutningastyrkur á sjósaltaða síld rúml. 8.5 millj. kr. Ísvarin og kæld síld, sem greiddur var flutningastyrkur með, nam tæpum 35 þús. tunnum, og greiddar voru rúmar 2 millj. kr. í slíkan flutningastyrk. Samtals voru því greiddar 101/2 millj. kr. í flutningastyrk samkv. lögunum, eða á samt. 100 þús. tunnur saltsíldar. Ekki þarf að útlista það, að með þessu móti hefur síldin orðið miklu verðmætari vara en hún er til bræðslu. Segja má. að flutningastyrkirnir hafi ótvírætt orðið til þess, að mikið magn var saltað um borð í veiðiskipunum, en í vor töldu margir, að erfitt mundi reynast að fá sjómenn til að salta um borð í veiðiskipunum sjálfum. Þótt flutningaskipin hafi flutt lítið magn á land, er það þó álit margra, er að sjósöltuninni hafa staðið, að aðstoð flutningaskipanna sé meginforsenda þess, að sjósöltun í mörgum tilfellum fór fram. Einnig er á það að líta, að sumir skipstjórar hefðu e.t.v. farið öðru vísi að og hagnýtt sér betur þessa þjónustu, ef þeir hefðu haft þá reynslu í vor, sem þeir fengu á þessu sumri. óhikað má segja, að reynslan af þessum tilraunum með flutninga saltaðrar og ísvarinnar síldar í sumar hafi reynzt veiðiflotanum mjög mikilvæg. Við ættum að geta undirbúið næsta sumar síldarvertíð með hliðsjón af þessari reynslu mun betur en okkur tókst í vor. Þá er á það að líta, að flutningarnir hafa orðið okkur að öðru leyti mjög verðmætir. Talið er, að flutningar þessir hafi stórbætt aðstöðu okkar á sænska, finnska og rússneska markaðnum frá því, sem útlit var fyrir. Við höfum á ný vakið traust kaupenda saltsíldar með því að sýna vilja og getu til að framleiða saltsíld að sumrinu til, þótt engin síld veiddist í námunda við landið á þeim árstíma. Er það einkum mikils virði, þar sem síldarsöltun í haust hefur verið mjög lítil og kom seint til, og hefur sú þróun ekki sízt aukið gildi sjósöltunarinnar í sumar.

Ég tel ekki þörf á því, herra forseti, að fara nánar út í einstakar greinar frv., þær eru svo ljósar og skýrar, að þess gerist ekki þörf. Ég vildi mega vænta þess, að frv. yrði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og háttv. sjútvn.